Staðlar og stöðlun

Hér má sjá hvernig staðlar skarast á mismunandi sviðum. Þeir geta verið alþjóðlegir, evrópskir, landsstaðlar eða atvinnugreinastaðlar. Efnislega varða þeir meira eða minna allt okkar daglega líf; mannvirki, raftæki, matvæli, vélar, stjórnunarkerfi o.s.frv. Inntak þeirra getur síðan verið að segja til um staðlaðar stærðir, kröfur til að tryggja virkni eða verkferla eða segja til um aðferðir við framleiðslu, prófun, hönnun o.s.frv.

Staðlar eru því ekki eitthvað eitt. Þeir geta innihaldið reglur, leiðbeiningar, viðmið og tæknilegar útfærslur á sértæku viðfangsefni. Þeir miða að því að tryggja virkni og samvirkni, öryggi, gæði, neytenda-, heilsu- og umhverfisvernd. Með þeim er hagkvæmni og framleiðni aukin, skilvirkni og afköst. Notkun þeirra dregur úr kostnaði og þeir innihalda lausnir við samfélagslegum áskorunum. Staðlar eru hins vegar alltaf sammæli hagaðila um bestu mögulegu útfærslu á viðfangsefninu.

Staðall er skilgreindur á eftirfarandi hátt í ÍST EN 45020:2006 – Standardization and related activities: „Skjal, ákvarðað með sammæli og samþykkt af viðurkenndum aðila, þar sem settar eru fram til algengrar og endurtekinnar notkunar, reglur, leiðbeiningar eða eiginleikar fyrir starfsemi eða afrakstur hennar í þeim tilgangi að ná fram sem mestri samskipan í tilteknu samhengi.“

Staðlar eru notaðir af mörgum. Þeir tryggja sameiginlegan skilning á kröfum og samningsefni, auka aðgengi að mörkuðum og stuðla að því að tilteknum markmiðum sé náð í samfélaginu. Þau markmið geta verið örugg mannvirki, jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, hættulaus leikföng eða árangur í umhverfismálum. Neytendur hafa mikinn hag af því að stöðlun og staðlagerð sé virk og í stöðugri þróun. Gagnsemi stöðlunar kemur skýrast í ljós þegar við verðum fyrir óþægindum eða hættu vegna skorts á þeim. Flest okkar hugsa svo ekkert um þá þegar allt virkar vel og daglegt líf gengur sinn vanagang. Nánar má lesa um ávinning staðlanotkunar í öðrum flipa neðan á þessari síðu.

Staðlar eru gjarnan svör við síendurteknum vandamálum sem hagaðilar vilja leysa og þeir eru notaðir til að samræma og samhæfa kröfur og viðmið. Í flestum ríkjum heims eru rekin landsstaðlasamtök sem sjá um stöðlun og fylgja samræmdum leiðbeiningum og formkröfum við það verkefni.

Stöðlunarvinna er þannig undir verkstjórn óháðra staðlasamtaka en hagaðilar eiga alltaf inntakið og sammælið. Auk landsstaðlasamtaka eru rekin þrenn staðlasamtök í Evrópu (ETSI – fjarskiptastaðalasamtök, CENELEC – rafstaðlasamtök og CEN – almenn samtök sem sjá um stöðlun á öðrum sviðum) og önnur þrenn alþjóðleg (ITU- Alþjóða fjarskiptasambandið, IEC – Alþjóða raftækniráðið og ISO – Alþjóðleg staðlasamtök).  Staðlaráð Íslands á aðild að fimm þeirra.

Á vettvangi þessarra samtaka eru starfræk fagstaðlaráð og undir þeim tækninefndir og vinnuhópar sem hafa eiginlega staðlagerð með höndum. Í staðlagerð felst sú krafa að hagaðilar geti allir átt aðild að tækninefnd eða vinnuhópi þar sem raddir allra hagaðila heyrast. Íslendingar hafa aðgang að hundruðum tækninefnda sem starfræktar eru og hafa þar tækifæri til að gæta sinna hagsmuna, hafa áhrif á inntak staðla, treysta tengslanet sitt og hafa aðgang að upplýsingum um þróun í tilteknum atvinnugreinum, upplýsingum sem ekki eru aðgengilegar annars staðar.  Mikið er lagt upp úr gagnsæi, frjálsri þátttöku og síðast en ekki síst sammæli um niðurstöður. Sammæli þýðir þó ekki endilega að niðurstaða þurfi að vera samhljóða eða einróma.

Skilgreiningu á sammæli er að finna í ÍST EN 45020:2006: „Sammæli telst hafa náðst þegar ekki er viðvarandi andstaða við mikilvæga hluti staðalsins hjá þeim sem mestra hagsmuna hafa að gæta og þeirri stöðu hefur verið náð með ferli þar sem leitast er við að taka tillit til skoðana og allra hlutaðeigandi aðila og sætta andstæða/ólíka hagsmuni.“

Staðlaráð hefur gefið út leiðbeiningar um þátttöku í staðlastarfi

ISO hefur gefið út leiðbeiningar til þátttakenda í staðlastarfi á þeirra vegum

CEN og CENELEC hafa gefið út leiðbeiningar um stöðlun vegna þarfa lítilla og meðalstórra fyrirtækja 

Staðlaráð sjálft fylgir starfsreglum sem samþykktar eru af fagráðherra staðlamála 

Fagstaðlaráð fylgja eigin starfsreglum um stjórn stöðlunarverkefna

Staðlaráð hefur einnig gefið út reglur um annars konar stöðlunarskjöl en staðla, þ.e. tækniforskriftir, tækniskýrslur og vinnustofusamþykktir. Þessar tegundir stöðlunarskjala hafa mismunandi tilgang og eru nauðsynlegur hluti af staðlagerð.

Oftast valfrjálsir

Staðlar eru alla jafna opinber en valfrjáls verkfæri sem hagaðilar búa til og sammælast um að nota vegna ávinnings af því að nota verkfæri sem búin hafa verið til af bestu sérfræðingum með samvinnu og sammæli um niðurstöður.

Ávinningur af staðlanotkun hefur verið rannsakaður víða um heim. Rauði þráðurinn í niðurstöðum þeirra rannsókna er að staðlar auki framleiðni fyrirtækja og ríkja, auki hagkvæmni, auki aðgengi að mörkuðum, auki traust viðskiptavina, bæti hlítni við lög og reglur, treysti farveg fyrir nýsköpun og stuðli að betri árangri á sviði samfélagslegra áskorana. Samkeppnishæfni þeirra sem nota staðla eykst einnig verulega og með þeim er neytenda- og umhverfisvernd tryggð sem og öryggi fólks og heilsa.

