Alþjóðastaðlastofnunin ISO vinnur nú að endurskoðun á hinum víðtækt notaða gæðastjórnunarkerfisstaðli, ÍST EN ISO 9001. Ný útgáfa, ÍST EN ISO 9001:2026, er í farvatninu og felur í sér markverðar áherslubreytingar – þó án þess að hræra upp í grunnbyggingu staðalsins.
Viðfangsefni og kröfur nútímans eru síbreytileg, og í nýrri útgáfu er lögð sérstök áhersla á loftslagsmál, siðferði og menningu innan skipulagsheilda, sem og áhrif nýrrar tækni á gæðastjórnun. Fyrirtæki og stofnanir sem nú þegar starfa samkvæmt ÍST EN ISO 9001:2015 munu finna að yfirfærslan verður tiltölulega greið, en þó með nýjum tækifærum til að efla gæðastarf sitt.
Loftslagsmál:
Skipulagsheildir þurfa framvegis að taka loftslagsbreytingar sérstaklega með í reikninginn þegar metið er í hvaða samhengi þær starfa (kafli 4.1).
Forysta og menning:
Æðsta stjórn ber aukna ábyrgð á að efla gæðamenningu og stuðla að siðferðilegri hegðun innan fyrirtækisins (Kafli 5.1.1).
Gæðastefna:
Stefnan þarf skýrt að endurspegla stefnu og samhengið sem skipulagið starfar í, til að tryggja samræmi við heildarstefnu þess.
Áhættu- og tækifæragreining:
Kafli 6.1 hefur verið endurskipulagður til að gera áhættumiðaða hugsun og tækifærastjórnun skýrari og hagnýtari. Aukið er við leiðbeiningar í viðauka A.
Starfsmannaþekking:
Allir starfsmenn þurfa að vera meðvitaðir um mikilvægi gæðamenningar og siðferðilegrar hegðunar (Kafli 7.3).
Tæknibreytingar:
Ný tækni, stafrænar umbreytingar og hugbúnaður eru nú viðurkennd sem lykilþættir í vöktun og mælingu á gæðum.
Sjálfbærni og hagsmunaaðilar:
Staðallinn styrkir áherslu á sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og samskipti við hagsmunaaðila, ekki síst í tengslum við loftslagsmál.
Leiðbeiningar og ritstjórn:
Útfærslur í leiðbeinandi köflum verða skýrari og samræmdari við aðra ISO-staðla, sem gerir innleiðingu auðveldari.
ÍST EN ISO 9001 er alþjóðlegur hornsteinn í gæðastjórnun og hefur verið innleiddur hjá milljónum fyrirtækja og stofnana um allan heim. Nýja útgáfan mun halda í þann grunn en bæta við nýjum áherslum sem endurspegla raunveruleika dagsins í dag – þar sem sjálfbærni, siðferði og ný tækni skipa æ stærri sess.