Staðlar geta kveðið niður gamla drauga

Hugtakið verðbólga er talsvert til umræðu þessa dagana og sýnist sitt hverjum um ástæður hennar.  Laun er ein þeirra stærða í stóra samhenginu sem skipta miklu máli en þau eru oft einn helsti kostnaðarliður atvinnurekenda. Oft er verðbólga sett í samhengi við hækkun launkostnaðar fyrirtækja sem njóta ekki aukinna tekna á móti þó sú hlið mála sé ekki eina hliðin. Hækkun launa getur þó haft veruleg áhrif á verðbólgu. En hvað ef hægt væri að auka framleiðni þannig að fyrirtækin fengju eitthvað fyrir sinn snúð? Meiri afköst og meiri tekjur á móti tekjuhækkunum. Og hvaða verkfæri gætu stuðlað að slíkri þróun? Jú, rétt til getið. Staðlar.

Rannsóknir sýna fram á að fjórðung framleiðniaukningar undanfarna áratugi sé staðlanotkun að þakka því staðlar sem verkfæri við stjórnun og rekstur fyrirtækja eru frábær verkfæri sem orðið hafa til með sammæli bestu sérfræðinga sem fengu aðeins eina spurningu til að svara. Hvernig er best að gera þetta?

Markviss notkun staðla til að koma í veg fyrir mistök, auka afköst, samvirkni, samkeppnishæfni, nýsköpun og viðskipti. Verkfæri sem bæta árangur, treysta gæði og auka traust viðskiptavina geta þannig lagt lóð á vogarskálar í baráttu við verðbólgudrauginn.

Staðlanotkun í íslensku atvinnulífi skilar nú þegar hagvaxtaraukningu sem talin er í milljörðum á hverju ári. Samt er hún ekkert sérstaklega útbreidd og við stöndum nágrannaþjóðunum langt að baki í þeim efnum. Í vefverslun Staðlaráðs er að finna 70.000 verkfæri sem orðið hafa til með sammæli sérfræðinga sem svöruðu spurningunni, hvernig er best að gera þetta? Allt frá gæðastjórnunar-, umhverfisstjórnunar- og kerfum um stjórnun upplýsingaöryggis, til krafna um frágang á rafmagni og fjarskiptalögnum, til leiðbeininga um förgun lyftuvíra, til ferla um rafrænt reikningaferli til krafna um CE merkingar á byggingarvörum, til tækniforskriftar um kröfur til kolefnisjöfnunar. Allt eru þetta verkfæri sem sammæli eru um að virki.

OECD, WTO og ESB leggja mikla áherslu á staðlanotkun til að tryggja virkni hluta, öryggi, heilsu- og umhverfisvernd. Í mjög mörgum tilvikum er vottun þriðja aðila á tilteknum ferlum, framleiðsluaðferðum og virkni hluta nauðsynleg til að komast inn á markaði en eftir stendur að staðlar eru fullkomlega nothæfir fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum sem viðurkennd, eftirsóknarverð, áhrifarík verkfæri sem gera okkur kleift að gera betur. Líka að kveða niður verðbólgudrauga.

Menu
Top