Gervigreindin í staðlaheimum

Staðlar eru skrifaðir af sérfræðingum eftir skýrum reglum með áherslu á sammæli við ákvörðun hvað skuli vera í þeim og hvað ekki. Staðlar skapa þannig traust í viðskiptum með vörur og þjónustu og þeim er treyst. En áhrif gervigreindar á staðlagerð og staðlanotkun eiga eftir að koma í ljós og mega ekki rýra traustið.

Traust er söluvaran

Traust er ein meginsöluvara staðlasamtaka til heimsins. Þeir miklu möguleikar sem felast í gervigreindinni er staðlaheiminum ekki óviðkomandi enda er verið að skrifa staðla um gervigreind. Að hefja notkun gervigreindar við ritun staðla er mjög freistandi en felur í sér áhættur sem verið er að kortleggja og ramma inn hvernig best er að nota gervigreind á því sviði.

Gervigreind við notkun staðla

Þá liggur einnig í augum uppi að notkun gervigreindarþjóna (AI Agents) við hagnýtingu staðla er framtíðin. Staðlasamtök eru að vinna að því að koma stöðlum á XML form og búa til kerfi sem hagnýta sér gervigreind en það þarf að slípast aðeins til áður en það verður almennt. Því ekkert má gefa eftir á sviði traustverðugleika staðla þótt ný tækni verði innleidd.

Nýverið var stofnað tengslanet þjóðarnefnda að staðlasamtaka ISO um „best practises“, notkunartilvik og leiðbeiningar um hagnýtingu gervigreindar í tengslum við staðla. En það þarf að finna leiðir til að skila nægum tekjum af staðlasölu svo áfram verði hægt að rita nýja staðla í sífellt flóknari heimi sem kallar á fleiri staðla og endurskoðun eldri staðla.

Það eru því spennandi tímar í sjónmáli í notkun gervigreindar í staðlaheimum, bæði fyrir þá sem rita og hagnýta staðla, fljótlega má sjá fyrstu skrefin.

Guðmundur Valsson

Menu
Top