Alþjóðaviðskiptastofnunin WTO leggur mikið upp úr staðlanotkun til að brjóta niður tæknilegar viðskiptahindranir og auka öryggi og traust við samningagerð.

En líka skyldubundnir

Löggjafar um allan heim nota staðla markvisst til að treysta regluverkið og t.d. segja til um tæknilegar útfærslur á kröfum laganna. Með tilvísun til staðla í lögum og reglugerðum verða þeir gjarnan skyldubundnir. Svokölluð afleidd löggjöf.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins notar staðla til að tryggja einsleitni og samræmi á innri markaði í Evrópu og hefur lögbundið ramma sem tryggir frjálst flæði vöru á innri markaði í allri Evrópu.

CE merkið er liður í þeim ramma en notkun þess byggir á því að framleiðendur vöru og þjónustu sem fellur undir eina af vöru- og þjónustutilskipunum ESB mega nota CE merkið ef varan eða þjónustan uppfyllir þær kröfur sem s.k. samhæfðir staðlar segja til um. CE merkingin sem slík er svo ávísun á frjálst flæði vörunnar yfir landamæri, innan Evrópu. Hvert og eitt ríki starfrækir svo opinbert markaðseftirlit með þessum vörum á eigin markaði.

Samhæfðir staðlar og CE merking tryggja umhverfis- og neytendavernd og þar með öryggi okkar og heilsu. Þessi hluti löggjafarinnar verður þannig til að framkvæmdastjórn ESB á í traustu og öruggu samstarfi við evrópsku staðlasamtökin CEN og CENELEC. Þegar greind hefur verið þörf fyrir stöðlun á tilteknu sviði er stöðlunarbeiðni send þessum samtökum sem setja í gang stöðlunarvinnu á sviðinu. Auglýst er eftir þátttakendum í starfið og þess gætt að hagaðilar á tilteknu sviði eigi möguleika á þátttöku. Þegar stöðlunarvinnu lýkur og gefinn hefur verið út samhæfður staðall, t.d. á sviði leikfanga, er samhæfði staðallinn auglýstur í Stjórnartíðindum ESB og honum bætt við lista sem fylgir vörutilskipun um öryggi leikfanga. Með því verður innihald hans hluti af tilskipuninni og öllum ríkjum í Evrópu ber að fylgja honum. EFTA ríkin Ísland, Noregur og Lichtenstein eru bundin af þeirri skyldu líka. Landsstaðlasamtökin staðfesta umræddan staðal sem íslenskan og þannig verður hann hluti af lagarammanum hér á landi.  Þegar vara, sem krafist er CE merkingar á, er markaðsett í einhverju því landi sem aðild á að innri markaði ESB ber framleiðanda að uppfylla kröfur staðla um framleiðsluna, prófanir og merkingar og framkvæma (eftir atvikum með aðkomu vottunar- eða prófunarstofu) samræmismat. Nánar má lesa um CE merkingar í næsta flipa á þessari síðu.

Staðlar eru órjúfanlegur hlut af íslensku regluverki. Vísað er til fjölda staðla í ýmsum lögum. Byggingarreglugerð er gott dæmi um það hvernig staðlar styðja við löggjöf með tæknilegri útfærslu á kröfum, t.d. um þolhönnun mannvirkja, byggingarstig og varmatap húsa auk þess sem þar er fjallað um hljóðvist, fjarskiptalagnir, loftræstingu, flatarmálsútreikninga o.s.frv.

Í 49. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 er gerð krafa um að útboðsgögn innihaldi s.k. tæknilýsingar. Tæknilýsingar eru hver kyns stöðlunarskjöl, innlendiir staðlar, alþjóðlegir staðlar, tækniforskriftir, tæknisamþykki og önnur tæknileg tilvísunarkerfi sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót.

Vísað er til ýmis konar staðla í tugum laga í lagasafni Alþingis. Þeir eru þó ekki allir skyldubundnir því stundum er vísað til þeirra til leiðbeiningar. Mismunandi aðferðir við tilvísun til staðla í löggjöf ræður því hvort þeir verða eiginlegur hluti löggjafarinnar eða ekki. Um réttaráhrif mismunandi aðferða við tilvísun má lesa í ritinu Staðlar og löggjöf

CE merking

Á Evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að markaðssetja vörur án CE merkis, heyri þær undir svonefndar nýaðferðartilskipanir. Þetta gildir einnig um íslenskar vörur á íslenskum markaði. Framleiðendur vara bera sjálfir ábyrgð á CE merkingu vara. Innflytjendur bera þó einnig ábyrgð á að vörur sem þeir flytja inn beri CE merki, ef við á.

Mjög brýnt er fyrir framleiðendur og innflytjendur að gæta að því hvort vörur sem þeir framleiða eða flytja inn heyri undir tilteknar tilskipanir Evrópusambandsins. Ef sú er raunin verður að fylgja ákvæðum þeirra og sýna fram á samræmi við kröfurnar með CE merkingu.

Þegar vara hefur verið CE merkt er heimilt að markaðssetja hana án hindrana á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, enda uppfylli varan þá kröfur sem til hennar eru gerðar.

CE merking vöru gefur til kynna að varan uppfylli lágmarkskröfur um umhverfis- öryggis- og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum. Í því felst ekki trygging fyrir gæðum eða endingu. Sá sem telur sig fullnægja öllum ákvæðum allra tilskipana, sem vöru hans varða hefur leyfi til að auðkenna vöru sína með stöfunum CE. CE merking tiltekinnar vöru er þannig ekki eingöngu yfirlýsing um að varan sé í samræmi við ákveðna tilskipun heldur sérhverja nýaðferðartilskipun sem gæti átt við vöruna. Slík auðkenning er skilyrði fyrir markaðssetningu þeirra vöruflokka sem tilskipanirnar ná yfir. CE merki má eingöngu nota til að gefa til kynna samræmi við nýaðferðartilskipanir en ekki eldri tæknilegar tilskipanir sem kunna að vera enn í gildi. Undir liðnum "Nýaðferðartilskipanir" hér að neðan má finna tilskipanir, reglugerðir og yfirlit yfir staðla.

Endurmenntun Háskóla Íslands í samstarfi við Staðlaráð heldur reglulega námskeið um CE merkingar.

Forsaga CE merkisins

Samræming á innri markaði ESB og Evrópska efnahagssvæðisins eru ein meginstoð fjórfrelsisins, þ.e. frjálst flæði fólks, vara, þjónustu og fjármagns en með henni eru brotnar niður tæknilegar viðskiptahindranir á milli landa.

