Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Stefna Norrænu ráðherranefndarinnar um græn, samkeppnishæf og samþætt Norðurlönd var sett árið 2019 þegar Ísland fór með formennsku í nefndinni. Nánar tiltekið var sú stefna sett á fundi nefndarinnar sem haldinn var Hellu, en Sigurður Ingi Jóhannsson sem þá var formaður hennar stýrði þeim fundi. Sérstaklega var þá tiltekið að norrænar lausnir í loftslags- og umhverfismálum væru mikilvæg útflutningsvara og uppspretta atvinnu og velferðar. Undir það tekur Staðlaráð Íslands. Til að leggja sitt af mörkum til þessarar stefnu á ráðið í góðu, nánu og faglegu samstarfi við Norðurlöndin um stöðlun á ýmsum sviðum, þ.m.t. í umhverfismálum. Með því treystir ráðið þátttöku Íslands og samstarf norrænna sérfræðinga sem vinna saman að því að móta og sammælast um viðmið og lausnir sem gefnar eru út í staðlaformi sem einstök ríki og atvinnulíf þeirra nota til að ná betri árangri. Samhæfðar lausnir eru lykill að árangri því hann þarf að vera hægt að mæla með samræmdum hætti og sammælt viðmið um framkvæmd, sem byggja á bestu fáanlegu þekkingu og rannsóknum hvers tíma eru mikils virði. Í raun er atvinnulífinu þá veittur aðgangur að verkfærum sem búin eru til með því að safna saman og samhæfa bestu fáanlegu þekkingu.
Nú þegar hefur verið unnin tækniforskrift um kolefnisjöfnun sem byggir á notkun alþjóðlegra ISO staðla og hefur hún að geyma forskrift um sammælta notkun þeirra staðla til að koma á markaði með vottaðar kolefniseiningar. Sú tækniforskrift var unnin af tugum íslenskra sérfræðinga sem búa yfir bestu mögulegu þekkingu á sviðinu og hefur hún verið kynnt staðlasamtökum á hinum Norðurlöndunum og vakið mikla athygli. Þá stendur einnig yfir samráð Norðurlandanna við endurskoðun þjóðarviðauka við evrópska þolhönnunarstaðla. Í því felst að okkar bestu þolhönnunarsérfræðingar taka þátt í norrænu samstarfi um að samhæfa ákvæði sem segja til um kröfur til þolhönnunar mannvirkja á Norðurlöndunum þar sem það á við. Virk þátttaka í samstarfi norræna staðlasamtaka veitir íslenskum sérfræðingum einnig aðgang að samvinnu og þekkingu annarra sérfræðinga á sviðinu.
Staðlar styðja við löggjöf með ómetanlegum hætti. Þeir gefa fyrirtækjum forskot á að nýta sér þekkingu þeirra bestu á samræmdan hátt. Þeir hafa um langt árabil verið hryggjarstykki í samræmingu innri markaðar í Evrópu og aukið framleiðni, bætt öryggi og tryggt heilsu-, neytenda- og umhverfisvernd. Notkun staðla samhliða löggjöf veitir löggjafanum færi á að einfalda kröfur í alls kyns regluverki, gefur honum aðgang að bestu fáanlegu tæknilegu sérfræðiþekkingu hvers tíma og tryggir hlítni við regluverkið því viðmiðin eru búin til af þeim bestu sem jafnframt hafa sammælst um þau. Það er því engin betri og einfaldari leið til að ná fram grænum, samkeppnishæfum og samþættum Norðurlöndum en að styðja við stöðlun, taka virkan þátt í samstarfi Norðurlandanna og með því tryggja sjálfbærasta svæði í heimi. Nýleg ákvörðun aðalfundar Staðlaráðs um stofnun fagstaðlaráðs í umhverfismálum ætti að vekja áhuga stjórnvalda á þátttöku því viðfangsefni þess er m.a. græn, samkeppnishæf og samþætt Norðurlönd, samstarf um virðisaukandi lausnir og stuðning við löggjöf með þátttöku bestu sérfræðinga á sviðinu.