Alþjóðlegi staðladagurinn í dag 14. október 2021

Alþjóðleg, evrópsk og landsbundin staðlasamtök hafa um áratuga skeið unnið að því að leiða saman helstu sérfræðinga í tugþúsundavís á öllum sviðum til að vinna að stöðlunarverkefnum sem leitt hafa til lausna á risastórum áskorunum og létt okkur lífið á ýmsa lund. Afraksturinn er að finna í tugum þúsunda staðla, mögnuðum verkfærum sem gagnast til að samræma og samhæfa lausnir til hagsbóta, öryggis, heilsuverndar og árangurs fyrir okkur öll. Þá er m.a. hægt að nota til að varða leiðina að 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með öllum sínum 169 undirmarkmiðum.

ISO hefur kortlagt tæplega 29.000 ISO staðla sem stuðla beint að sjálfbærni. Yfirlit yfir þá má finna hér 

IEC, Alþjóða raftækniráðið hefur einnig tekið saman upplýsingar um það hvernig IEC staðlar stuðla beint að sjálfbærni. Hér má finna góða samantekt um það.


Staðlaráð Íslands, sem á aðild að báðum ofangreindum samtökum hefur einnig lagt sitt af mörkum til þess að auðvelda fólki og fyrirtækjum að innleiða heimsmarkmiðin m.a. með því að þýða ISO 26000 – Leiðbeiningar um samfélagslega ábyrgð. Í staðlinum má finna hugtök, orð og skýringar sem tengjast samfélagsábyrgð, skilgreiningar á bakgrunni, leitni og einkennum samfélagsábyrgðar, meginreglur og starfshætti sem varða samfélagslega ábyrgð, samþættingu, innleiðingu og stuðning við hana, skilgreiningu og virkjun hagsmunaaðila og leiðbeiningar um upplýsingagjöf um skuldbindingar, frammistöðu o.fl. Staðallinn er skrifaður af tæplega 100 sérfræðingum alls staðar að úr heiminum og geymir því bestu venjur á sviðinu. Staðallinn er ekki ætlaður til vottunar en hefur að geyma verðmætar leiðbeiningar um samfélagsábyrgð. Í tilefni dagsins er veittur 40% afsláttur af staðlinum og gildir það tilboð í fjóra daga, til og með mánudeginum 18. október. Afslátturinn fæst með því að slá afsláttarkóðann sjalfbaerni2021 inn í vefversluninni.

Þessi staðall er frábær viðbót við verkfærakistu stjórnvalda um innleiðingu heimsmarkmiðanna 

Þeir sem vilja verja klukkustund af lífi sínu til að fræðast um það hvernig staðlar varða leið að árangri, býður ISO upp á stutta yfirferð og gagnvirkan Zoom fund í dag kl. 12. Skráning hér.

Gleðilegan staðladag.
Menu
Top