Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Í framhaldi af vinnustofu sem að Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum og Land og skógur stóðu að í vor hefur verið hafin vinna við gerð staðals um sjálfbæra skógrækt á Íslandi. Þessa dagana er verið að leita eftir að fjármagna vinnunna og að manna tækninefnd með sérfræðingum sem munu leiða vinnuna áfram.
Á vinnustofunni kom fram skýrt ákall um að þörf sé á að byggja ramma utan um þennan málaflokk sem byggður er á bestu fagþekkingu og viðurkenndum aðferðum, hvort sem er innlendar eða alþjóðlegar.
Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt í þessu verkefni með annaðhvort fjármagni eða vinnuframlagi geta sett sig í samband við ritara verkefnisins, Hauk Loga Jóhannsson á netfangið haukur@stadlar.is