Baráttan okkar fyrir lifandi jörð

Fyrir tveimur árum kölluðu Alþjóðlegu staðlasamtökin (ISO) saman hóp alþjóðlegra sérfræðinga til að þróa staðla um líffræðilega fjölbreytni. Samkvæmt Caroline Lhuillery frá frönsku staðlastofnuninni AFNOR og stjórnanda hópsins, "er viljinn að snúa taflinu við til að skapa heilbrigðara samband milli hagkerfa okkar og vistkerfa, samband sem hvetur til varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og skapar um leið tækifæri til sjálfbærrar þróunar.“

Þótt staðbundnum stöðlum og stöðlum sem njóta einkaleyfisverndar hafi fjölgað, hafa þessir og vísindaleg þekking, sem og hnattrænar þarfir, nú þróast á þann veg að alþjóðleg samræming væri mjög til bóta.

Eitt af mörgum markmiðum staðlanna sem ISO er að þróa, er að styðja við samninginn um líffræðilega fjölbreytni (CBD) sem er þróaður af Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og ætlað að leggja grunn að verndun fjölbreytileika lífs á jörðinni. Því miður er í flestum fréttum um líffræðilegan fjölbreytileika talað um hnignun. Samt sem áður gegna staðlar nú þegar hlutverki við að vernda og auka líffræðilega fjölbreytni og hlutverk ISO á þessu sviði mun stækka hratt.

Náttúran í hættulegri hnignun

Líffræðilegur fjölbreytileiki tekur til alls lífs. Án þess er enginn matur, hreint loft, náttúruauðlindir á borð við timbur, flóðavarnir sem byggjast á náttúrunni og lífvænlegt loftslag. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hefur þrjú meginmarkmið til að stuðla að því að þetta náist. Þetta eru verndun líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting hennar og sanngjörn, réttlát skipting ávinnings af erfðaauðlindum.

 

Tölfræðilegar upplýsingar sýna að þörfin fyrir kerfisbundið greiningarkerfi er meiri nú en nokkru sinni fyrr. Living Planet Report 2020 – Bending the Curve of Biodiversity Loss skýrslan sýnir kortlagningu í hnignun líffræðilegrar fjölbreytni á heimsvísu sem nemur meira en tveimur þriðju hlutum á innan við hálfri öld.. Bretland hefur til dæmis tapað um helmingi af líffræðilegri fjölbreytni sinni frá iðnbyltingunni og hafa vísindamenn varað við því að hætta sé á vistfræðilegri keðjuverkun, eða bráðnun tegunda.

Í skýrslunni, sem unnin er af World Wildlife Fund og Institute of Zoology í London, er notað gagnasafn sem kallast Living Planet Index (LPI) sem samanstendur af þúsundum tegunda og tugþúsundum stofna.Vísitalan gerir notendum kleift að fylgjast með þróun og mynstri á þann hátt að líffræðileg fjölbreytni breytist með tímanum.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hefur samþykkt megin frammistöðuvísinn þar sem hann er notaður sem mælikvarði á hnattræna þróun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir búsvæði á landi og í vatni. Styrkur þess er að það er alhliða mælitæki til að fylgjast með framvindu mála. Í raun hefur það gegnt veigamiklu hlutverki á árunum 2011-2020 við að setja markmið til að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og mun innbyggða greiningarkerfið beita vísitölunni í ramma þar sem sett verða markmið til að snúa þessari hnignun við á næsta áratug

Hvað erum við að mæla?

Þó að hnattrænt samkomulag sé um að líffræðilegri fjölbreytni fari hnignandi er þess ekki langt að bíða að mismunandi sögur verði til um hvað og hve miklu við töpum, spörum eða öðlumst. Ástæðan fyrir því er allur sá mikli fjöldi og tegundir mælinga og aðferða sem til eru, við mat á líffræðilegri fjölbreytni.

Til dæmis kannaði hópur vísindamanna frá Spáni ýmsar mælistikur fyrir mat á ferskvatni og fann margvíslegar mælistikur fyrir líffræðilega fjölbreytni til að meta vistfræðilegan heilleika vatnavistkerfa. Hópurinn komst þó að því að „frammistaða er mjög breytileg eftir mismunandi tegundum mælinga og veitir mismunandi upplýsingar varðandi vistkerfisaðstæður og gerir þannig erfitt um vik að velja viðeigandi mælingar fyrir lífvöktun“.

