Lífsferilsgreining nýbygginga í byggingareglugerð 2025

Lífsferilsgreiningar á nýbyggingum verður hluti af byggingarreglugerð þar sem mælt verður kolefnisspor mannvirkja yfir lífsskeið þeirra. HMS kynnti nýverið breytingar á núverandi byggingarreglugerð um innleiðingu lífsferilsgreiningar (e. Life cycle analysis eða LCA) sem mælir umhverfisáhrif mannvirkja yfir allt lífsskeið þeirra. Breytingarnar fela í sér að frá og með 1. september 2025 verður gerð krafa um gerð lífsferilsgreininga fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3, sbr. 1.3.2. gr. í byggingarreglugerð.

Lífsferilsgreining (e. life cycle assessment, LCA, einnig þekkt sem vistferilsgreining) er stöðluð aðferðafræði sem notuð er til að meta heildstæð umhverfisáhrif vöru eða þjónustu (staðbundin og hnattræn) yfir allan líftímann, með öðrum orðum frá vöggu til grafar. Aðferðafræðin er stöðluð (ÍST EN ISO 14040 og ÍST EN ISO 14044) og skilar greiningin tölulegum niðurstöðum fyrir ólíka flokka umhverfisáhrifa, m.a. kolefnisspor eða losun gróðurhúsalofttegunda (hlýnun jarðar). Með henni eru kortlögð umhverfisáhrif vegna öflunar hráefna, flutninga, framleiðslu, notkunar og úrgangsmeðhöndlunar fyrir viðkomandi vöru eða þjónustu.

Breytingin var einkum unnin á grundvelli vinnu starfshóps sem myndaður var til að gera tillögu að samræmdri nálgun við gerð lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Starfshópurinn var settur á fót á vegum Byggjum grænni framtíð í ágúst 2022. Í vinnu starfshópsins var litið til þróunar mála á Norðurlöndunum auk þess sem haldnar voru tvær opnar vinnustofur, fjöldi sérfræðinga kallaðir til og umsagna óskað. Tillögur hópsins voru lagðar fram fyrir stýrihóp um endurskoðun á byggingarreglugerð og þær síðan settar í umsagnarferli á Samráðsgátt.

ÍST EN ISO 14040 og ÍST EN ISO 14044 má nálgast í Staðlabúðinni. 

Fréttin er tekin af vef HMS

Breytingarnar á byggingarreglugerð voru kynntar á hádegisfundi í húsnæði HMS í Borgartúni 21 þann 26. mars 2024.

Upptöku af fundinum má sjá hér að neðan.

Menu
Top