Öryggi mannvirkja byggir á stöðlum

Jarðskjálftar og umbrot í jarðskorpunni hafa ekki farið framhjá mörgum hérlendis undanfarnar vikur, á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021. Á suðvestuhorninu hefur jörð skolfið sem aldrei fyrr svo elstu menn og konur muna ekki annað eins. Í fréttum hefur einnig verið rætt við sérfræðinga sem meta möguleika á því að yfirstandandi hrina færist í aukana og spáð er í það hvort veruleg hætta á mannskaða eða eignatjóni geti verið fyrir hendi. Þeirri umræðu tengjast upplýsingar um hönnun húsa hérlendis, þol þeirra og geta til að taka við álagi sem náttúruöflin færa okkur. 

Til allrar hamingju eru stífar kröfur gerðar til húsbygginga og annarra mannvirkja hér á landi til að tryggja öryggi okkar. Húsnæði skal reist eftir reglum sem ákveðnar eru og skrifaðar í staðla og eftirlit er haft með þeim framkvæmdum. Séríslenskar kröfur sem gerðar eru til þolhönnunar eru skrifaðar af færustu sérfræðingum hérlendis og pakkað inn í íslenska þjóðarviðauka við evrópska þolhönnunarstaðla til að tryggja að byggingar standist þá ógnarkrafta sem felast í jarðhræringum. Raunar eru staðlar markvisst notaðir til að segja til um kröfur og ýmis viðmið s.s. um útreikninga á varmatapi húsa, hljóðvist, flatarmál og rúmmál bygginga, loftræstingar, raf- og fjarskipalagnir, lýsingu, öryggisreglur um smíði og ísetningu á lyftum, neyðarlýsingu, slökkvikerfi, brunaviðvörunarkerfi, timburvirki, glergerðir fyrir ýmsar tegundir bygginga, sement og steinsteypu, stálvirki og svona mætti lengi telja. 

Við tókum saman lista yfir alla staðla sem vísað er til í byggingarreglugerð nr 112/2012 með áorðnum breytingum og töldum á þriðja hundrað. Sá listi er aðgengilegur hér.

Hinn mikli fjöldi staðla og ríkar kröfur til öryggis mannvirkja segir okkur líka að það skipti máli að eiga viðskipti við byggingaraðila sem standast kröfur, bæði lögbundnar kröfur og kröfur okkar sjálfra sem kaupenda að húsnæði og þjónustu. Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir krefjast þess að byggingarstjórar, iðnmeistarar og hönnuðir séu með skráð gæðastjórnunarkerfi sem tekið er út af faggiltri vottunarstofu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með slíkum kerfum. Í slíkri viðurkenningu felst staðfesting á hæfni og endurmenntun fagaðila, gerð verklagsreglna, framkvæmd á innra eftirliti og skjölun vinnugagna svo eitthvað sé nefnt. Til að viðhalda skráningu kerfisins þarf svo að sýna fram á virkni þess. Það er ekki nóg að skrifa verklagsreglur og áætlanir. Það þarf að nota þær til að tryggja gæði mannvirkja og öryggi fólks.

Menu
Top