Norðurlöndin sameinast um að móta framtíðina með stöðluðum lausnum

Í þessari viku hófst formlega norræna samstarfsverkefnið The Nordic Region Sets the Standard, sem nýtur stuðnings Norrænu ráðherranefndarinnar og er leitt af landsbundnum staðlasamtökum Norðurlandanna. Markmið verkefnisins er að efla samstarf á sviði staðla og nýta þá markvisst sem verkfæri samhliða löggjöf til að hraða sjálfbærni, stafrænni þróun og nýsköpun í norrænu samhengi.

Í tilefni verkefnisins komu um 30 fulltrúar úr ólíkum greinum staðlastarfsins saman í Osló til fyrsta sameiginlega vinnufundarins. Þátttakendur komu víðs vegar að úr norræna staðlasamfélaginu og endurspegluðu breidd þekkingar og reynslu sem nauðsynleg er til að takast á við flókin viðfangsefni samtímans.

Verkefnið byggir á þeirri sýn að staðlar geti gegnt lykilhlutverki í að styðja við framkvæmd stefnu og lagaumhverfis, meðal annars á sviði hringrásarhagkerfis, stafrænnar umbreytingar og nýsköpunar sem byggir á nýrri þekkingu. Með því að þróa sameiginlega ramma og styrkja tengsl þvert á landamæri er stefnt að því að bæta samhæfni, einfalda virðiskeðjur og skapa aukið virði fyrir atvinnulíf og samfélag.

Helstu markmið verkefnisins eru að styrkja samkeppnishæfni Norðurlanda, stuðla að sjálfbærni í framkvæmd og festa svæðið í sessi sem alþjóðlegan leiðtoga á sviði staðla og framtíðarmiðaðra lausna.

Á næstu misserum verður markvisst leitað til sérfræðinga á Íslandi um þátttöku í verkefninu, á ólíkum fagsviðum sem tengjast staðlastarfi, nýsköpun, sjálfbærni og stafrænum lausnum. Með því er stefnt að því að tryggja breiða aðkomu innlendrar þekkingar og reynslu að norrænu samstarfi og efla tengsl íslensks fagumhverfis við þróun sameiginlegra norrænna ramma og lausna.

Samstarfið fer fram í nánu samstarfi systursamtaka á Norðurlöndum og er liður í víðtækari vinnu við að samræma aðferðir, miðla þekkingu og nýta sameiginlegan styrk svæðisins. Verkefnið markar mikilvægt skref í átt að enn öflugra norrænu staðlasamstarfi til framtíðar.

Menu
Top