Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar-og viðskiptaráðherra, sem fer með mál er varða staðla og stöðlun kom við á skrifstofu Staðlaráðs til að kynna sér starfsemina. Staðlar koma við sögu í ýmsum öðrum málaflokkum á verksviði ráðherrans. Þannig mynda þeir hryggjarstykki neytendaréttar á Íslandi, eru grundvöllur aðgengis að mörkuðum fyrir íslenskar vörur og þjónustu, tryggja örugg rafræn viðskipti og eru jafnframt grundvöllur faggildingar og markaðseftirlits. Þá er íslenska lyklaborðið sem þessi orð eru skrifuð á, afrakstur stöðlunar einnig og íslensk greiðslumiðslun, verði henni komið á, mun byggja á stöðlun sem átt hefur sér stað á vettvangi ráðsins.
Tilefni heimsóknarinnar var einnig að undirrita nýjan þjónustusamning enda gegnir Staðlaráð mikilvægu hlutverki fyrir ríkið við að staðfesta evrópska staðla, taka þátt í starfi evrópskra og alþjóðlegra staðlasamtaka, gera íslenska staðla aðgengilega notendum, stuðla að því að staðlar nýtist íslensku stjórnkerfi og atvinnulífi með virðisaukandi hætti og vinna stöðlunarverkefni sem létta okkur öllum lífið, á hverjum degi.
Starfsfólk Staðlaráðs þakkar ánægjulega heimsókn og hlakkar til að takast á við nýjar áskoranir til stuðnings íslensku samfélagi á komandi árum.