Staðlar veita forskot

Sérhver staðall hefur að geyma viðmið á tilteknu sviði. Hann er samningur um framleiðslu á vöru eða framkvæmd þjónustu og hefur það hlutverk að tryggja gæði, öryggi og samkeppnishæfni. Samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur af notkun staðla er mikill því þannig tryggjum við hagkvæmustu nýtingu auðlinda og gæði framleiðslu á sama tíma. Áhrif staðla á framleiðni er einstök í því samhengi þar sem þeir eru nýttir til að deila viðmiðum um bestu venjur sem aftur tryggir skilvirkni og samvirkni.
 
Staðlar eru leið til að straumlínulaga, bæta verkferla, auka framleiðni, bæta afkomu, auka aðgengi að erlendum mörkuðum, tryggja öryggi og gæði, koma á samvirkni kerfa, bæta stjórnsýslu, auðvelda stjórnun, draga úr áhættu, draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og draga úr viðskiptahindrunum ýmis konar. Staðlar eru stjórntæki sem fleyta fyrirtækjum yfir mjög erfið skref við uppbyggingu og rekstur þar sem þeir innihalda bestu venjur og viðmið sem dregin hafa verið saman af sérfræðingum á hverju sviði og spara þannig stjórnendum að finna upp hjólið.
 
Staðlar eru ekki bara fyrir verkfræðistofur og orkuveitur. Þeir henta öllum stærðum og gerðum fyrirtækja við alls kyns verkefni og áskoranir.
 
Notkun staðla í atvinnulífinu og þátttaka fyrirtækja í staðlastarfi hefur ótvíræðan ávinning í för með sér. Þeir geta stuðlað að betri afkomu, aukið gæði, tryggt neytendavernd, aukið aðgengi að mörkuðum, hámarkað afköst ásamt því að hagkvæmari nýting auðlinda og umhverfisvernd er í forgrunni. Staðlar eru stundum eins og Soffía frænka, stundum eins og Lína Langsokkur, stundum hvatning frá foreldrum og stundum eru þeir annaðhvort umferðareglurnar eða vegirnir sem við keyrum á.
 
Mikil og hröð þróun í ýmsum atvinnugreinum krefst þess að íslensk fyrirtæki séu samkeppnishæf. Samkeppnishæfni þeirra ræðst að ýmsu leyti af notkun staðla og þekktra viðmiða sem tryggja gæði. Þannig er hægt að stuðla að samkeppnisforskoti íslenskra fyrirtækja.   
Menu
Top