ÍST WA 302 - Leiðbeiningar um öryggi hlutanets gefin út

ÍST WA 302 - Leiðbeiningar um öryggi hlutanets hefur verið gefin út. Hlutanet (IoT, Internet of Things) er stór hluti af fjórðu iðnbyltingunni. Hlutanet færir heimilum og fyrirtækjum nýja og spennandi þjónustu, möguleika á að búa til nýja þjónustu og ná fram meiri hagkvæmni á núverandi þjónustu.

Hinn almenni notandi ætti að geta nýtt þessa möguleika á öruggan hátt og með vissu um fullnægjandi öryggi og að persónuverndarráðstafanir séu fyrir hendi til að verja notkun þeirra á hlutanetinu (snjalltæki á Netinu). Því miður er það oft ekki raunin.

Fjölmörg dæmi hafa komið upp sem snúa að því hversu auðvelt var að brjótast inn í t.d. barnasnjallúr, öryggismyndavélar á heimilum og ýmsan nettengdan snjallbúnað á heimilum. Þrjár megin ástæður eru taldar líklegastar fyrir þessum öryggisveilum:

• Sjálfgefin notendanöfn og lykilorð, sem ekki er breytt þegar búnaðurinn er settur upp.
• Ekki hægt að tilkynna um veilur í öryggi og tryggja viðeigandi viðbrögð framleiðenda.
• Hugbúnaður í tækjum ekki uppfærður sjálfkrafa eða alls ekki uppfærður af framleiðenda.

Staðlaráð Ísland hefur unnið í því undanfarin misseri að skoða öryggismál hlutaneta til að meta ástandið. Vinnuhópur, TN-IoT (tækninefnd FUT um hlutanet), hefur leitað víða fanga, en hefur mest byggt á gögnum frá breskum yfirvöldum. (Code of Practice for consumer IoT security. Department for Digital, Culture, Media & Sport) Úr þeim gögnum hafa verið settar saman leiðbeiningarnar, sem fram koma í meðfylgjandi vinnustofusamþykkt, ÍST WA 302:2021 Leiðbeiningar um öruggari notkun tækja á hlutanetinu (IoT).

Þessar leiðbeiningar eru hugsaðar fyrir framleiðendur á snjalltækjum, þjónustuaðila á hlutanets þjónustu, framleiðendur á farsíma öppum sem styðja snjalltæki og seljendur á snjalltækjabúnaði.

Tækninefnd um hlutanet vill koma þessum upplýsingum á framfæri sem víðast og stuðla með því að betra öryggi fyrir snjalltæki sem nota hlutanet.

Leiðbeiningarnar WA 302 eru aðgengilegar án kostnaðar í Staðlabúð Staðlaráðs Íslands.
Menu
Top