Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
International Carbon Registry er bæði vottunarkerfi og kolefniskráningar-gagnagrunnur fyrir loftslagsverkefni. Þar geta þau bæði skráð sig og gefið út kolefniseiningar rafrænt á bálkakeðjum sem hægt er að framselja til fyrirtækja sem vilja taka ábyrgð á sinni losun og stuðla á sama tíma að árangri í loftslagsmálum. Heimild til skráningar byggir þó á að verkefni uppfylli staðlaðar kröfur og séu sannprófuð og fullgilt af faggiltum og til þess bærum aðila.
Guðmundur Sigbergsson er stofnandi og framkvæmdastjóri International Carbon Registry. Hann var áður framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands og meðstofnandi vottunarstofunnar iCert.
Þegar ég starfaði við vottun hjá iCert, aðallega við vottun jafnlaunakerfa, fengum við reglulega fyrirspurnir um hvort við gætum vottað kolefnisjöfnun eða kolefnishlutleysi fyrirtækja. Þetta var eftir staðfestingu Parísarsamningsins og vitund fyrirtækja og einstaklinga á áhrifum loftslagsbreytinga var að aukast. Það sást gjarnan í markaðssetningu fyrirtækja. Hjá iCert tókum við jafnan vel í fyrirspurnir en þá var enn óljóst hver viðmið vottunarinnar ættu að vera. Þegar vottun á sér stað þurfa að vera til staðar stöðluð viðmið sem farið er eftir sem þriðji aðili svo staðfestir að séu uppfyllt. Vottunaraðilinn þarf að búa yfir hæfni og þekkingu til að meta hvort kröfurnar eru uppfylltar og hafa hlotið faggildingu til þess að vottunin standist kröfur.
Á þessum tíma var lítið um vottanir á kolefnisjöfnun, lög um loftslagsmál mjög óskýr hvað kolefnisjöfnun þýðir og engar staðlaðar kröfur höfðu verið gefnar út eins og frá alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO. Þó hafði rutt sér til rúms ákveðin framkvæmd sem var alþjóðlega viðurkennd. Þegar ég rýndi framkvæmdina á Íslandi og bar saman við verklagið á alþjóðavísu sá ég strax að íslenska aðferðin var mjög langt frá þeim kröfum sem gerðar voru á alþjóðavettvangi. Til að draga saman (mjög einfaldað) þá fól hið alþjóðlega verklag í sér að:
Á Íslandi var framkvæmdin, og sumstaðar ennþá, að:
Á þessum tíma voru fullyrðingar um kolefnisjöfnun mjög áberandi víða í samfélaginu. Flestar þeirra voru því í besta falli rangar og engin leið var að meta raunverulegan árangur.
Á sama tíma var að líða undir lok síðara tímabil Kyoto bókunarinnar þar sem Ísland hafði fjarri því staðið við sínar skuldbindingar og stjórnvöld farið fram með stórar yfirlýsingar um árangur til framtíðar. Mér fannst eiginlega augljóst að kolefnismarkaður myndi ekki stuðla að árangri vegna skuldbindinga Íslands skv. Parísarsamningnum á meðan „kerfi“ utan um kolefnisjöfnun væri ekki til.
Ég sendi umhverfisráðuneytinu tillögu í upphafi árs 2020, að því hvernig hægt væri að koma á fót kolefnisskrá og efla gildi kolefnisjöfnunar og skráningu á losun. Við hjá iCert höfðum áður sett fram viðmið og leiðbeiningar um kolefnisjöfnun (í takt við alþjóðlegar venjur) sem við kynntum fyrir fagstofnunum. Einnig hafði Skógræktin unnið að því að koma böndum á kolefnisjöfnun með skógrækt með kröfusettinu Skógarkolefni sem ég tók þátt í að móta. Því miður var lítill áhugi þá á því sem við vorum að gera.
Sumarið 2020 fengum við svo styrk með Carbfix, Sorpu, Climeworks og GeoEnergy um vottaða steinrenningu CO2 í bergi. Ég ræddi við Staðlaráð um haustið um þessar hugmyndir og úr varð að Staðlaráð og Loftslagsráð, sem hafði nýverið ályktað um ábyrga kolefnisjöfnun og hvatt til úrbóta, héldu vinnustofu þar sem tugir hagaðila bjuggu til vottunarkerfi fyrir kolefnisjöfnun og loftslagsverkefni. Í upphafi þeirrar vinnu lýstu fulltrúar hagaðila ástandinu með tveimur orðum, „villta vestrið.“
Vinna tækninefndar sem stofnuð var um verkefnið fólst í að rýna bæði hvað væri til og svo hvað vantaði upp á til að koma böndum á ábyrgðarlausar fullyrðingar um kolefnisjöfnun því við vildum búa til kerfi sem byggði á alþjóðlegum viðmiðum en ekki bara kerfi til heimabrúks. Úr varð tækniforskriftin ÍST 92:2022 sem byggði á grunni ÍST EN ISO 14064-1 og 2.
