Mútur hafa mörg andlit

Í ljósi nýlegra frétta af viðskiptaháttum í íslensku atvinnulífi endurbirtum við hér pistil sem við birtum upphaflega á vef okkar í lok árs 2020. Verkfæri til að koma í veg fyrir spillingu eru til, útgefin með ítarlegum leiðbeiningum um það hvernig það er gert. Það þarf hins vegar vilja og ásetning um að koma í veg fyrir spillingu. Því miður skortir þann vilja víða.

Í nýlegri skýrslu gagnrýnir Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, íslensk stjórnvöld fyrir andvaraleysi gagnvart mútubrotum. Áherslan er á möguleg mútubrot íslenskra fyrirtækja erlendis, en hætta á slikum brotum er tæplega bundin við útlönd. Þótt það sé stjórnvalda að bregðast við gagnrýni OECD, geta fleiri lagt af mörkum til að sporna almennt gegn þeim skaðvaldi sem mútugreiðslur eru.

Mútur eru útbreitt fyrirbæri um allan heim. Alvarlegt félagslegt, efnahagslegt, pólitískt og siðferðilegt áhyggjuefni. Mútur grafa undan góðri stjórnsýslu, standa í vegi fyrir framþróun og hamla heilbrigðri samkeppni. Slíkar greiðslur ýta undir óréttlæti, mannréttindabrot og fátækt. Mútur draga úr trausti á stofnunum samfélagsins og milli manna. Í viðskiptum auka mútur kostnað og hækka verð á vöru og þjónustu jafnframt því að draga úr gæðum.

Af þessum ástæðum hafa stjórnvöld margra ríkja tekið höndum saman um að vinna gegn þessari tegund spillingar með alþjóðlegum samningum. Ísland er til að mynda aðili að samningi OECD um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Í inngangi samningsins er lögð áhersla á að mútur séu útbreitt vandamál í alþjóðlegum viðskiptum, grafi undan góðum stjórnarháttum, skekki samkeppnisstöðu og dragi úr almennri hagsæld.

ISO 37001 – stjórnunarkerfisstaðall gegn mútum
Viðspyrna stjórnvalda gegn mútum dugar ekki ein og sér. Atvinnulífið, fyrirtækin sjálf, verður líka að taka til hendinni og berjast gegn þessum skaðvaldi. Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa lagt sitt af mörkum  og gefið út staðalinn ISO 37001 Anti-bribery management systems – Requirements with guidance for use. Eins og heitið gefur til kynna er hér um að ræða stjórnkerfisstaðal sem dregur upp kröfur sem skilvirkt stjórnunarkerfi fyrirtækis eða stofnunar þarf að uppfylla ef það vill hindra mútur. Jafnframt eru í staðlinum leiðbeiningar um innleiðingu, starfrækslu og viðhald slíks stjórnunarkerfis. Staðallinn er þannig gerður að hann má auðveldlega fella að því stjórnunarkerfi sem fyrir er í einstökum stofnunum eða fyrirtækjum. 

Mútugreiðslur eru ekki bara brún umslög sem ganga laumulega milli manna. Af staðlinum má ráða að mútur geta birst í afar fjölbreytilegum myndum sem framsækin fyrirtæki og stofnanir ættu að kynna sér.

Staðallinn ISO 37001 fæst í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs, www.stadlar.is

 
Menu
Top