Á íslensku má alltaf finna svar... en líka á ensku, dönsku og norsku

Breyting á innskráningu

Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.

Mörgum þótti sem bæði vinsæll skemmtiþáttur Gísla Marteins  og áramótaskaupið hafi í ár skort fjölbreytileika þar sem einsleitni einkenndi gestaval og hlutverk. Haft var á orði að aðlögun margra nýrra Íslendinga, án aðgreiningar, muni ekki takast vel nema að fleiri Íslendingar en þeir sem hér hafa fæðst og alist upp, eru með rétt litarhaft og ættboginn sé ýmist synir eða dætur, séu í hópi álitsgjafa og viðmælenda hvort sem það er um áramót, við uppgjör eða í umfjöllun um samfélagsleg málefni almennt. Í velferðarsamfélögum er tryggt að nýjum landsmönnum sé sýnd virðing og stuðningur með því að bjóða þeim þátttöku í samfélagslega mikilvægum málum. Það á við þegar verið er að gera upp árið, líta yfir farinn veg, gagnrýna það sem er á döfinni hverju sinni og tryggja að raddir allra heyrist. Þannig náum við árangri.

En hvernig?

Í Noregi og Danmörku hafa verið gefnir út staðlar sem virka sem verkfæri og leiðarljós til að auðvelda stjórnendum að taka ákvarðanir og stjórna sinni starfsemi með inngildingu og fjölbreytni að leiðarljósi. Um er að ræða landsstaðla en Norðmenn hafa hug á að leggja sinn landsstaðal inn í alþjóðlega tækninefnd hjá ISO og fá álit alþjóðlegra sérfræðinga á málið með það að markmiði að staðallinn verði alþjóðlegur. Þannig leggja Norðmenn sitt af mörkum til að breiða út góða stjórnarhætti og samfélagslega ábyrg um heiminn.

Staðlarnir byggja á sama grunni og stjórnunarkerfisstaðlar ISO. Í því felast margháttaðar leiðbeiningar.

  • Heill kafli er tekinn í skilgreiningar á hugtökum þannig að enginn velkist í vafa um hvað felst t.d. í aðlögun án aðgreiningar.
  • Annar kafli fjallar um að notandi staðalsins þarf að skilgreina samfélagslegt samhengi sitt, skilja þarfir og væntingar viðskiptavina sinna og umbjóðenda og setja framleiðslu sína og þjónustu í samhengi við markaðinn sem unnið er á.
  • Þessu næst er fjallað um hlutverk stjórnenda, ábyrgð þeirra á því að innleiða verklag og ferla sem tryggja stefnu um aðlögun án aðgreiningar.
  • Þessu næst er fjallað um aðgerðir sem ráðast þarf í til að mæta áhættu og tækifærum og hvaða áætlanir þurfa að innihalda.
  • Heill kafli fjallar um auðlindir, hæfni, gagnsæi, vitund, upplýsingagjöf, samskipti o.þ.h.
  • Þá er einnig fjallað um nauðsyn þess að viðhalda skriflegri stefnu á sviðinu um jöfn tækifæri, að vinna bug á ójafnrétti, tryggja aðkomu og gagnrýni allra hlutaðeigandi, mæla árangur með hlutlægum hætti og hvernig stjórnendur geta brugðist við óviðeigandi hegðun á vinnustaðnum.
  • Það er nauðsynlegur hluti allra góðra stjórnkerfa að segja til um árangursmælingar, úrbótatækifæri og stjórnun þeirra og virka þátttöku stjórnenda við stöðugar umbætur.
  • Báðir staðlarnir innihalda svo viðauka með dæmum og nánari upplýsingum og leiðbeiningum til að auðvelda stjórnendum að taka nauðsynleg skref til að tryggja samfélagsábyrgð á þessu sviði.

Báða staðla er hægt að fá á ensku, ef vill.

Hér má kaupa danska staðalinn 

Hér má kaupa norska staðalinn 

Stjórnendur allra fyrirtækja, stofnana, hagsmunasamtaka, skóla, sveitarfélaga og opinberra aðila mættu gjarnan líta á þessi verkfæri til að bæta þjónustu og leggja sitt af mörkum til samfélagsábyrgðar.

Menu
Top