Alþjóðlegi "hér er allt eins og það á að vera" dagurinn!

Framkvæmdastjóri Staðlaráðs fær orðið í dag:

Ég sit við tölvuna með þráðlaus „noise-cancelling“ heyrnartól að hlusta á The Coma Machine með Between the buried and me og Ethnicolor með Jean-Michel Jarre, í gegnum Bluetooth, á meðan ég rita þessa hugvekju. Þegar kemur að tónlist er ég eins og köttur Bakkabræðra… alæta.

Þessi sömu heyrnartól notaði ég í löngu flugi um síðustu helgi og gat útilokað að miklu leyti hávaða frá hreyflum Boeing 787-8 og notið þess að láta Flosa Þorgeirs og Baldur Ragnars, sem lesendur kannast við sem Drauga fortíðar, mala ljúflega í eyrun á mér á meðan ég komst á milli heimsálfa. Heyrnartól með þessa möguleika eru auðvitað notuð líka til að vernda heyrn fólks á vinnustöðum þar sem stöðugur hávaði er mikill. Það hefur ekki alltaf verið raunin og margir sem ég þekki persónulega og unnu t.d. á flugvellinum í Keflavík hér áður fyrr, glíma við skerta heyrn, að líkindum vegna þess að þeir hafa ekki haft aðgang að viðeigandi persónuhlífum til að verja heyrn sína.

Sennilega gaf mótorinn í mjaltavélinni hennar ömmu í sveitinni líka frá sér hávaða sem var langt fyrir ofan 85 desibilin sem talin eru áhættumörk vegna heyrnarskemmda. En þar sem tíminn sem hann var í gangi var takmarkaður held ég að við Ingibjörg frænka höfum ekki borið neinn skaða af. Það er miklu heldur hávaðasækni mín þegar ég hlusta á tónlist sem gæti skemmt í mér heyrnina en látum það liggja milli hluta.

Í Evrópu þurfa heyrnartólin að uppfylla strangar kröfur. Reyndar líka á öðrum mörkuðum en við skulum einbeita okkur að Evrópu í dag. Þar erum við að vinna með CE merkið eins og reyndar á við um mjög margar neytendavörur. Þar sést einn ávinningurinn af evrópska samstarfinu glöggt. Við verðum næstum sjálfkrafa hluti af risastóru öryggisneti þar sem öryggi almennings er lykilatriði. Skoðum það aðeins síðar. Heyrnartólin þurfa að uppfylla kröfur úr;

-reglugerð um þráðlausan fjarskiptabúnað nr. 944/2019 (Bluetooth þarf að virka)

-reglugerð um rafsegulsamhæfi nr. 303/2018 (þráðlaus búnaður má ekki valda rafsegultruflunum)

-reglugerð um takmarkanir á notkun tiltekinna, hættulegra efna í raf- og rafeindabúnaði (RoHS) nr. 630/2014  (bannað að nota blý, kvikasilfur o.fl.)

-lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu  nr. 134/1995 (vörur eiga að vera öruggar til notkunar)

-efnalög nr. 61/2013 (efnisnotkun í heyrnartólum lýtur ströngum reglum)

-reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs nr. 609/1996 (pökkun í umhverfisvænar umbúðir)

Svo þarf að CE merkja eftir kúnstarinnar reglum, WEEE merkja og gefa út tilskilin skjöl, s.s. samræmisyfirlýsingu.

Til allrar hamingju þurfum við ekki að velta neinu af þessu fyrir okkur eða kunna utanbókar númerin eða nöfnin á tíu stöðlum sem notaðir eru til að uppfylla kröfur löggjafarinnar. Þeir eru hluti af kerfinu sem Evrópusambandið notar til að tryggja öryggi okkar og heilsu, virkni og gæði vöru, samræmi við kröfur, árangur í umhverfismálum og að til staðar sé kerfi sem sér til þess að allt sé hér eins og það á að vera.

Það er því miður ekki hægt að ábyrgjast að öll vara sem ratar til Íslands uppfylli lágmarks kröfur, allra síst það sem neytendur kaupa sjálfir á netinu, af framleiðendum utan Evrópu. Netið er staður þar sem neytendur ættu að hafa varann á til að forðast að kaupa hættulegt drasl sem virkar ekki og getur skaðað okkur.

Í dag er alþjóðlegi staðladagurinn. Hjá okkur eru raunar allir dagar alþjóðlegir staðladagar því við erum hluti af gagnverki öryggis, virkni og árangurs sem hjúpar Evrópu en nær í raun til alls heimsins. Við erum öryggisverðir hversdagsins. Verði þér að góðu.

Helga Sigrún

 

Mynd: Ervo Rocks af Unsplash

 

Menu
Top