Til viðbótar við LPI eru fjölmargir aðrir stuðlar til við mat líffræðilegrar fjölbreytni. Alþjóðastofnunin um sjálfbæra þróun lýsir til dæmis fimmtán slíkum í skýrslu frá 2017 um mælingar á líffræðilegri fjölbreytni og fleiri hafa komið fram á síðustu fimm árum. Samt hafa innlendir og svæðisbundnir staðlar sýnt að stöðlunarferlið getur haft í för með sér mikinn ávinning við að fylgjast með líffræðilegri fjölbreytni og hvernig við stýrum henni.

Árangur með stöðlum

Í byrjun þessa árs greindi hópur vísindamanna í Frakklandi frá góðum árangri þar sem landsstaðlar frá AFNOR voru í brennidepli. Rannsóknarhópurinn lýsti því hvernig skilvirk stjórnun vatnsauðlinda og minnkun mengunar hefðu gert vatnaplöntum og -dýrum kleift að ná sér á strik á ný. Vísindamennirnir notuðu þrjá landsstaðla við hið mikilvæga eftirlit og mælingar meðan á rannsókninni stóð, til að afla samhæfðra gagna sem voru nothæf.

Annars staðar í Frakklandi notaði annar hópur vísindamanna svæðisbundinn Evrópustaðal sem lýsir samhæfðri, gæðatryggðri aðferðafræði við lífvöktun til að kanna mengunarþol fléttna. Sá staðall er notaður til að meta líffræðilega fjölbreytni fléttna víða annars staðar í heiminum.

AFNOR hefur einnig gefið út landsstaðal um hvernig fyrirtæki þar í landi nálgast líffræðilega fjölbreytni. Án slíkra staðlaðra tækja til að meta líffræðilega fjölbreytni er ekki til samhæft eftirlit og stjórnun. Næsta skref er alþjóðleg samræming þar sem vísindaleg þekking, vísar og aðferðir munu þróast og þroskast.

Frá svæðisbundnu til alþjóðlegra viðmiða

Sérfræðingahópur ISO um líffræðilega fjölbreytni er að þróa viðmiðunarreglur um tiltekin málefni líffræðilegrar fjölbreytni, s.s. vistfræðilega verkfræði, náttúrutengdar lausnir og viðeigandi tækni. „Samræming starfsvenja mun einnig koma að miklu gagni við að veita áreiðanlegar og sambærilegar upplýsingar milli landa og verkefna,“ útskýrir Lhuillery.

Hvers vegna núna? „Til að bregðast við þurfa fyrirtæki að hafa sameiginlegan skilning á því hvað líffræðileg fjölbreytni er, krefjandi ramma til að grípa til aðgerða, aðferðir, tæki til að meta áhrif, framfarir og raunhæf dæmi, “ bætir Lhuillery við. Til að tryggja að einkageirinn noti þær samhæfðu lausnir sem staðlar bjóða upp á verður gerð þeirra að taka mið af ýmsum þáttum. Samræma þarf nýjustu tæki og vísindalegar niðurstöður og taka tillit til sjónarmiða um líffræðilega fjölbreytni í hagkerfinu. Slíkar lausnir þurfa jafnframt að taka til þess hvernig stjórnvöld geta uppfyllt markmið sín um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Það getur því orðið áskorun að finna rétta jafnvægið.

Í reynd munu alþjóðlegir staðlar um líffræðilega fjölbreytni styðja beint við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og viðmiðunarreglur. Áform Sameinuðu þjóðanna um endurreisn vistkerfa miða að því að koma í veg fyrir, stöðva og snúa við hnignun vistkerfa í öllum heimsálfum og í öllum höfum. Þegar aðeins níu ár eru eftir af því tímabili sem menn gáfu sér í upphafi hefur aldrei verið brýnni þörf á að endurlífga skemmd vistkerfi en nú. Tími fyrir hnattrænt samstarf til að hraða varðveislu jarðarinnar og gera hana að plánetu sem við getum lifað á um ókomin ár er í dag en hann rennur hratt út.

Þessi pistill er þýddur af vef ISO

Menu
Top