Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Aðalfundur Staðlaráðs verður haldinn fimmtudaginn 19. maí kl. 14:30-16:30.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa eru á dagskrá tvö virkilega spennandi erindi:
Sverrir Norland, margverðlaunaður rithöfundur og þýðandi flytur erindi um karlmennsku í samtímanum, staðalímyndir og veltir upp þeim möguleika hvort unnt er að staðla karlmennsku.
Guðmundur Sigbergsson kynnir fyrirhugaða útgáfu tækniforskriftar um kolefnisjöfnun, verkfæri sem við trúum að eigi eftir að valda straumhvörfum í baráttu við loftslagsvána og útrýma grænþvotti á sviði umhverfismála.
Fundurinn verður haldinn hjá Verkís, Ofanleiti 2.
Aðilar Staðlaráðs hafa þegar fengið fundarboð og búist er við góðri mætingu.