Staðlar og líffræðileg fjölbreytni

Á tímum loftslagsbreytinga og annarra neikvæðra umhverfisáhrifa af mannavöldum hefur líffræðileg fjölbreytni beðið hnekki, sér í lagi undanfarna áratugi. Við heyrum oft talað um sjöttu útrýminguna þar sem villt dýr og fleiri dýrategundir eru í meiri hættu en áður og sumar hafa jafnvel horfið alveg. Samkvæmt nýlegum rannsóknum er helsti sökudólgurinn ofneysla og offjölgun mannkyns. Starfsemi fyrirtækja er líka stór þáttur í þessari þróun sem á sér stað á heimsvísu. Hér á landi glímum við einnig við hnignun í vistkerfum okkar sem þarf að bregðast við.

Hvað er til ráða?

Við sem einstaklingar vitum vel hvað við getum gert og það er einfaldlega að breyta neyslumynstri okkar. Það getur hinsvegar oft verið vandkvæðum bundið og erfitt að breyta út af gömlum vana En lítil skref í átt að breyttu neyslumynstri eru nauðsynleg ef við ætlum að eiga hér lífvænlega plánetu fyrir afkomendur okkar.

Einfaldara er að breyta viðskiptaháttum fyrirtækja og þar koma staðlar til sögunnar sem hjálpartæki við að breyta miklum neikvæðum áhrifum í lágmarks áhrif eða jafnvel engin. Staðlar geta hjálpað til við að vernda líffræðilega fjölbreytni á ýmsa vegu. Þeir geta til dæmis skapað umgjörð fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta möguleg áhrif af starfsemi þeirra á umhverfið, meðal annars á tegundir og búsvæði. Þetta getur hjálpað til við að tryggja að þróun og aðrar athafnir mannsins séu framkvæmdar þannig að skaði af þeirra völdum á líffræðilegrar fjölbreytni sé í lágmarki. Að auki geta staðlar gefið upplýsingar um árangur verndar- og endurreisnarstarfs, sem getur hjálpað stofnunum og stjórnvöldum að forgangsraða og framkvæma ráðstafanir sem eru líklegastar til árangurs. Staðlar geta hjálpað til við að tryggja sjálfbær upptök við framleiðslu vara og þjónustu og stuðlað að því að draga úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem hafa neikvæð áhrif á vistkerfi sem eru í hættu. Á heildina litið geta staðlar gegnt lykilhlutverki við verndun líffræðilegrar fjölbreytni með því að leggja grunn að því að meta umhverfisáhrif og skilgreina bestu starfsvenjur við verndun og sjálfbæra þróun.

Fyrir fyrirtæki eru staðlar því leiðbeiningar eða viðmið sem hægt er að nota til að tryggja að tiltekin starfsemi eða vörur uppfylli tilteknar kröfur. Þegar um líffræðilega fjölbreytni er að ræða geta staðlar stuðlað að því að vernda hana með því að setja ramma um sjálfbæra þróun og stjórnun náttúruauðlinda. Þetta getur falið í sér staðla um sjálfbæran landbúnað, skógrækt og fiskveiðar, auk staðla um að vernda náttúruleg búsvæði og tegundir. Með því að fylgja þessum stöðlum geta einstaklingar og stofnanir stuðlað að því að koma í veg fyrir að líffræðilegur fjölbreytileiki glatist og að vistkerfi haldist heilbrigð og uppbyggileg.

Hvar byrja ég?

Fyrsta skrefið sem fyrirtæki geta tekið er að ráða sérfræðing í umhverfismálum til þess að stýra verkefni eins og umhverfisstjórnun. Bæði er hægt að ráða beint inn í skipulagsheildina starfsmann eða leita til fagaðila utan hennar. Umhverfismál eru í brennidepli og það verður enginn afsláttur gefinn á fyrirtæki þessa lands þegar kemur að umhverfismálum í framtíðinni. Annað skrefið er að skilgreina hver umhverfisáhrifin eru og þá er nauðsynlegt að velta við öllum steinum. Í þriðja lagi er að nálgast þá staðla sem geta hjálpað við umhverfisstjórnun viðkomandi skipulagsheildar. Má þá nefna staðla eins og ÍST EN ISO 14001 – umhverfisstjórnun sem er stjórnkerfisstaðall og svo fjölmarga aðra sérhæfðari staðla sem hjálpa fyrirtækjum við að ná góðum árangri í umhverfismálum.

Að viðhalda og vernda líffræðilegri fjölbreytni er stór þáttur í baráttunni við loftslagsvána. Einnig er það veigamesti þátturinn í aðlögun að þeim breytingum sem eru og munu eiga sér stað í okkar umhverfi. Staðlaðar og samræmdar aðgerðir tryggja árangur í þessum efnum.

Menu
Top