Kæru viðskiptavinir, Vegna breytinga hjá Ísland.is þarf Staðlaráð Íslands að skipta yfir í nýtt innskráningarkerfi í vefverslun sinni. Innskráningin sjálf breytist ekki að ráði og byggir áfram á notkun rafrænna skilríkja notenda en þau fyrirtæki sem hafa gefið starfsmönnum umboð vegna reikningsviðskipta eða áskriftarsamninga þurfa að endurnýja þau umboð í nýju kerfi. Eldra kerfi verður tekið úr sambandi 1. september og því mikilvægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar strax til að tryggja hnökralausa aðlögun og koma í veg fyrir töf á viðskiptum. Leiðbeiningar um aðgerðir má finna hér.
Markmiðum Parísarsamningsins um loftslagsmál verður ekki náð hér frekar en annars staðar án þess að allir kraftar samfélagsins séu virkjaðir.
Leiðin að markmiðunum er mælanleg. Þar eru alþjóðlega vottaðar einingar, kolefniseiningar, lagðar til grundvallar. Kolefniseining er fjárhagsleg eining sem sannar að losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið hafi sparast miðað við óbreytt ástand. Með skráðum kaupum á vottaðri einingu getur kaupandinn sýnt að hann hafi kolefnisjafnað eitt tonn af eigin losun gróðurhúsalofts.
Vissulega ber að virða sjónarmið þeirra sem hafna því að framlag mannsins skipti nokkru varðandi hlýnun jarðar, þar séu öflugir náttúrukraftar að verki sem okkur beri að lúta hvort sem okkur líki betur eða verr. Við vitum ekki meira um það sem gerist í lofthjúpnum en iðrum jarðar.
Hvað sem öðru líður er okkur skylt að standa við alþjóðasamninga gegn hlýnun jarðar.
Í umræðuskjalinu Ræktum Ísland! um landbúnaðarstefnu á 21. öldinni eru færð rök fyrir miðlægu hlutverki landbúnaðar ætli Íslendingar að ná settu markmiði í loftslagsmálum. Þar eru nefnd fimm skref sem stíga þarf í loftslagsmálum innan ramma landbúnaðarstefnu til að koma á kerfi um ábyrga kolefnisjöfnun:
Í fyrsta lagi verði að skilgreina hlutverk og ábyrgð aðila. Tilgangur og tækifæri sem felast í kolefnisbindingu eða jöfnun séu skýr í hugum bænda og annarra hagaðila. Reglur um þetta séu settar af stjórnvöldum.
Í öðru lagi noti ríkið kolefnisgjöld til að kolefnisjafna og skýra umfang þess sem á að binda.
Í þriðja lagi lúti kolefniseiningar til bindingar vottun sem njóti alþjóðlegrar viðurkenningar. Heimasmíðuð vottun dugi ekki. Skráð sé losun með vísan til vottaðra eininga. Einingar séu afskráðar við sölu til jöfnunar.
Í fjórða lagi njóti opinber markaður fyrir alþjóðlega vottaðar kolefniseiningar lögverndar. Íslenskir aðilar sem nú kaupi vottaðar einingar erlendis séu hvattir til viðskipta við innlenda seljendur alþjóðlega vottaðra eininga.
Í fimmta lagi geti kaupendur borið saman mismunandi tegundir eininga ýmist til jöfnunar eða bindingar miðað við skyldur þeirra. Yfirlýsingar fyrirtækja um kolefnisjöfnun og bindingu eða samdrátt séu reistar á samræmdum mælingum og leikreglum.
Í skjalinu segir að með öflugu hvatakerfi til kolefnisbindingar verði íslenskir bændur án vafa virkir þátttakendur á mikilvægum nýjum markaði sem hefði ekki aðeins áhrif til kolefnisjöfnunar heldur stuðlaði að bættri landnýtingu og auknum lífrænum áherslum í anda hringrásarhagkerfisins.
Í skýrslu sem Umhverfisráðgjöf Íslands ehf. (Environice) vann fyrir loftslagsráð um innviði kolefnisjöfnunar á Íslandi og birt var í janúar 2020 er meðal annars rætt um þann vanda sem leiðir af skorti á alþjóðlegri vottun á þessu sviði hér. Í lokaorðum skýrslunnar segir að Alþjóðasamtök seljenda kolefnisvottorða (International Carbon Reduction and Offset Alliance (ICROA)) hafi byggt upp alþjóðlegt kerfi sem sé líklega áreiðanlegasti grunnurinn undir ábyrg viðskipti með kolefniseiningar. Vottun samkvæmt einhverjum þeirra staðla sem ICROA viðurkenni ætti að vera besta fáanlega tryggingin fyrir trúverðugleika kolefniseininga og verkefnanna sem þær endurspegla. Því ættu aðilar sem vilji stunda ábyrg viðskipti með kolefniseiningar að nýta sér þessa staðla. Þetta eigi jafnt við um seljendur sem kaupendur eininga. Seljendur kolefniseininga sem vilja tryggja trúverðugleika eininganna með eigin yfirlýsingum eða uppáskrift heimatilbúinna vottunarkerfa eiga ekkert erindi á kolefnismarkaðinn.