Áður fyrr voru verulegar tæknilegar viðskiptahindranir á mörkuðum í Evrópu því staðlar, mál og vog, tæknilegar reglur, mismunandi gæðaeftirlitskröfur og kröfur um leyfisveitingar voru ólíkar á milli landa. Vissulega er nauðsynlegt að löggjafinn geri kröfur til að tryggja öryggi og heilsuvernd en það er engin nauðsyn til þess að hvert ríki geri mismunandi kröfur. Slíkur mismunur var oft ekki kominn til af nauðsyn heldur var með honum verið að vernda innlendan iðnað fyrir utanaðkomandi samkeppni.

Markmiðum um einsleitan innri markað í Evrópu, og þar með afnámi tæknilegra viðskiptahindrana, mátti hins vegar ná með því að taka upp gagnkvæma viðurkenningu á stöðlum og eftirliti einstakra landa þannig að vara, sem hefur verið samþykkt til sölu í einu landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, eigi sjálfkrafa og tafarlausan aðgang að öllum markaði svæðisins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði línurnar með grunnkröfum um að samræmdar reglur um öryggi og heilsuvernd skulu gilda í öllum ríkjum ESB. Með þeim reglum var jafnframt sagt til um að vara sem sett er löglega á markað í einu ríki skuli vera fullboðleg í öðrum ríkjum. Þá var tekin upp gagnkvæm viðurkenning á prófunum og vottorðum þannig að einstök ríki geta ekki krafist prófana, skoðana eða annars sem hindrar aðgengi að markaði. CE merkið varð birtingarmynd þessa kerfis enda sagði það til um að tilteknar lágmarkskröfur þyrfti að upfylla til að mega markaðssetja tilteknar vörutegundir í Evrópu. Væru þær kröfur uppfylltar mætti CE merkja vöruna og merkið sem slíkt veitir aðgang að mörkuðum allra ríkja sem aðild eiga að evrópska efnahagssvæðinu.

Notkum samhæfðra staðla til samræmingar krafna á innri markaði í Evrópu þykir hafa heppnast svo vel að framkvæmdastjórn ESB setti sér sérstaka stefnu á sviðinu árið 2022 þar sem áhersla verður enn aukin á staðlanotkun ekki síst varðandi nýjar áskoranir um græna og stafræna uppbyggingu til að tryggja samkeppnishæfni Evrópu.

Tilskipanir og staðlar

Hér er mynd sem sýnir tengsl staðla og tilskipana.

Í viðauka við hverja tilskipun er birtur listi yfir þá Evrópustaðla (EN) sem eiga við hverju sinni. Uppfylli vara kröfur staðla sem tilskipun vísar til, er gert ráð fyrir að varan uppfylli kröfur þeirrar tilskipunar.

Á Evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að markaðssetja vörur án CE merkis, heyri þær undir nýaðferðartilskipanir. Þetta gildir einnig um íslenskar vörur á íslenskum markaði.

Staðall er skilgreindur á eftirfarandi hátt í ÍST EN 45020:

 • Skjal, ákvarðað með sammæli og samþykkt af viðurkenndum aðila, þar sem settar eru fram til algengrar og endurtekinnar notkunar, reglur, leiðbeiningar eða eiginleikar fyrir starfsemi eða afrakstur hennar í þeim tilgangi að ná fram sem mestri samskipan í tilteknu samhengi.

 Í skilgreiningunni felst:

 • Staðall er góð lausn að mati þeirra sem best þekkja til
 • Hagaðilar koma sér saman um lausn
 • Það eru hagsmunaaðilar sem semja staðal, þ.e. nefndir sérfræðinga á viðkomandi sviðum
 • Staðall er ekki reglugerð, þ.e. ekki reglur settar einhliða af stjórnvöldum

Það er því bæði ákjósanlegt og nauðsynlegt að vinna samkvæmt stöðlum. Staðlar eru skjöl sem margir hagsmunaaðilar hafa komið sér saman um að innihaldi góðar lausnir. Einnig er það mikilvægt að staðlar eru ekki settir einhliða af yfirvaldi eða samtökum með takmarkaða viðurkenningu. Þvert á móti, staðlar geta verið viðurkenndir sem landsstaðlar, innan Evrópu og haft alþjóðlegt gildi.

Íslenskur staðall (ÍST) er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands. Staðlaráð Íslands er samtök hagsmunaaðila. Fyrirtæki, opinberar stofnanir, neytendur og ýmis samtök atvinnulífsins eiga aðild að Staðlaráði.

Evrópustaðall (EN) er staðall sem hefur verið samþykktur innan evrópsku staðlasamtakanna CEN, CENELEC, eða ETSI. Öll aðildarlönd eru skyldug til að innleiða slíkan staðal sem landsstaðal og nema úr gildi eldri landsstaðla á sama sviði. Aðild að CEN og CENELEC eiga öll EES-ríkin auk Sviss, Bretlands, Serbíu, Makedóníu og Tyrklands sem þýðir að sami staðall gildir í 34 Evrópulöndum.

Samstarf er milli evrópsku staðlasamtakanna og alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO og IEC. Samstarfið tryggir að ekki sé verið að vinna á sviðum innan Evrópu sem unnið er að á alþjóðlegum vettvangi. Dæmi um slíkt eru ISO 9000 gæðastjórnunarstaðlarnir. ISO 9001 staðallinn er auðkenndur ÍST EN ISO 9001 hérlendis þar sem hann er íslenskur staðall, evrópskur og alþjóðlegur (ISO) staðall.

Ferli CE merkingar

Huga ætti að CE merkingu strax á hönnunarstigi vöru. CE merking vöru gefur til kynna að varan uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í tilteknum Evróputilskipunum, svokölluðum nýaðferðartilskipunum. Sá sem telur sig fullnægja öllum ákvæðum allra slíkra tilskipana, sem vöru hans varða, hefur leyfi til að auðkenna vöruna með stöfunum CE. CE merking tiltekinnar vöru er þannig ekki eingöngu yfirlýsing um að varan sé í samræmi við ákveðna tilskipun heldur sérhverja nýaðferðartilskipun sem gæti átt við vöruna. Slík auðkenning er skilyrði fyrir markaðssetningu þeirra vöruflokka sem tilskipanirnar ná yfir. 

