Innleiðing og vottun stjórnunarkerfa skilar árangri fyrir alla

Innleiðing stjórnunarkerfis felur í sér skuldbindingu sem krefst átaks við innleiðingu og eftir atvikum vottun. Ýmsar rannsóknir sem gerðar hafa verið í mörgum löndum, þ.m.t. Norðurlöndunum, benda til þess að staðlar stuðli að aukinni framleiðni fyrirtækja, aukinni landsframleiðslu, betra aðgengi að mörkuðum, auknu trausti viðskiptavina og auðveldi skipulagsheildum að ná árangri á sviði umhverfismála, við mat á áhættu og við stjórnun almennt. Nú er unnið að rannsókn á samfélagslegum árangri staðlanotkunar á Norðurlöndunum og er niðurstaðna að vænta á vormánuðum.

Á haustmánuðum 2022 birti Elín Huld Hartmannsdóttir lokaverkefni sitt til MIS gráðu í upplýsingafræði á Skemmunni, rafrænu varðveislubókasafni íslensku háskólanna þar sem varðveitt eru lokaverkefni nemenda og rannsóknarrit kennara og fræðimanna. Elín gerði rannsókn meðal 190 skipulagsheilda sem höfðu fengið vottun faggildrar vottunarstofu á stjórnunarkerfi sem byggð höfðu verið upp skv. ÍST EN ISO 9001, 14001 og/eða 27001. Þegar rannsóknin var gerð, á árinu 2020, höfðu rétt tæplega 200 vottanir verið gefnar út hér á landi til fyrirtækja sem innleitt höfðu eitt eða fleiri stjórnunarkerfi ISO.

Svarhlutfall var 47% eða 83 talsins. Lagðar voru 90 spurningar fyrir stjórnendur sem lögðu mat á ýmsa þætti um virði, ávinning, kostnað og áhrif af notkun vottaðs stjórnunarkerfis, eins eða fleiri. Stærð skipulagsheildanna var flokkuð eftir fjölda starfsmanna. Níu þeirra höfðu á að skipa 10 starfsmönnum eða færri, 22 höfðu 10-49 starsfmenn, 16 höfðu 50-99 starfsmenn, 15 höfðu 100-149 starfsmenn en ein til fjórar skipulagsheildir voru í fjölmennari flokkum. Vottuð stjórnunarkerfi henta því ekki bara stærri fyrirtækjum heldur njóta lítil fyrirtæki ávinnings af þeim líka.

Helstu niðurstöður rannsóknar Elínar Huldar eru þær að 91% stjórnenda eru mjög eða frekar sammála því að vottað stjórnunarkerfi hafi breytt vinnulagi innan skipulagsheildar til batnaðar, 94% voru mjög eða frekar sammála því að aðgengi að skjölum og upplýsingum hafi batnað, 79% töldu vottun hafa samræmt þjónustu, 80% voru mjög eða frekar sammála því að ósamræmi eða frávik hafi verið lágmörkuð, 80% voru mjög eða frekar sammála því að nýting á starfskröftum sé betri, 86% voru mjög eða frekar sammála því að vottun hafi leitt til betri ímyndar, 58% töldu markaðs og kynningarstarf á vörum eða þjónustu hérlendis auðveldara og 50% töldu kostnað hafa skilað sér til baka í auknum tekjum og sparnaði. 47% voru frekar eða mjög sammála því að vottað stjórnunarkerfi sé nauðsynlegt fyrir bætta fjárhagslega afkomu og 77% telja hana hafa aukið á samkeppnishæfni. Á heildina litið sýnir rannsóknin að vottun stjórnunarkerfa er talin hafa skilað miklum ávinningi og að ávinningur eykst almennt með lengd þess tíma sem slíkt kerfi er rekið innan skipulagsheildar.

Niðurstöður rannsóknarinnar um rekstur vottaðs stjórnunarkerfis eru um margt samhljóða ýmsum erlendum rannsóknum um ávinning af staðlanotkun sem gerðar hafa verið. Hér er þó verið að skoða eingöngu vottuð stjórnunarkerfi en aðrar rannsóknir mæla staðlanotkun almennt.  Staðlanotkun eykur, að  mati stjórnenda skipulagsheilda árangur á ýmsum sviðum, eykur framleiðni, landsframleiðslu og bætir öryggi og gæði.

Með stöðlum fá stjórnendur aðgang að sérfræðiþekkingu og leiðsögn þeirra bestu á sínu sviði. Það munar marga um minna.

 

Aðgangur að ritgerð Elínar Huldar Hartmannsdóttur, Notkun og árangur íslenskra skipulagsheilda af stjórnunarstöðlum, ISO 9001, ISO 14001 og ISO 27001, er hér á Skemmunni.

Menu
Top