Í síðustu viku fór fram vinnustofan Young Professionals í Helsinki þar sem yfir þrjátíu ungir sérfræðingar frá Evrópu tóku þátt, þar á meðal sex frá Íslandi. Þátttakendur úr íslenska hópnum komu frá þremur fagstaðlaráðum:
Byggingarstaðlaráði: Guðbrandur Tumi Gíslason (Límtré Vírnet) og Ástrós Steingrímsdóttir (Staðlaráð Íslands)
Rafstaðlaráði: Sigurður Rúnar Rúnarsson (Orka náttúrunnar)
Fagstaðlaráði í upplýsingatækni: Silja Rós Svansdóttir (Landspítalinn) og Steinar Björnsson (Greiðsluveitan)
Guðmundur Valsson, verkefnastjóri hjá Staðlaráði Íslands, leiddi hópinn af sinni vanalegu festu og innsýn.
Vinnustofan hófst á kynningum um staðla og staðlagerð þar sem Antti Turtola, gæðastjóri SESKO, fór yfir grundvallarhugtök. Steven Margis, varaforseti IEC og formaður samræmismatsnefndarinnar, fjallaði í framhaldinu um samræmismat og mikilvægi þess í alþjóðlegu samhengi.
Að því loknu hófst hópavinna þar sem þátttakendur unnu að verkefni tengt þróun vélmennis sem gæti tekið við hættulegum eða endurteknum verkefnum í vinnuumhverfi. Lögð var áhersla á að skilgreina hlutverk vélmennisins nákvæmlega, greina öryggisáhættu á sviðum eins og rafmagnsöryggi, notendaöryggi og fjárhagslegt öryggi, og forgangsraða áhættum eftir mikilvægi.
Í næsta fasa voru hóparnir brotnir niður í hlutverkahópa: framleiðendur, notendur og eftirlitsaðila. Hver hópur greindi hvaða öryggisáhættu væri mikilvægust út frá sínum sjónarhóli og rökstuddi matið. Í kjölfarið fóru fram samræður milli hópa, þar sem forgangsröðun og sjónarmið voru borin saman og niðurstöður kynntar.
Verkefnið speglaði staðlastarf í sinni tærustu mynd – þátttakendur þurftu að hugsa sem hagsmunaaðilar, greina þarfir, meta áhættu og ná sameiginlegri niðurstöðu. Slíkt ferli er kjarninn í þróun staðla og grundvöllur nýsköpunar, öryggis og alþjóðlegrar samkeppnishæfni.
Samhliða vinnustofunni fór fram fundur hjá IECEE CMC, sem er samráðsvettvangur samræmismats. Þátttakendur fengu tækifæri til að fylgjast með hluta fundarins og spjalla við fundargesti í kaffihléum – dýrmæt innsýn í alþjóðlegt samstarf og samræmingarferli á sviði rafmagnsöryggis.
Dagurinn þótti einstaklega vel heppnaður. Þrátt fyrir að vera stuttur var dagskráin innihaldsrík og efnismikil. Vonast er til að þessi reynsla styrki unga sérfræðinga í þeirra framtíðarhlutverki innan staðlastarfs – hvort sem það verður innanlands eða á alþjóðlegum vettvangi.