Til að uppfylla kröfur tilskipana ætti framleiðandi að:

 • Finna út hvaða tilskipun eða tilskipanir eiga við
 • Gera áætlun um framgang CE merkingarinnar
 • Finna út hvaða samhæfðu staðlar eiga við
 • Ákveða hvernig eigi að tryggja að kröfur í stöðlum séu uppfylltar
 • Ganga úr skugga um að varan uppfylli tilskipun með því að notast við virkt verklag, fyrirliggjandi gögn og prófunarniðurstöður
 • Þegar aðstoð tilnefnds aðila á við, ganga úr skugga um að rétt verklag sé viðhaft til að tryggja samræmi við tilskipun og að aðgerðum í gæðamálum sé framfylgt.
 • Tryggja að nauðsynleg þjálfun sé veitt
 • Tilnefna starfsmann sem sér um að framfylgja því verklagi sem ákveðið hefur verið hvað varðar tilskipunina, samræmismat, tæknileg gögn og samræmisyfirlýsingu
 • Gera samræmisyfirlýsingu sem inniheldur allar tilgreindar upplýsingar
 • Ganga úr skugga um að framleiðsluferlið skili eingöngu vörum sem eru í samræmi við tæknileg gögn
 • Setjið CE merkið á

Aðferð við að CE merkja vöru

Sá sem þarf að CE merkja vörur sínar getur fylgt eftirfarandi leiðbeiningum:

 1. Skoða lista yfir útgefnar nýaðferðartilskipanir til að greina hvaða vörur falli undir hvaða tilskipun.
 2. Fá í hendur viðkomandi tilskipun eða íslenska reglugerð sem innleiðir tilskipun og gera sér grein fyrir þeim kröfum sem eiga við tiltekna vöru.
 3. Kanna hvaða staðla er vísað til um nánari útfærslu á kröfum tilskipunar eða reglugerðar.
 4. Með hjálp tilskipunarinnar er hægt að velja þær leiðir sem eiga við samkvæmt einingakerfinu við samræmismat, þ.e. hvaða einingar falla undir tilskipunina.
 5. Finna út hvar á EES svæðinu er að finna tilnefndan aðila (ef hans er krafist) sem hefur heimild til að meta samræmi við tilgreinda tilskipun.

Í sumum tilfellum þarfnast framleiðandi þess að fá ráðleggingar um hvaða tilskipanir eiga við og hvort þær eru fleiri en ein.

Athugið að sumar nýaðferðartilskipanir, sérstaklega vélatilskipunin, ná yfir svo breitt svið af vörum að þeim er skipt upp í mismunandi flokka og mismunandi verklagsreglur eru notaðar við samræmismat þeirra.

Tilnefndur aðili

Stjórnvöld aðildarríkis geta útnefnt stofnun eða fyrirtæki innan ríkisins sem getur framkvæmt tiltekinn hluta samræmismats í ákveðnum nýaðferðartilskipunum. Slíkur aðili er kallaður "tilnefndur aðili" (e. notified body). Framleiðandi getur nálgast tilnefnda aðila í hvaða ríki innan EES sem er, en hann má hinsvegar ekki skipta um aðila eftir hentugleika eftir að valið hefur farið fram. Framleiðendur á Íslandi geta þurft að sækja þjónustu tilnefndra aðila til annarra landa vegna smæðar íslenska markaðarins.

Í sumum tilvikum þarf vottun, prófun eða skoðun við samræmismat. Það er yfirlýst stefna ESB að þeir sem stunda vottanir, prófanir og skoðanir eigi að fullnægja ákvæðum Evrópustaðla um samræmismat (ISO/IEC 17000-staðlaröðin). Með þessu móti á að skapa það gagnkvæma traust sem er nauðsynlegt til þess að samræmismat í einu landi sé viðurkennt í öðru landi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Tilnefndir aðilar geta boðið framleiðendum upp á að annast prófanir og vottun sem þarf til að uppfylla tiltekna nýaðferðatilskipun.

Umsjón með tilskipunum

Hérlendis hefur verið farin sú leið að fela ákveðnum stofnunum umsjón með nýaðferðartilskipunum. Hlutverk þessara aðila er tvíþætt:

 • að hafa markaðseftirlit með þeim vöruflokkum sem falla undir tilskipunina
 • veita lágmarksupplýsingar um tilskipanirnar

Umsjónaraðilum má því ekki rugla saman við tilnefnda aðila, hlutverk þeirra er annað. Í lista yfir nýaðferðartilskipanir er að finna hvaða stjórnvald ber ábyrgð á hvaða tilskipun.

Sérstakar reglur um áhættusamar vörur

Alls kyns áhætta getur fylgt notkun vöru. Í vissum vöruflokkum eru skilyrði fyrir notkun CE merkingarinnar strangari og þá þarf faggilt prófunarstofa að framkvæma gerðarprófun og meta hvort varan uppfylli allar kröfur. Vörur sem falla undir þessar reglur eru t.d. gastæki, tjakkar, rafmagnssagir og persónuhlífar.

Samræmismat

Þar sem nýaðferðartilskipanir taka til mismunandi vöruflokka er ekki gerlegt að setja fram eina aðferð er lýsir skrefunum sem þarf til að sýna fram á samræmi við grunnkröfur. Þess í stað hefur verið komið á samhæfðum aðferðum til að meta samræmi við kröfur tilskipana. Um er að ræða svokallað einingakerfi sem felur í sér mismunandi leiðir háðar tilskipunum. Það vekur athygli að sumar leiðir bjóða upp á að nýta sér vottað gæðakerfi samkvæmt ISO 9000 stöðlunum. Það er því möguleiki að framleiðandi sem hefur komið sér upp vottuðu gæðakerfi geti nýtt sér það.

Í fylgiskjali* reglugerðar nr. 957/2006 sem fjallar um CE merkinguna er að finna atriði er varða mismunandi einingar og samræmismat. Þar er tilgreint að samræmismati sé beitt á hönnunarstigi vörunnar annars vegar og framleiðslustigi hins vegar. Almenna reglan er að niðurstaða mats þarf að vera jákvæð á báðum stigum áður en hægt er að setja vöruna á markað.

Í fylgiskjalinu er einnig að finna grundvallarupplýsingar og leiðbeiningar um samræmismat og áfestingu CE merkisins.

Einingarnar eru skilgreindar sem:

        a) Innra eftirlit í framleiðslu

        b) Gerðarprófun

        c) Gerðarsamræmi

        d) Gæðatrygging framleiðslu

        e) Gæðatrygging vöru

        f)  Vöruvottun

        g) Einingarsannprófun

        h) Algæðatrygging

 

* Hægt er að styðjast einnig við aðra skematíska mynd þar sem búið er að uppfæra tilvísanir í gæðastjórnunarstaðla.    

