Staðlar tryggja samkeppnishæfni í Evrópu

Evrópusambandið hefur um langt árabil nýtt staðla til að tryggja einsleitni á innri markaði í Evrópu, auðvelda viðskipti, auka heilsu- og neytendavernd og stuðla að samhæfingu reglna um vörur og þjónustu. Ný áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem kynnt var fyrir örfáum dögum, sýnir endurnýjaðar skuldbindingar um þátttöku við gerð tæknistaðla sem styðja við nýja tækni og styðja við stefnu sambandsins um grænan, stafrænan innri markað í Evrópu. Markmiðið er að treysta sjálfstæði og samkeppnishæfni í Evrópu og til að tryggja að evrópskir hagsmunir og gildi endurspeglist í alþjóðlegum stöðlum.

Tæknilegir staðlar eru stefnumótandi og mikilvægir til að styrkja sjálfstæði ESB. Notkun þeirra tryggir m.a. öryggi og orkunýtingu og stuðlar að nýsköpun auk þess sem þeir gera fyrirtækjum kleift að draga úr kostnaði við það að hlíta lögum. Þeir tryggja að auki samhæfni vöru og þjónustu, að hlutir passi saman og að tryggja frjálst flæði vöru og þjónustu á þeim markaði. Með því eru m.a. viðskiptahindranir rifnar niður. Krafa um samhæfni er gríðarstórt neytendamál enda mikið hagræði fólgið í því að hlutir passi saman, að mismunandi kerfi geti tengst saman og að viðmót, aðstaða og tæknilegar lausnir séu einfaldar og samræmdar og virkni þeirra sé góð.

Staðlar eru þannig kjarninn í efnahagslegri velgengni og samfélagslegum framförum í Evrópu. Norræn könnun sem gerð var fyrir örfáum árum sýnir einnig að staðlar stuðla að aukinni framleiðni, aukinni landsframleiðslu, þeir tryggja gæði, seiglu, áhættustjórnun og auka traust viðskiptavina.

Þessi stefna, sem nú lítur dagsins ljós, er sett af einurð og festu til að tryggja og treysta evrópska hagsmuni í samkeppni við risaþjóðir eins og Bandaríkin og Kína. Með henni hyggst ESB sjá fyrir, forgangsraða og ráðast í stöðlun á stefnumótandi sviðum til að styðja við stefnu sína. Er þar einkum horft til þeirra grænu og stafrænu breytinga sem ráðast þarf í, einsleits innri markaðar Evrópu, þ.m.t. stafræna markaðarins og markaðar með endurnýjanlegar auðlindir. Þá er einnig lögð áhersla á orkunýtingu, loftslagsmál og alþjóðleg viðskipti.

Staðlar varða leið að árangri á öllum þessum sviðum og styðja við samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja á heimsvísu. Þeir endurspegla ábyrgð, öryggi, heilsuvernd, stuðning við aðgerðir í loftslagsmálum og samfélagsábyrgð í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Verkefnaáætlunin sem fylgir ákvörðuninni ber með sér að án tafar verði ráðist í endurskoðun núgildandi staðla til að greina hugsanlega þörf fyrir breytingar til að mæta nýjum markmiðum. Við þá vinnu verður sérstaklega horft til staðla um framleiðslu bóluefnis og annarrar lyfjaframleiðslu, staðla sem varða hráefnisvinnslu vegna framleiðslu á rafhlöðum, staðla sem minnka kolefnisspor við steypuframleiðslu, staðla sem stuðla að framþróun tækni á sviði vetnisnýtingar, -flutnings og -geymslu, staðla sem segja til um vottun örflaga sem notaðar eru við auðkenningu og við að tryggja öryggi og áreiðanleika.

Tilgangur hinnar endurnýjuðu stefnu og nýrrar verkefnaætlunar er að Evrópa gegni virkara hlutverki við stöðlun á alþjóðavettangi og evrópskri hagsmunir verði varðir af meiri krafti en áður. Þeim tilgangi verður náð með samstilltu lýðræðislegu átaki þar sem ríkin, staðlasamtökin, atvinnulífið, fræðimenn og borgararnir leggjast á eitt við forgangsröðun, ráðgjöf um framtíðarþarfir á sviði stöðlunar og samræmingu á skilvirkri vörslu evrópskra hagsmuna.

 

Staðlaráð Íslands mun ekki sitja á strák sínum þegar kemur að þátttöku á þessum vettvangi og hvetur íslenska hagaðila til að fylgjast með þróun mála í tækninefndum CEN og CENELEC og tryggja þar með farveg fyrir íslenska hagsmuni inn í þetta starf.

Menu
Top