Vel heppnaður haustfundur Rafstaðlaráðs,sem haldinn var í húsakynnum Verkfræðingafélags Íslands með streymi út á vefinn, fjallaði um ýmsar áskoranir tengdar orkuskiptum. Emil Sigursveinsson formaður ráðsins og rafmagnsverkfræðingur hjá Verkís stýrði fundi en hann sóttu um 70 manns.
Jón Heiðar Ríkharðsson, vélaverkfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu fjallaði um mismunandi tegundir rafeldsneytis og ýmsar áskoranir sem blasa við á því sviði, alþjóðaviðskipti með rafeldsneyti, innviði sem þurfa að vera til staðar og hverju huga þarf að til framtíðar. Jón Heiðar lagði ríka áherslu á að staðlar og vottanir verði að fylgja eftir bæði tækniþróun og loftslagsmarkmiðum. Nú þegar sé talsvert í land með að búið sé að setja stöðluð viðmið og því mikilvægt að íslenskra hagsmuna sé gætt við þá vinnu.
Egill Tómasson, nýsköpunarstjóri Landsvirkjunar setti orkuskiptin í samhengi við íslenskar aðstæður, fór yfir flokkun notenda, virðiskeðjuna við orkuskiptin og hvað þarf til að orkuskipti okkar Íslendinga gangi eftir í takti við stefnu stjórnvalda.
Anna Margrét Kornelíusdóttir, verkefnastjóri hjá Grænu orkunni fjallaði að lokum um sögu rafeldsneytis á Íslandi og stöðu orkuskiptaverkefna. Anna Margrét sagði orðið verulega brýnt að stjórnvöld setji sér skýra stefnu á sviðinu og fylgi henni eftir með fjármagni til framkvæmda. Hún greindi viðskiptatækifærin sem blasa við hérlendis þar sem gnægð er af grænni orku, víða nægt vatn til kælingar og/eða rafgreiningar, fáar flutningaleiðir með stuttum vegalengdum og góðar hafnir til útflutnings.
Umræður sköpuðust meðal fundarmanna í lokin um vinnslu rafeldsneytis, stöðu metans sem orkugjafa hér á landi og mikilvægi stöðlunar á þessum vettvangi þar sem greið leið er, í gegnum Staðlaráð Íslands, að ákvarðanatöku um viðmið, kröfur og tæknilegar útfærslur í stöðlum í gegnum evrópskar og alþjóðlegar tækninefndir staðlasamtaka.