Gæðastjórnunarstaðlar og CE merking

Innan einingakerfisins fyrir samræmismat er hægt að velja sjö mismunandi leiðir, auðkenndar a-h. Í þremur þeirra er getið um gæðatryggingu. Forsenda þess að hægt sé að veita slíka gæðatryggingu er að til staðar sé gæðakerfi sem fullnægir kröfum ISO 9001 staðalsins. Lítum nánar á þessar leiðir:

Eining D (gæðatrygging framleiðslu)
Þessi eining lýsir því að þegar notað er gæðakerfi fyrir framleiðslu þá lýsir það stýringu og skoðun endanlegrar vöru. Framleiðandinn sendir inn umsókn um viðurkenningu gæðakerfisins til tilnefnds aðila sem hann hefur valið. Umsóknin skal innihalda:

 • allar upplýsingar sem viðkoma þeim vöruflokkum sem um ræðir
 • gögn gæðakerfisins
 • tæknileg skjöl og gerðarprófunarvottorð (úr einingu B).

Gæðakerfið á að tryggja að framleiðslan sé í samræmi við tilgreindar kröfur. Allar forskriftir, kröfur og skilgreiningar sem framleiðandinn hefur hliðsjón af eiga að skjalfestast á kerfisbundinn og gagnsæjan hátt. Það skal gera með skriflegum verklagsreglum og vinnulýsingum í gæðahandbók. Sérstaklega er horft til:

 • gæðamarkmiða og gæðastefnu sem yfirstjórn skilgreinir m.t.t. vörugæða,
 • framleiðsluaðferða, tækni sem er beitt við gæðaeftirlit og gæðatryggingu og hvernig þetta er kerfisbundið byggt upp,
 • skoðana og prófana sem þarf að gera í og eftir framleiðslu og hvernig þær eru framkvæmdar,
 • gæðaskráninga, gæðaskýrslna og skoðunar- og prófunarskýrslna, kvörðunarskýrslna og skýrslur um hæfni og þjálfun starfsfólks,
 • að hægt sé að sýna fram á að kröfum sé fullnægt og að kerfið sé virkt.

Tilnefndur aðili tekur út gæðakerfið til að sjá hvort það fullnægi kröfum. Framleiðandinn skuldbindur sig til að viðhalda kerfinu og halda því virku á öllum tímum.

Eining E (gæðatrygging vöru)
Þessi eining er svipuð og í D, nema að allar vörur eru skoðaðar.

Eining H (full gæðatrygging)
Í þessari einingu er notast við fulla gæðatryggingu sem tekur til hönnunar, þróunar, framleiðslu og prófunar. Gæðakerfinu er ætlað að tryggja að grunnkröfurnar sem eru settar fram í tilskipunum séu uppfylltar.

Allar forskriftir, kröfur og skilgreiningar sem framleiðandinn hefur hliðsjón af eiga að skjalfestast á kerfisbundinn og gagnsæjan hátt. Það skal gera með skriflegri gæðastefnu, verklagsreglum og vinnulýsingum í gæðahandbók. Sérstaklega er horft til:

 • gæðamarkmiða og gæðastefnu sem yfirstjórn skilgreinir m.t.t. hönnunar og framleiðslu,
 • tæknilegra hönnunarkrafna, þ.m.t. notkunar staðla, og ef ekki er algjörlega stuðst við staðla hvernig er þá tryggt að grunnkröfum tilskipunar sé fullnægt,
 • aðferða við hönnunarstýringu, sannprófun hönnunar og hvaða kerfisbundna verklagi er beitt fyrir viðkomandi vöruflokk,
 • framleiðsluaðferða, tækni sem er beitt við gæðaeftirlit og gæðatryggingu og hvernig þetta er kerfisbundið byggt upp,
 • skoðana og prófana sem þarf að gera við og eftir framleiðslu og hvernig þær eru framkvæmdar,
 • gæðaskráninga, gæðaskýrslna, skoðunar- og prófunarskýrslna, kvörðunarskýrslna og skýrslur um hæfni og þjálfun starfsfólks,
 • aðferða við að sannprófa og taka út að kröfum um hönnun og framleiðslu er fullnægt og að kerfið sé virkt.

Framleiðandinn skuldbindur sig til að viðhalda kerfinu og halda því virku á öllum tímum. Fulltrúi framleiðanda (t.d. gæðastjóri) hefur samráð við tilnefndan aðila vegna hugsanlegra breytinga á gæðakerfinu sem tilnefndur aðili þarf að vita af. Tilnefndur aðili er þó ekki ráðgjafi við uppbyggingu gæðakerfisins.

Framleiðandi veitir tilnefndum aðila fullan aðgang að öllum skjölum og skrám gæðakerfisins og eins hefur tilnefndur aðili aðgang að allri aðstöðu bæði hvað varðar hönnun, framleiðslu, prófun og skoðun. Ekki er gert ráð fyrir að tilnefndur aðili komi í óvæntar heimsóknir til framleiðanda heldur skulu þeir koma sér saman um hentugar dagsetningar. Þetta gildir reyndar um úttektir á gæðakerfi almennt.

Það er nauðsynlegt fyrir framleiðendur að skoða vel hvort ástæða sé til að byggja upp gæðakerfi. Þótt hægt sé að benda á að í leiðum A, C, F, og G sé ekki gerð bein krafa um gæðakerfi er erfitt að hafa góða stjórn á hönnun og framleiðslu án slíks kerfis.

Vottuð gæðakerfi ættu að auðvelda CE merkingu. Auðveldara verður að sýna fram á hvernig varan er framleidd og að gæðatrygging og rekjanleiki séu til staðar.

Tæknilýsing

Nauðsynlegt er að gera tæknilýsingu. Tæknilýsingin á að vera í varðveislu framleiðandans eða fulltrúa hans innan EES svæðisins.

Það sem á að vera í tæknilýsingu:

 • Lýsing á tækjum og búnaði
 • Hönnununar- og framleiðsluteikningar sem sýna einnig íhluti, hlutasamsetningar og rásir
 • Upplýsingar til að tryggja greinargóðan skilning á teikningum og leiðbeiningar um starfrækslu tækja og búnaðar
 • Listi yfir staðla sem stuðst var við
 • Aðferðir við að uppfylla grunnkröfur um öryggi þar sem ekki var stuðst við staðla
 • Hönnunarútreikningar
 • Niðurstöður prófana
 • Eintak af samræmisyfirlýsingu

Samræmisyfirlýsing

Samræmisyfirlýsing er skrifleg yfirlýsing gefin út af framleiðanda eða tilnefndum aðila, eftir því sem við á. Frumrit yfirlýsingarinnar þarf að geymast í 10 ár frá því að síðasta eintak vörunnar var framleitt. Samræmisyfirlýsing fylgir gjarnan umbúðum vöru.

Eftirfarandi atriði skulu tekin fyrir í samræmisyfirlýsingunni:

 • Nafn og heimilisfang ábyrgðaraðila
 • Lýsing á vöru (t.d. tæki, búnaði eða vél)
 • Númer og heiti staðla sem var stuðst við
 • Yfirlýsing um að varan samræmist grunnkröfum tilskipana
 • Undirskrift framleiðanda eða fulltrúa hans
 • Útgáfudagur

Svona gæti eyðublað fyrir samræmisyfirlýsingu litið út.

