14. október er alþjóðlegur staðladagur - og bleiki dagurinn

Breyting á innskráningu

Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.

14. október er ár hvert helgaður stöðlum. Staðlar eru verkfæri sem notuð eru til að leysa áskoranir á ýmsum sviðum. Þeir verða þannig til að sérfræðingar á tilteknu sviði safna saman allri sinni bestu þekkingu og sammælast um viðmið, kröfur og tæknilegar útfærslur til að takast á við áskoranir. Notendur þeirra eru því að nota sérfræðiþekkingu sem þeir líklega hefðu ekki aðgang að annars. 

Um þessar mundir takast sérfræðingar á við verulegar áskoranir á sviði loftslagsmála og stafrænnar þróunar og setja viðmið t.d. um notkun gervigreindar í neytendavörum, setja sér ramma utan um ábyrga kolefnisjöfnun og tryggja að ólík kerfi, t.d. í afþreyingu séu örugg og geti "talað saman". Á sama tíma er einnig verið að vinna að stöðlun sem tryggir öryggi alls kyns tækja og véla, segir til um mælingar og flokkun á líffræðilegum fjölbreytileika og áfram er haldið á þeirri braut að samræma alls kyns neytendavörur, t.d. hleðslusnúrur fyrir snjalltæki.

Þátttakendur í staðlastarfi styrkja tengslanet sitt með samstarfi við sérfræðinga á sama sviði og hafa raunveruleg áhrif á mótun staðlanna sjálfra. Þess vegna er mikilvægt að íslenskir sérfræðingar taki þátt í staðlastarfi, til að treysta farveg fyrir íslenska nýsköpun og gæta hagsmuna Íslands við mótun staðla. Þá er þátttaka í staðlastarfi öruggur vettvangur þekkingarmiðlunar og til að fá upplýsingar um nýjustu tækni og vísindi.

EES samningurinn gerir kröfu um að á Íslandi séu rekin staðlasamtök sem sjá til þess að þeir staðlar sem settir eru í Evrópu séu staðfestir sem íslenskir staðlar og séu aðgengilegir hér á landi. Raunar notar ESB staðla í miklum mæli til að segja til um tæknilegar útfærslur á öryggi og virkni til að tryggja umhverfis-, heilsu- og neytendavernd. Fyrr á þessu ári setti ESB sér nýja stefnu um að herða á áherslum þegar kemur að stöðlun og í henni er mikil áhersla lögð á þátttöku fræðasamfélagsins og neytenda í staðlastarfinu sjálfu auk þess sem verulega á að bæta í fræðslu um staðla. Í vikunni var svo samþykkt að EFTA ríkin sem eiga aðild að innri markaði ESB án þess að vera sjálf í sambandinu tækju virkari þátt í ákvarðanatöku á vegum evrópsku staðlasamtakanna CEN og CENELEC til að tryggja farveg fyrir þeirra viðskiptahagsmuni, eins og annarra.

Í dag er líka bleiki dagurinn. Helgaður baráttu gegn krabbameini. Án staðla væri sú barátta erfiðari, flóknari og líklega ekki eins árangursrík. Það er mikilvægt að við rannsóknir séu notaðar staðlaðar aðferðir, að meðferðir séu staðlaðar og það er óhætt að fullyrða að öll tæki og tól sem notuð eru í baráttunni við krabbamein séu stöðluð. Þannig styðja staðlar líka við forvarnir vegna krabbameins. Staðlar eru þannig verulegur hluti af okkar daglega lífi, yfirleitt án þess að við tökum eftir því. Og þó við tökum ekki eftir því að staðlar styðji við allt okkar daglega líf og verndi þannig líf okkar og heilsu, þá er mikilvægt að á Íslandi séu starfandi sterk staðlasamtök sem tryggja Íslendingum þann ávinning sem af stöðlun hlýst. 

Gleðilegan staðladag.

Menu
Top