Tækniforskrift um kolefnisjöfnun gefin út

Út er komin ný tækniforskrift ÍST TS 92 – Kolefnisjöfnun, sem er nú fáanleg í vefverslun Staðlaráðs Íslands. Tækniforskriftin hefur verið í vinnslu undanfarið ár en rætur hennar má rekja til vinnustofusamþykktar ÍST WA 91 – Ábyrg kolefnisjöfnun sem gefin var út á vormánuðum 2021. Í vinnustofusamþykktinni var kallað eftir því, af helstu hagsmunaaðilum á íslenskum markaði, að komið væri á kerfi í kringum kolefnisjöfnun þar sem ekki þótti með öllu sannað að yfirlýsingar um kolefnisjöfnun fyrirtækja á markaði væru staðfestar og raunverulegar. Nú er þeirri vinnu lokið með útgáfu tækniforskriftar um kolefnisjöfnun sem mun gefa fyrirtækjum kleift að hefja þá vegferð að kolefnisjafna sinn rekstur og fá óháða vottun á það ferli. Að sama skapi gerir tækniforskriftin hinum ýmsu loftslagsverkefnum, eða framleiðendum á kolefniseiningum til kolefnisjöfnunar, einnig kleift að fá vottun frá óháðum aðila á sína framleiðslu.

Að mótun tækniforskriftarinnar standa allir helstu hagsmunaaðilar hér á landi og hlaupa þeir á tugum. Fulltrúar þeirra hafa víðtæka þekkingu og reynslu af umhverfis- og loftslagsmálum. Þannig hafa fulltrúar stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja og loftslagsverkefna unnið sleitulaust að gerð hennar undir styrkri stjórn formanns tækninefndar, Guðmundar Sigbergssonar og ritara nefndarinnar og verkefnastjóra hjá Staðlaráði, Hauki Loga Jóhannssyni.
Fram til þessa hefur ekki verið unnt að styðjast við viðmið um kolefnisjöfnun og þó hún hafi verið skilgreind í lögum um loftslagsmál hefur vantað tæknilega útfærslu hennar. Það vandamál er nú úr sögunni með útgáfu ÍST TS 92 – Kolefnisjöfnun því þar má fylgja viðmiðum, kröfum og leiðbeiningum til þess að hægt sé að sannreyna kolefnisjöfnun.

Kolefnisjöfnun er mun flóknara verk heldur en margur heldur. Boð um að kolefnisjafna flugferðir sínar eða eldsneytiskaup hafa fram til þessa ekki verið staðfestar af óháðum vottunaraðila. Ekki hefur verið hægt að staðfesta hvort um eiginlega kolefnisjöfnun að ræða eða hvort mótvægisaðgerðir einstaklinga vegna eigin losunar eru stuðningur við loftslagsverkefni eins og skógrækt eða endurheimt votlendis.

Tökum dæmi. Fyrirtæki A vill kolefnisjafna sinn rekstur. Loftslagsverkefni B stundar skógrækt. Fyrirtæki A vill skipta við fyrirtæki B til að kolefnisjafna sig. Til þess að fyrirtæki A stundi trúverðuga kolefnisjöfnun þarf það að uppfylla og fylgja ákveðnum kröfum og viðmiðum.

Það sem fyrirtæki A þarf að gera er;

a. að koma á fót trúverðugri loftslagsstefnu,
b. reikna út sína losun,
c. setja sér markmið um samdrátt í losun og
d. ráðst í aðgerðir til að ná þeim markmiðum innan ákveðins tímaramma (aðgerðaráætlun).
e. Þegar áætlun liggur fyrir er hægt að styðja við aðgerðir í loftslagsmálum með kaupum á vottuðum kolefniseiningum af loftslagsverkefni B til þess að bæta fyrir þá losun sem ekki er hægt að koma í veg fyrir.
f. Til að klára ferlið, þá þarf að lokum að skýra frá aðgerðum fyrirtækisins með gagnsærri og trúverðugri skýrslugjöf.
g. Fá óháðan aðila, s.s. endurskoðanda til að staðfesta að mælingar hafi verið rétt framkvæmdar og kröfur og viðmið uppfyllt með fullnægjandi hætti.

Þetta er ferli fyrirtækis A í sinni einföldustu mynd til kolefnisjöfnunar.

Til þess að þessi vegferð fyrirtækis A heppnist þarf loftslagsverkefni B einnig að vera með allt sitt í góðum farvegi.

Eftirfarandi atriði þurfa að vera til staðar:

a. skjalfest lýsing á loftslagsverkefninu og hvernig það stuðlar að því að draga úr losun eða bindingu
b. upplýsingar um hvernig á að haga mælingum á þeirri bindingu sem á sér stað
c. sækja þarf vottun á allt ferlið frá til þess bærum og faggiltum vottunaraðila
d. skrá þarf vottaðar kolefniseiningar (virkar eða í bið) í miðlægan skráningargrunn til að koma í veg fyrir tvítalningu þar sem hver kolefniseining fær einstakt raðnúmer.

Þegar báðir þessir aðilar hafa lokið ofangreindum skrefum er hægt að selja kolefniseiningar til fyrirtækis A í þeim tilgangi að kolefnisjafna rekstur þess. Ítrekað er að þetta er mjög einföld mynd af viðmiðum sem þarf að uppfylla til þess að hægt sé að treysta því með óyggjandi hætti að það sem selt er sé raunverulega til. Þessu fylgir auðvitað skýrslugjöf og talsverð vinna sem er ekki síður nauðsynleg til að tryggja raunverulegan árangur.

Það er ljóst að þessari tækniforskrift mun fylgja aukinn trúverðugleiki og gagnsæi sem breytir landslagi loftslagsmála. Áhrif hennar verða minnkandi kolefnislosun frá íslensku atvinnulífi og aukin binding sem mun styðja við loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda og Parísarsamningsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráðu. Þá mun tækniforskriftin leggja grunn að nýrri atvinnugrein á Íslandi í formi fjölbreyttra kolefnisverkefna, jafnvel til útflutnings.

Það er ástæða til að þakka öllum þeim tugum sérfræðinga sem komu að gerð þessarra mikilvægu viðmiða, sem geta orðið til þess að auka veg og virðingu Íslands og íslenskra loftslagsverkefna á alþjóðlegum mörkuðum enda byggir aðferðafræðin á alþjóðlegum þekktum viðmiðum sem eru til þess fallin að opna aðgengi að mörkuðum, treysta trú fólks á afurðir og auka þannig trúverðugleika.


Menu
Top