Það er mikilvægt fyrir okkur sem vinnum í stöðlum að skilja hvernig kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja eru útfærðar í stöðlum. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs tók fagnandi tækifæri til að hitta farsælan stjórnanda, framkvæmdastjóra Royal Iceland, sem kann þá list að uppfylla strangar kröfur með góðum árangri og góðum verkfærum.
Á Hafnarbakkanum í Njarðvík starfrækir Lúðvík Börkur Jónsson útgerðina Royal Iceland, en auk þess að veiða þorsk, skollakopp, kuðung, krabba o.fl. þá vinnur Royal Iceland afurðir á staðnum sem seldar eru til manneldis í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína sem eru lykilmarkaðir fyrirtækisins. Þess vegna þarf Royal Iceland að uppfylla strangar kröfur, m.a. evrópsku matvælalöggjafarinnar sem innleidd hefur verið á Íslandi en tilgangur hennar er að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla. Það skiptir því engu hvort varan er seld til Berlínar eða Bíldudals, kröfurnar eru þær sömu innan evrópska markaðarins. Tilganginum er svo náð með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti. HACCP (e. Hazard analysis and critical control points) er trúlega eitt mikilvægasta verkfærið sem nýtt er við framleiðslu matvæla en það gerir kröfu um skilgreiningu allra áhættuþátta allra vara. Allt eru þetta svo dálítið mikið staðlaðir hlutir þar sem staðlar af öllum gerðum nýtast til að uppfylla kröfurnar.
Stöðlun og vottanir
Til að uppfylla mikilvægar kröfur um rekjanleika er Royal Iceland útgerðin m.a. vottuð skv. MSC stöðlum (e. Marine Stewardship Council). Rekjanleikastaðall MSC gerir ráð fyrir að útgerðin kaupi eingöngu MSC vottaðar vörur frá vottuðum birgjum, tryggi að vottaðar vörur séu klárlega auðkennanlegar, að vottuðum vörum sé haldið frá vörum sem ekki eru vottaðar, að þær séu rekjanlegar og magn þeirra skráð og notað sé fullnægjandi stjórnunarkerfi til að halda utan um þetta allt. Vottunin gildir í þrjú ár og komið er í eftirlitsúttektir a.m.k. árlega. ÍST EN ISO/IEC 17065 nýtist vel við vottun á afurðum skv. MSC. Innra eftirlit varðar svo veginn þar á milli enda mikilvægt að viðhalda gæðum og stöðugleika þeirra á þessum mörkuðum. Þar kemur ÍST EN ISO 19011 um innri úttektir að góðum notum og ISO 31000 um áhættustjórnun kemur augljóslega að gagni líka þegar skilgreindir eru áhættuþættir þeirra vara sem framleiddar eru.
Royal Iceland er einnig með BRCGS vottun (e. Brand Reputation Compliance Global Standard) á verksmiðju sinni í Póllandi, auk áður nefndrar MSC vottunar, en þar eru framleidd hágæða hrogn til sushi gerðar. Royal Iceland starfar því eftir stöðlum sem setja m.a. mjög ströng skilyrði um ítarlega skjalfestingu gæðastjórnunar, ítarlegar og strangar kröfur um úttektir og sjálfsmat og mikla kröfur einnig um skjalfesta og sannprófaða ferla fyrir hreinlæti, framleiðslu, geymslu og flutning, m.a. með daglegri sýnagreiningu á óháðri rannsóknarstofu auk innra eftirlits.
Vottunum sem þessum er viðhaldið með reglulegum úttektum óháðra úttektaraðila sem koma og gera ítarlega úttekt á öllum kerfum og virkni þeirra. Þess má geta að Royal Iceland fékk hæstu einkunn við síðustu vottunarúttekt BRCGS eins og sjá má á vottunarskírteini á vef fyrirtækisins.
Þá gerir Bandaríkjamarkaður enn aðrar kröfur sem krefjast FDA leyfis (e. Food and Drug Administration) og -vottunar til að Royal Iceland geti selt matvæli sem eru tilbúin til neyslu. Eðlilega eru gerðar mun meiri kröfur til þeirra en matvæla sem þurfa hitameðhöndlun við eldun. Sömu sögu má segja um Kína sem gerir enn aðrar kröfur svo stöðlun gæða hjá Royal Iceland ná ekki bara til Berlínar og Bíldudals heldur Beijing og Boston líka. Framkvæmdastjórinn Lúðvík Börkur Jónsson, sem hefur marga fjöruna sopið í þessum geira, sefur þó rólegur þrátt fyrir hátt flækjustig. Kristín Anna Þórarinsdóttir yfirmaður gæðamála er með PhD gráðu í matvælaverkfræði, þekkir allar kröfur sem Royal Iceland þarf að uppfylla á mismunandi mörkuðum og tryggir að þeim sé öllum fullnægt.
Njarðvíski kavíarinn sem við þekkjum öll
Svo er það þetta. Næst þegar þú kreistir gómsætan Mills kavíar úr túbu, skaltu vita að það er hægt að rekja innihald hennar til dagsins sem þorskurinn var veiddur við Íslandsstrendur. Hann hefur líka verið framleiddur eftir ströngum gæðastöðlum í Njarðvík. Þetta síðastnefnda er þó ekki krafa skv. evrópskri matvælalöggjöf en okkur finnst það ekki skemma fyrir enda er framkvæmdastjóri Staðlaráðs þaðan. Eins og kavíarinn.
Mynd: Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri Staðlaráðs Íslands og Lúðvík Börkur Jónsson, framkvæmdastjóri Royal Iceland.