Útgáfa tækniforskriftarinnar vakti athygli langt út fyrir landsteinana en því miður hafa íslensk stjórnvöld ennþá ekki nýtt sér þetta góða verkfæri sem innlendir sérfræðingar bjuggu til, m.a. til að efla gildi kolefnisjöfnunar en lögin eru mjög óskýr, skattalegir hvatar eru ekki til staðar, leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um kolefnisjöfnun eru fyrir löngu úreltar og svo ber því miður ennþá á óábyrgum og ósönnum fullyrðingum um aðgerðum fyrirtækja í loftslagsmálum án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir þau.
Staðlar eru biblían okkar hjá ICR. Það sem vottunarkerfi á alþjóðlegum vettvangi nýta jafnan eru annarsvegar hið frábæra kerfi Clean Development Mechanism og hins vegar ÍST EN ISO 14064-2.
ÍST EN ISO 14064-1 er sniðinn að losun fyrirtækja og stofnana til að auðvelda þeim að ná utan um beina og óbeina losun. ÍST EN ISO 14064-2 er sniðinn að verkefnum sem ráðist er í til að draga úr losun þar sem gerður er samanburður á árangri fyrir og eftir aðgerðir. Í þriðja lagi má nefna ÍST EN ISO 14064-3 sem leggur upp kröfur um fullgildingu (e. Validation) og sannprófun (e. Verification) á hinum tveimur stöðlunum. Til að fullkomna traustkeðjuna eru ÍST EN ISO/IEC 17029 og ÍST EN ISO 14065 notaðir til að tryggja kröfur sem gerðar eru til þeirra sem annast sannprófun og fullgildingu (e. Validation and verification bodies).
ÍST EN ISO 14064 serían er gríðarlega gott verkfæri til að sýna með beinum og óbeinum hætti árangur í loftslagsmálum en hún er alltaf að stækka. Á meðan á vinnunni stóð í ÍST 92 fylgdumst við með þróun ISO 14068, Carbon Neutrality sem þá var í vinnslu. Sá staðall tók gildi í árslok 2023.
Myndina hér að neðan tel lýsandi um það hvernig ISO 14000 staðlaserían er frábær undirstaða undir traust á árangri.
Nýverið tilkynntu ISO og IAF (e. International Accreditation Forum) samstarf um viðbrögð við loftslagsbreytingum um að nýta ISO stjórnunarkerfisstaðla sem verkfæri í baráttunni við loftslagsvána.
Hin rammíslenska en alþjóðlega kolefnisskrá ICR hefur skapað vettvang fyrir loftslagsverkefni til að miðla þeim áhrifum sem þau hafa á loftslagsbreytingar og tækifæri fyrir fyrirtæki að sýna með rekjanlegum hætti fram á tilkall og eignarhald á loftslagsaðgerðum, t.d. með kolefnisjöfnun.
Með skráningunni er stutt við loftslagsmarkmið Parísarsamningsins þannig að atvinnulífið tekur ábyrgð á sinni losun með beinum hætti. Það mun tefja loftslagsbreytingar og flýta því að markmið náist, m.a. með því að þannig er stutt við fjárhagslega óarðbærar loftslagslausnir sem þó geta orðið það síðar.
Skilvirkir kolefnismarkaðir gefa m.a. möguleika á að nýta skattalega hvata til að ná auknum árangri. Singapore, Japan, S-Afríka, Kólumbía o.fl. ríki sem komin eru lengra en margir aðrir eru um þessar mundir að innleiða skattakerfi þar sem fyrirtæki geta greitt kolefnisskatta með viðurkenndum kolefniseiningum (s.k. ITMO einingum) sem löndin geta svo nýtt áfram til að ná sínum skuldbindingum undir Parísarsamningnum. Með slíkum kerfum má stuðla að því að frábærar loftslagslausnir þurfi ekki að reiða sig á óskilvirka styrki eða hvikul framlög til að verða að veruleika.
Hagaðilar á Íslandi hafa nú tekið fyrstu skrefin, skrifað reglurammann og kolefnisskrá verið stofnuð. Raunverulegur árangur mun þó ekki nást hér á landi fyrr en stjórnvöld fara að taka fullan þátt í þróun mála og leggjast á sveif með öðrum hagaðilum sem bera hagsmuni komandi kynslóða fyrir brjósti.