Nýaðferðartilskipanir sem krefjast CE merkingar

Hægt er að finna allar nýaðferðartilskipanir og viðeigandi staðla hér

Frumtexta tilskipananna á íslensku má finna hjá Þýðingarmiðstöð Utanríkisráðuneytisins. Íslenska aðlögun þeirra í formi laga, reglna eða reglugerða má nálgast með því að smella á númer þeirra í töflunni.

 

Heiti tilskipunar

Númer

Stjórnvald

Réttarheimild

Gastæki

ESB2016/426

Vinnueftirlitið

Reglugerð 727/2018

Togbrautarbúnaður til fólksflutninga

ESB 2016/424

Vinnueftirlitið

Reglugerð 668/2002

Byggingavörur

ESB 305/2011

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Lög um byggingarvörur nr. 114/2014

Rafsegulsviðssamhæfi

2014/30/ESB

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 303/2018

Búnaður og verndarkerfi ætluð til notkunar í mögulega sprengifimu lofti

ESB 2014/34

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 313/2018

Sprengiefni til almennra nota

2014/28/ESB

Vinnueftirlitiðoglögreglan

Reglugerð 510/2018

Lyftur

2014/33/ESB

Vinnueftirlitið

Reglugerð 966/2016

Rafföng sem notuð eru við lága spennu

2014/35/ESB

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 678/2009

Vélar

2006/42/ESB

Vinnueftirlitið

Reglugerð 1005/2009

Mælitæki

2014/32/ESB

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 876/2016

Virk ígræðanleg lækningatæki

90/385/EEC

Landlæknir

Reglugerð 320/2011

Lækningatæki

2017/745/EB

Landlæknir

Reglugerð 934/2010

Tæki til sjúkdómsgreininga í glasi

98/79/EB

Lyfjastofnun

Reglugerð 936/2011

Ósjálfvirkar vogir

2014/31/EBE

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 877/2016

Umbúðir og umbúðaúrgangur

94/62/EB

Umhverfisstofnun

Reglugerð 609/1996

Persónuhlífar

2016/425

Húsnæðis- og mannvirkjastofnunogVinnueftirlitið

Reglugerð 728/2018
Reglur 497/1994

Þrýstibúnaður

2014/68/EB

Vinnueftirlitið

Reglugerð 1022/2017

Fjarskiptabúnaður og endabúnaður til fjarskipta

2014/53/EB

Fjarskiptastofa

Reglugerð 90/2007

Skemmtibátar

2013/53/EB

Samgöngustofa

Reglugerð 130/2016

Einföld þrýstihylki

2014/29/EB

Vinnueftirlitið

Reglugerð 1021/2017

Leikföng

2009/48/EB

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 944/2014

Flugeldar

2013/29/EB

Neytendastofa

Reglugerð 414/2017

Efnareglurnar (REACH)

1907/2006

Umhverfisstofnun

Reglugerð 888/2015

Visthönnun vöru og orkumerkingar

2009/125 EB og rg. 2017/1369

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Reglugerð 153/2016

 

Heiti  tilskipana eru í sumum tilfellum notuð stytt í töflunni. Sé misræmi milli upplýsinga í töflu og opinberrar skráningar, gilda upplýsingar í opinberri skráningu. Við notkun töflunnar skal ávallt athuga hvort breytingar hafi orðið á upplýsingum sem vísað er til.

Samhæfðir staðlar

Samhæfða Evrópustaðla ásamt viðeigandi tilskipunum er almennt að finna hér

Staðlaráð vaktar staðla sem tilheyra reglugerð um byggingarvörur. Staðlar sem heyra undir aðrar vörutilskipanir ESB eru ekki vaktaðir með sama hætti.Sjá samhæfða staðla fyrir byggingarvörur hér.

 

Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á virði staðla og ávinningi af staðlanotkun í gegnum tíðina.

Samandregnar niðurstöður þeirra leiða í ljós að efnahagslegur árangur vex í hlutfalli við aukningu í útgáfu staðla. Rannsóknirnar eru ekki endilega samanburðarhæfar innbyrðis vegna mismunandi aðferðarfræði en niðurstöðurnar eru á sama veg. Staðlar stuðla að framleiðniaukningu, betri gæðum, traustari stjórnun og meira trausti viðskiptavina. Þeir auka hlítni við lög og reglur, lækka rekstrarkostnað, brjóta niður viðskiptahindranir og treysta gæðastjórnun, áhættustjórnun og eignastjórnun auk þess að vernda umhverfi, heilsu og mannslíf. Þátttakendur í staðlastarfinu sjálfu segjast aðspurðir að þeir njóti þess að deila sérfræðiþekkingu sinni með öðrum til að treysta eigin atvinnugrein, að þar fái þeir aðgang að upplýsingum og þekkingu sem ekki er fáanleg annars staðar og með því geti þeir aukið eigið forskot. Þá telja þeir verulegan ávinning fólginn í því að styrkja tengslanet sitt með samstarfi við aðra á sama sviði.

Í gagnabanka ISO er að finna útgefin rit sem hafa að geyma samantektir ýmissa rannsókna á ávinningi staðlanotkunar.

Með aðild að ISO, IEC, CEN, CENELEC og ETSI er Staðlaráð Íslands hlekkur í alþjóðlegri samstarfskeðju sem nær til 95% mannkyns. Hlutverk Staðlaráðs er það sama og annarra samtaka í þeirri keðju. Að vera óháð samstarfsráð þeirra sem hag hafa af stöðlun.

Skuldbindingum íslenska ríkisins skv. EES samningi er lýst í lögum um staðla og Staðlaráð Íslands nr. 36/2003. Þær uppfyllir Staðlaráðs Íslands með þjónustusamningi við fagráðuneyti staðlamála. Í því lögbundna verkefni felst virk þátttaka í starfi erlendra staðlasamtaka, að staðfesta evrópska staðla sem íslenska, veita upplýsingar og þjónustu um staðla og staðlastarf, veita íslenskum hagaðilum aðild að erlendum tækninefndum, selja staðla og taka þátt í samstarfsverkefnum við hagaðila innanlands. Evrópskir staðlar, sem nú telja tæplega 30.000 eru ekki þýddir við staðfestinguna, nema innlendir hagsmunir krefjist þess og til þess fáist fjármagn. Heimilt er skv. lögum að gefa íslenskan staðal út á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not hans.

