Falsaðar vörur og eftirlíkingar og öryggi fólks og heilsa

Viðtal við Þórunni Sigurðardóttur vakti athygli okkar á Vísi í dag.

Þar segir hún frá starfi sínu fyrir React, samtökum sem berjast gegn framleiðslu og markaðssetningu á fölsuðum vörum og eftirlíkingum. Aðild að samtökunum eiga á þriðja hundrað fyrirtæki sem eiga verðmæt vörumerki í sínum fórum sem þau vilja vernda. Þar eru allt frá bílavarahlutaframleiðendum til lúxusvarnings, til lyfjaframleiðenda, knattspyrnufélaga, tæknirisa og allt þar á milli. 

Það er mikilvægt að vernda hugverk og einkaleyfi af samfélagslegum og fjárhagslegum ástæðum og forðast þess vegna að kaupa eftirlíkingar. Ein hlið þess að kaupa falsaða vöru er að með því erum við mögulega að fjármagna hryðjuverk og glæpastarfsemi. En það eru fleiri hliðar á slíkum viðskiptum.

Hliðin sem okkur hjá Staðlaráði langar að sýna er sú að skv. löggjöf sem við höfum innleitt frá Evrópu er óheimilt að markaðssetja vöru sem ekki er örugg. Oft er CE merkingar krafist á vöruna og með því sýnir framleiðandi fram á að hann hafi framleitt vöruna skv. ströngum stöðlum og þess vegna uppfylli hún þá kröfu að hún sé örugg. Hluti af því kerfi sem komið hefur verið á í Evrópu er virk opinber markaðsgæsla með vörum á markaði. Komi í ljos að svo er ekki er hún innkölluð án tafar.

Kerfið sem komið var á tryggir öryggi almennings, heilsuvernd og umhverfisvernd. Með því er tryggt að ekki séu notuð skaðleg efni í hana, að varan sé ekki hættuleg, að hún virki með tilteknum hætti og sé framleidd skv. ströngum kröfum og eftirliti og að hún hefur undirgengist strangar öryggis- og gæðaprófanir. Það er frekar auðvelt að afla upplýsinga um vörur sem markaðssettar eru hér á landi en getur reynst erfiðara þegar keypt er í gegnum netið.  Í mörgum tilvikum eru falsaðar vörur og eftirlíkingar keyptar af ásetningi en hugsanlega í einhverjum tilvikum fyrir misgáning eða vanþekkingu. 

Við tökum því undir orð Þórunnar sem segir "ef eitthvað reynist nánast of gott til að vera satt, þá er það oftast þannig" um leið og við hvetjum til þess að neytendur geri sér far um að velja löglega markaðssetta vöru bæði til að leggja ekki sitt af mörkum til glæpasamtaka en líka til að tryggja eigið öryggi og heilsu. 

Hér er viðtalið við Þórunni  

 

Mynd: Pixabay af www.pexels.com 

Menu
Top