Alþjóðleg vottun kolefniseininganna er þannig grunnforsenda viðskipta með þær en líkur á að þau aukist og einingarnar hækki í verði eru miklar. Nú selst eining innan viðskiptakerfis ESB, ETS-kerfisins, á 59 dollara tonnið en OECD í París spáir að undir 2030 þurfi verðið að hækka í 147 dollara (18.300 kr.) tonnið eigi að ná markmiðum Parísarsamningsins um kolefnishlutleysi á jörðinni árið 2050.
Fyrr í þessari viku komu fulltrúar 43 stærstu fjárfesta heims, lífeyrissjóða og tryggingafélaga, í samtökunum The Net Zero Asset Owner Alliance, sem fara með um sex þúsund milljarða dollara, sér saman um nauðsyn þess að til yrði samræmt heimsmarkaðsverð á kolefniseiningu, lágmark og hámark, til að skapa fjárfestum nauðsynlegt öryggi í stað þess frumskógar sem nú einkennir þennan vaxandi markað. Í skýrslu Alþjóðabankans frá í maí segir að nú séu notuð 64 verðskráningarkerfi á kolefniseiningar sem nái þó aðeins til um 21% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
Þróist alþjóðaviðskipti með kolefniseiningar á þann veg sem að framan er lýst ber að standa þannig að málum að innlendir aðilar geti orðið þar virkir þátttakendur. Hér á landi er nú mun meiri hvatning til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en til að binda kolefni. Það má meðal annars rekja til þess að kolefniseiningar sem boðnar eru til sölu hér njóta í engu tilviki alþjóðlegrar vottunar.
Landgræðslan sagði frá því í vikunni að Sameinuðu þjóðirnar ætluðu fram til ársins 2030 að fylgjast með endurheimt votlendis á tveimur jörðum á sunnanverðu Snæfellsnesi, í því fælist mikilvæg viðurkenning. Ávinningurinn væri til dæmis að „sporna gegn þeirri miklu kolefnislosun sem á sér stað úr framræstu landi“. Þetta er vissulega mikils virði. Á hinn bóginn er ekki unnt að mæla árangurinn nema stuðst sé við alþjóðlega vottaðar einingar.
Loftslagsráð og Staðlaráð Íslands hafa komið á fót vinnustofu til að fjalla um ábyrga kolefnisjöfnun og segir í fundargerð hennar á vefsíðu loftslagsráðs frá 3. maí 2021 að kaupendur kolefniseininga geti keypt vottaðar einingar erlendis frá en sölumarkaður fyrir þær sé ekki til hér á landi þar sem vottun fáist enn sem komið er ekki á íslenskar einingar. Í því felist að fjármunir sem nýttir séu til kaupa á kolefniseiningum til jöfnunar sbr. 5. gr. c. laga um loftslagsmál, renni úr landi. Þá segir: „Markmið Íslands um 55% samdrátt losunar fyrir árið 2030 og kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 eru því studd með verkefnum sem unnin eru erlendis og viðskiptatækifæri á þessum vettvangi eru ekki nýtt.“
Full ástæða er til að staldra við það sem hér segir og spyrja hvað sé í boði hjá innlendum aðilum sem kynna jarðræktarverkefni til kolefnisjöfnunar. Þá kröfu verður að gera að einingar sem þar er um að ræða hafi meira gildi en felst í fullyrðingum þeirra sem að verkefnum standa. Slík vottun er í raun einskis virði í stóra samhenginu.
Könnun sem gerð var í apríl 2021 fyrir framkvæmdastjórn ESB á mati Evrópubúa á brýnustu viðfangsefnum samtímans sýnir að 93% töldu loftslagsbreytingarnar alvarlegt vandamál, 78% sögðu vandann mjög alvarlegan.
Þetta viðhorf hefur áhrif í kosningum, kallar á markvissar aðgerðir stjórnmálamanna gegn vandanum. Hér hefur verið vikið að mikilvægu tæki til að takast á við hann. Tafarlaust ber að smíða það fyrir okkur Íslendinga og kynna alþjóðlega vottaðar, innlendar kolefniseiningar til sögunnar.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9. júlí
Höfundur: Björn Bjarnason
Birt með leyfi höfundar