Staðlaráð Íslands hefur gefið út ÍST 95:2025 – Sjálfbær skógrækt, sem er fyrsti íslenski staðallinn sem setur samræmdar kröfur og leiðbeiningar fyrir sjálfbæra skógrækt hér á landi. Markmið staðalsins er að styðja við ábyrgari nýtingu lands og náttúruauðlinda, efla fagmennsku í skógrækt og tryggja að þróun greinarinnar verði í samræmi við sjálfbærnismarkmið Íslands.
Staðallinn er afrakstur víðtæks samráðs og samstarfs í tækninefnd um sjálfbæra skógrækt (TN-SSK), þar sem saman komu m.a fulltrúar frá viðeigandi stofnunum ríkisins, loftslagsverkefnum í skógrækt og einkafyrirtækjum.
Þetta fjölbreytta samstarf tryggði að staðallinn endurspeglar bæði stefnumótandi sjónarmið stjórnvalda og hagnýta reynslu þeirra sem starfa við skógrækt og landnýtingu á vettvangi.
ÍST 95 markar tímamót í íslenskri skógrækt. Hann setur sameiginlegan ramma um gæði, ábyrgð og fagmennsku á sviði sem gegnir æ stærra hlutverki í loftslagsaðgerðum og landnýtingu. Þetta er verkfæri sem styður jafnt við stefnumótun stjórnvalda sem daglegt starf skógræktarfólks
ÍST 95 byggir á grunni alþjóðlegra viðmiða, meðal annars The UK Forestry Standard, en hefur verið aðlagaður íslenskum aðstæðum og lagaumhverfi.
Hann setur fram kröfur og leiðbeiningar um margvísleg svið sjálfbærrar skógræktar, þar á meðal:
Staðallinn nær ekki beint til nýskógræktar, það er að segja ræktunar skóga á landi þar sem enginn skógur er fyrir eða um er að ræða breytingu á landnotkun, þótt ýmsir þættir í staðlinum séu nýtilegir.
Hins vegar er staðall um nýskógrækt þegar á teikniborðinu og mun fylgja í kjölfarið, með það að markmiði að skapa heildstæða umgjörð um skógrækt á Íslandi, frá upphafi til endurnýjunar.
ÍST 95 er hagnýtt viðmið sem nýtist við stjórnsýslu, vottun, stefnumótun og framkvæmd verkefna á sviði skógræktar.
Hann skapar grundvöll fyrir áreiðanlegt mat á gæðum og sjálfbærni skógræktarverkefna og getur þannig orðið burðarás í nýjum útfærslum á kolefnisbindingu, náttúruvernd og vistvænni landnýtingu.
Með útgáfu ÍST 95 er stigið stórt skref í átt að samræmdum viðmiðum um sjálfbæra nýtingu landsins.
Staðlaráð Íslands mun vinna áfram að kynningu og innleiðingu staðalsins í samstarfi við hagaðila, með það að markmiði að hann verði lifandi viðmið sem styður íslenska skógrækt til framtíðar.
Staðallinn og ítarefni sem fylgir eru aðgengileg á vef Staðlaráðs án endurgjalds.