Í reglugerð nr. 798/2014 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1025/22012, um evrópska stöðlun, ber Staðlaráði Íslands að fylgja formreglum þeim sem um stöðlun eru settar. Í því felst að gæta þess að hagaðilar hafi möguleika á þátttöku í staðlastarfi, að tryggja óhæði tækninefnda og vinnuhópa, gagnsæi og sammæli um niðurstöður.

Hluti af verkefnum Staðlaráðs er að reka fagstaðlaráð á ýmsum sviðum en þó undir sérstakri stjórn hagaðila. Þau ráð sem nú eru rekin eru: Byggingarstaðlaráð, fagstaðlaráð í fiskimálum, fagstaðlaráð í upplýsingatækni, fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum og Rafstaðlaráð. Einnig rekum við fagstjórn í gæðamálum og fagstjórn í véltækni. Þá hefur verið ráðist í einstök stöðlunarverkefni utan fagstaðlaráða s.s. við gerð ÍST 85, Jafnlaunakerfi og ÍST TS 92, Kolefnisjöfnun. 

Aðgengi íslenskra hagaðila að tækninefndum hinna erlendu staðlasamtaka fela í sér tækifæri til að hafa áhrif á stöðlun, tryggja íslenska hagsmuni í erlendu stöðlunarstarfi, fá aðgang að þekkingu og upplýsingum sem ekki eru aðgengilegar annars staðar, skapa sér forskot á mörkuðum, ná betri árangri og láta gott af sér leiða með að deila þekkingu með öðrum sérfræðingum. Dæmi eru um að alþjóðlegir staðlar byggi að mestu á íslensku hugviti og þekkingu og má þar nefna ISO 19898:2019 sem var að mestu byggður á hugviti Péturs Th. Péturssonar hjá Markus Lifenet og fjallar um virknikröfur sem gera þarf til búnaðar sem ætlaður er til að bjarga fólki úr sjó um borð í skip og prófunarkröfur sem slíkur búnaður þarf að standast til að fást samþykktur. Þátttaka í stöðlun er því raunverulegt tækifæri til að koma íslenskri nýsköpun á framfæri á alþjóðavettvangi.

Hér er yfirlit yfir lög og reglur sem um starfsemi Staðlaráðs gilda:

Reglugerð 798/2014 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1025/2012 um evrópska stöðlun

Aðildarreglur evrópskra og alþjóðlegra samtaka

Lög um staðla og Staðlaráð

Starfsreglur Staðlaráðs

Reglur um þátttöku í staðlastarfi

Í heimi stöðlunar er mikið um skammstafanir sem þátttakendur í stöðlunarstarfi þurfa að hafa á takteinum. Við höfum tekið saman lista yfir þær helstu.

 

 • A - Breyting: Lagfæring á, viðbót við eða brottfelling á tilteknum hluta staðals. Amendment
 • AC - Leiðrétting: Leiðrétting á prentvillum, málvillum eða öðrum álíka villum í staðli. Corrigendum (Correction)
 • AECMA - Samtök evrópskra flugvélaframleiðenda/Association Européenne des Constructeurs de Matériel Aérospatial
 • AFNOR - Franska staðlastofnunin/Accociation française de normalisation
 • ANSI - Bandaríska staðlastofnunin/American National Standard Institute
 • BSI - Bresku staðlasamtökin/Bristish Standard Institution
 • BSTR - Byggingarstaðlaráð
 • CEN - Evrópsku staðlasamtökin/Comité Européen de Normalisation
 • CECC - CENELEC Electronic Components Committee
 • CENELEC - Evrópsku rafstaðlasamtökin/Comité Européen de Normalisation Électrotechnique
 • CLC - Evrópsku rafstaðlasamtökin (=CENELEC)/Comité Européen de Normalisation Electrotechnique
 • Commission of EU - Evrópusambandið
 • CR - CEN skýrsla/CEN Report
 • DS - Danska staðlastofnunin/Dansk Standard
 • DIN - Þýska staðlastofnunin/Deutsches Institut für Normung
 • ECISS - Evrópska járn- og stálstaðlasambandið/European Committee for Iron and Steel Standardization
 • Eccma - Samtök sem vinna að þróun og notkun staðla í alþjóðlegum, rafrænum viðskiptum/Electronic Commerce Code Management Association
 • ECMA - Félag evrópskra tölvuframleiðenda/European Computer Manufacturers Association
 • ELOT - Gríska staðlastofnunin/Hellenic Organisation for Standardization
 • EN - Evrópskur staðall/Europäische Norm
 • ENV - Evrópskur forstaðall/Europäische Vornorm
 • EQV - Jafngildur/Equivalent
 • ETS - Evrópskur fjarskiptastaðall/European Telecommunication Standard
 • ETSI - Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu/European Telecommunication Standards Institute
 • FprEN - Lokadrög (Aðeins notað hjá CENELEC)
 • FIF - Fagstaðlaráð í fiskimálum
 • fr - Frumvarp að séríslenskum staðli
 • FS - Íslenskur forstaðall
 • FUT - Fagstaðlaráð í upplýsingatækni
 • HD - Samræmingarskjal/Harmonization Document
 • IAEA - International Atomic Energy Agency
 • ICS - Alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir staðla/International Classification for Standards  
 • IDT - Alsamur/Identical
 • IEC - Alþjóða raftækniráðið/International Electrotechnical Commission
 • IEEE - Bandaríska rafstaðlastofnunin/The Institute of Electrical and Electronics Engineers
 • ILO - Alþjóða vinnumálastofnunin/International Labour Organisation
 • INSTA - Samnorræn stöðlun/Internordisk standardisering
 • ISO - Alþjóðlegu staðlasamtökin/International Organization for Standardization
 • IST - Icelandic Standards/Staðlaráð Íslands
 • ÍST - Íslenskur staðall
 • ÍST EN - Evrópskur staðall staðfestur sem íslenskur staðall
 • ISSS - Information Society Standardization System - deild innan CEN
 • ITU - Alþjóða fjarskiptasambandið/International Telecommunication Union
 • JISC - Japanska staðlastofnunin/Japanese Industries Standard Committee
 • JTC - Sameiginleg tækninefnd/Joint technical committee
 • NEQ - Ekki jafngildur/Not equivalent
 • NIST - National Institute of Standards and Technology - bandarísk ríkisstofnun
 • NEN - Hollenska staðlastofnunin/Nederlands Normalisatie Instituut
 • NSAI - Írska staðlastofnunin/National Standards Authority in Ireland
 • NSF - Norsku staðlasamtökin/Norges Standardiserings Forbund
 • pr - Frumvarp að staðli/Draft
 • RST - Rafstaðlaráð
 • SAA - Ástralska staðlastofnunin/Standards Australia
 • SAM - Samræmingarskjal
 • SC - Undirnefnd/Sub-committee
 • SCC - Kanadíska staðlastofnunin/Standards Council of Canada
 • SFS - Finnsku staðlasamtökin/Finnish Standard Association
 • SIS - Sænsku staðlasamtökin/Svenska Instituted för sSandarder
 • SNZ - Nýsjálenska staðlastofnunin/Standards New Zealand
 • TC - Tækninefnd/Technical committee
 • TS - Tækniskýrsla (Staðlaráð Íslands)
 • UNSPSC - Opið alþjóðlegt flokkunarkerfi fyrir vörur og þjónustu/Universal Standard Products and Services Classification
 • UNESCO - United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization
 • UNI/CEI - Ítölsku staðlaráðin/Italian National Standards Body / Italian Electrotechnical Committee
 • WA  - Vinnustofusamþykkt/workshop agreement
 • WG -  Vinnuhópur/Working group
 • WHO - Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin/World Health Organisation

