Leiðbeiningar

Leiðbeiningar fyrir vefverslun

Á þessari síðu er hægt að fá leiðbeiningar um hvernig þú notar vefverslun til þess að leita eftir og versla þann staðal sem þú sækist eftir. 

Ertu að kaupa staðla f.h. fyrirtækis?

 
Starfsmenn sem eiga viðskipti fyrir hönd fyrirtækja eiga val um tvær leiðir:
 
    a. að skrá sig inn í eigin nafni með rafrænum skilríkjum. Keypt skjöl verða þá merkt viðkomandi starfsmanni. Starfsmaður getur óskað þess í athugasemdareiti að reikningur verði gefinn út á fyrirtækið.
 
    b. að fyrirtækið veitir viðkomandi starfsmanni umboð á www.island.is (sjá leiðbeiningar) en starfsmaður notar eigin rafræn skilríki til að skrá sig inn. Keypt skjöl verða þá merkt viðkomandi fyrirtæki og reikningur gefinn út á það. 

 

Svona notar þú leitarvélina

Leitarvél vefverslunarinnar leitar í Staðlaskránni sem Staðlaráð Íslands heldur. Í henni er að finna gilda staðla, niðurfellda staðla og frumvörp að stöðlum sem eru í umsagnarferli. Alls er um að ræða tæplega 100.000 skjöl.

Leitargluggarnir gefa möguleika á að leita eftir;

a. númeri staðals (t.d. 9001)

b. almennu leitarorði,

c. tækninefndum og

d. ICS númerum.

 

Þá er einnig gefinn möguleiki á að leita að

a. stöðlum sem hafa verið staðfestir og eru í gildi,

b. frumvörpum sem eru í umsagnarferli,

c. niðurfelldum stöðlum sem ýmist hafa verið felldir einhliða niður eða aðrir tekið við af þeim og svo

d. öllum stöðum þeirra skjala sem finna má í Staðlaskránni.

 

Nánar um ofangreinda flokka:

Númer staðals: ef þú þekkir númerið á staðlinum sem þú leitar að slærðu það einfaldlega inn, án forskeytis. Þú kannt að fá upp fleiri en eina niðurstöðu. Dæmi um það er leit eftir númerinu 9001. Fyrri staðallinn er íslensk þýðing á ISO 9001. Hann er bæði á íslensku og ensku í þessu skjali. Á forskeytunum sérðu að hann hefur verið gerður að evrópskum staðli (EN) og svo að íslenskum (ÍST). Seinni staðallinn sem kemur upp í þessari leit er upprunalegi ISO staðallinn. Texti hans og inntakið er nákvæmlega hið sama og enski hlutinn í íslenska staðlinum ÍST EN ISO 9001:2015. Verðmunurinn ræðst af uppruna skjalsins en Staðlaráð selur alla ISO og IEC staðla í umboðssölu. Alla jafna er ódýrara að kaupa ISO staðla sem gerðir hafa verið að íslenskum í gegnum evrópusamtökin (ÍST EN ISO) en að kaupa staðlana beint af ISO. 

Almennt leitarorð: Þessi hluti leitarvélarinnar leitar í forskeyti, númeri, heiti staðals og umfangi. Eftir því sem þú ert nákvæmari í þessari leit, þeim mun nær kemstu því sem þú leitar að. Almenn leitarorð gefa gjarnan mjög víðtækar og umfangsmiklar niðurstöður. Það er því gott að vera eins nákvæmur við innslátt leitarorða og unnt er til að þrengja niðurstöðurnar eins mikið og mögulegt er.

Tækninefnd: Tækninefndir hjá ISO, IEC, CEN og CENELEC hafa allar númer. Ef þú þekkir númer nefndarinnar sem vann staðalinn sem þú leitar að, færðu upplýsingar um alla staðla sem viðkomandi tækninefnd hefur unnið að og staðfest. Þessi virkni er heppileg þegar leitað er eftir skyldum stöðlum á tilteknu sviði. Athugaðu að þú þarft að slá inn forskeyti með númeri nefndarinnar. Dæmi: CEN/TC 19 (CEN eru evrópsku staðlasamtökin, TC stendur fyrir Technical Committee og 19 er númer nefndarinnar)

Forskeyti erlendu staðlasamtakanna eru þessi:

ISO/TC [nr]

IEC/TC [nr]

CEN/TC [nr]

CLC/TC [nr]

ICS númer vísar til staðlaðrar alþjóðlegrar efnisflokkunar staðla.

Flokkarnir hlaupa á hundruðum og staðlar geta tilheyrt fleiri en einum flokki.

 

Lærðu líka að þekkja forskeytin:

ÍST forskeytið merkir að staðallinn er íslenskur, hefur verið skrifaður af íslenskri tækninefnd og staðfestur sem íslenskur staðall.

ÍST EN forskeytin saman merkja að staðallinn hefur verið skrifaður hjá evrópskum staðlasamtökum en staðfestur hérlendis sem íslenskur staðall.

ÍST EN ISO/IEC forskeytin saman merkja að staðallinn hefur upprunalega verið skrifaður hjá ISO eða IEC, hann staðfestur sem evrópskur staðall og svo sem íslenskur staðall í kjölfarið

ÍST ISO/IEC forskeytin saman merkja að staðall sem upprunalega varð til hjá ISO eða IEC, hefur verið staðfestur hér á landi sem íslenskur staðall. Oft er um að ræða íslenskar þýðingar.

ÍST 35 og ÍST EN 35 er þannig ekki sami staðallinn. Hinn fyrri er séríslenskur, skrifaður á Íslandi af íslenskri tækninefnd fyrir íslenskan markað. Hinn seinni er hins vegar skrifaður af evrópskri tækninefnd í evrópskum staðlasamtökum en staðfestur sem íslenskur staðall hér á landi.

Nánari leiðbeiningar um hvernig stofna má viðskiptavini á island.is og að versla í búðinni má nálgast HÉR

Menu
Top