Það getur verið flókið fyrir leikmenn að finna réttu staðlana því þeir hlaupa á tugum þúsunda, bera mismunandi forskeyti, eru skrifaðir af mismunandi tækninefndum og eru flokkaðir eftir sérstöku stöðluðu flokkunarkerfi sem segir til um efnissvið þeirra. Vefverslunin okkar, sem er jafnframt hin eiginlega Staðlaskrá, geymir mismunandi leitarmöguleika sem auðvelda viðskiptavinum að finna réttu staðlana.

Leitargluggarnir gefa möguleika á að leita eftir;

a. númeri staðals (t.d. 9001)

b. almennu leitarorði,

c. tækninefndum og

d. ICS númerum.

Þá er einnig gefinn möguleiki á að leita að

a. stöðlum sem hafa verið staðfestir og eru í gildi,

b. frumvörpum sem eru í umsagnarferli,

c. niðurfelldum stöðlum sem ýmist hafa verið felldir einhliða niður eða aðrir tekið við af þeim og svo

d. öllum stöðum þeirra skjala sem finna má í Staðlaskránni.

Nánar um ofangreinda flokka:

Númer staðals: ef þú þekkir númerið á staðlinum sem þú leitar að slærðu það einfaldlega inn, án forskeytis. Þú kannt að fá upp fleiri en eina niðurstöðu. Dæmi um það er leit eftir númerinu 9001. Fyrri staðallinn er íslensk þýðing á ISO 9001. Hann er bæði á íslensku og ensku í þessu skjali. Á forskeytunum sérðu að hann hefur verið gerður að evrópskum staðli (EN) og svo að íslenskum (ÍST). Seinni staðallinn sem kemur upp í þessari leit er upprunalegi ISO staðallinn. Texti hans og inntakið er nákvæmlega hið sama og enski hlutinn í íslenska staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015. Verðmunurinn ræðst af uppruna skjalsins en Staðlaráð selur alla ISO og IEC staðla í umboðssölu. Alla jafna er ódýrara að kaupa ISO staðla sem gerðir hafa verið að íslenskum í gegnum evrópusamtökin (ÍST EN ISO) en að kaupa staðlana beint af ISO. 

Almennt leitarorð: Þessi hluti leitarvélarinnar leitar í forskeyti, númeri, heiti staðals og umfangi. Eftir því sem þú ert nákvæmari í þessari leit, þeim mun nær kemstu því sem þú leitar að. Almenn leitarorð gefa gjarnan mjög víðtækar og umfangsmiklar niðurstöður. Það er því gott að vera eins nákvæmur við innslátt leitarorða og unnt er til að þrengja niðurstöðurnar eins mikið og mögulegt er.

Tækninefnd: Tækninefndir hjá ISO, IEC, CEN og CENELEC hafa allar númer. Ef þú þekkir númer nefndarinnar sem vann staðalinn sem þú leitar að, færðu upplýsingar um alla staðla sem viðkomandi tækninefnd hefur unnið að og staðfest. Þessi virkni er heppileg þegar leitað er eftir skyldum stöðlum á tilteknu sviði. Athugaðu að þú þarft að slá inn forskeyti með númeri nefndarinnar. Dæmi: CEN/TC 19 (CEN eru evrópsku staðlasamtökin, TC stendur fyrir Technical Committee og 19 er númer nefndarinnar)

Forskeyti erlendu staðlasamtakanna eru þessi:

ISO/TC [nr]

IEC/TC [nr]

CEN/TC [nr]

CLC/TC [nr]

ICS númer vísar til staðlaðrar alþjóðlegrar efnisflokkunar staðla.

Flokkarnir hlaupa á hundruðum og staðlar geta tilheyrt fleiri en einum flokki. 

Lærðu líka að þekkja forskeytin:

ÍST forskeytið merkir að staðallinn er íslenskur, hefur verið skrifaður af íslenskri tækninefnd og staðfestur sem íslenskur staðall.

ÍST EN forskeytin saman merkja að staðallinn hefur verið skrifaður hjá evrópskum staðlasamtökum en staðfestur hérlendis sem íslenskur staðall.

ÍST EN ISO/IEC forskeytin saman merkja að staðallinn hefur upprunalega verið skrifaður hjá ISO eða IEC, hann staðfestur sem evrópskur staðall og svo sem íslenskur staðall í kjölfarið

ÍST ISO/IEC forskeytin saman merkja að staðall sem upprunalega varð til hjá ISO eða IEC, hefur verið staðfestur hér á landi sem íslenskur staðall. Oft er um að ræða íslenskar þýðingar.

ÍST 35 og ÍST EN 35 er þannig ekki sami staðallinn. Hinn fyrri er séríslenskur, skrifaður á Íslandi af íslenskri tækninefnd fyrir íslenskan markað. Hinn seinni er hins vegar skrifaður af evrópskri tækninefnd í evrópskum staðlasamtökum en staðfestur sem íslenskur staðall hér á landi.

Námskeið um notkun og beitingu einstakra staðla eru haldin af Endurmenntun HÍ, Iðunni, BSI á Íslandi, Versa vottun, iCert og Jensen ráðgjöf svo einhverjir séu nefndir. Þá er fræðsla um staðla og notkun þeirra orðin hluti af kennslu í grunnnámskeiðum nokkurra deilda í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík auk námskeiða Opna háskólans í HR.

Staðlaráð leitast við að veita almennar upplýsingar og fræðslu um staðla og staðlastarf á vef sínum.

Hér má finna myndband sem sýnir hlutverk millistjórnenda við rekstur stjórnunarkerfa sem gagnast þeim sem taka að sér verkefni sem falla undir stjórnunarkerfi en hafa ekki þekkingu eða reynslu af slíkum rekstri.

Menu
Top