Ágreiningur Staðlaráðs við innviðaráðherra

Staðlaráð sendi frá sér hávært kall um yfirvofandi ógn við almenning í Kastljóssþætti RÚV í gærkvöldi.

Því kalli svaraði innviðaráðherra í dag með því að furða sig á því.

Fyrir áhugasama er stutt greining á málinu hér.

 

Ísland er í EES. Í því felst innleiðing á regluverki sem hefur oftast góðar afleiðingar fyrir allt venjulegt fólk. ESB leggur mikla áherslu á öryggi, neytendavernd og umhverfisvernd og kröfur á þeim sviðum gjarnan útfærðar í stöðlum sem stundum verða hluti löggjafarinnar.

Evrópskir þohönnunarstaðlar eru hluti af því regluverki sem þannig ratar inn í íslenska löggjöf. Í Byggingarreglugerð segir í gr. 8.2.1, Burðarvirki mannvirkja skulu reiknuð og hönnuð þannig að þau geti með öryggi staðist það álag, bæði stöðufræðilegt og hreyfifræðilegt, sem þau kunna að verða fyrir. Um hönnun og útreikninga á grundun og burðarvirkjum gilda íslenskir þolhönnunarstaðlar (Eurocodes) ásamt íslenskum þjóðarviðaukum. Ákvörðunin byggir á grunni EES samningsins og felur í sér mikið virði því búið er að leggja línurnar í málaflokknum. Eingöngu þarf að bæta við innlendum ákvæðum hér eins og í öllum öðrum Evrópuríkjum.

2010 hafði umhverfisráðuneytið sem þá fór með mannvirkjamál samband við Staðlaráð og óskaði þess að ráðið stofnaði tækninefnd og ynni íslenska þjóðarviðauka með umræddum þolhönnunarstöðlum sem voru 58 talsins. Bæði sett þurfa að verða til, til að regluverkið virki því íslensk ákvæði rata inn í formúlur og annað slíkt í grunnstöðlunum. Ráðuneytið greiddi þá fyrir verkefnastjórn innandyra hjá Staðlaráði en aðrir hagaðilar lögðu til sérfræðiþekkingu og vinnu til að íslensku ákvæðin yrðu til. Þannig er fyrirkomulagið einnig á Norðurlöndunum og víðast hvar í Evrópu.

2019 hófst endurskoðun staðlanna í Evrópu þar sem þeir þurfa að endurspegla nýjar áskoranir sem blasa við af náttúrunnar hendi auk þess sem reynsla og þekking verkfræðinga, náttúruvísindafólks og annarra sérfræðinga þarf að rata inn í þær kröfur sem staðlarnir hverfast um. Í því felst að endurskoða einnig íslensku ákvæðin í viðaukunum til að tryggja að ný þekking, afrakstur nýrra rannsókna og aukinnar vitneskju um þróun mála hvað varðar vind, snjó, jarðskjálfta o.fl. rati inn í endurskoðaðar kröfur. Staðlar eru endurskoðaðir með reglulegu millibili til að tryggja einmitt þetta. Félags- og barnamálaráðuneytið sem fór með mannvirkjamálin á þessum tíma gaf grænt ljós og greiddi 2 milljónir inn á verkefnið. Samningi við það var hins vegar aldrei lokið.

Staðlaráð er eini lögformlegi aðilinn hérlendis sem gefur út staðla af þessu tagi skv. lögum um staðla og Staðlaráð Íslands. Vegna þess hófst ráðið þegar handa árið 2019 við að tryggja aðkomu á þriðja tug sérfræðinga sem vinna stöðugt í fimm vinnuhópum að endurskoðun íslensku ákvæðanna auk þess sem kallað er í aðra sérfræðinga eftir þörfum. Þessir aðilar vinna allir á sinn kostnað. Eins og áður segir þarf einhver að mæta kostnaði sem hlýst af umfangsmikilli verkefnastjórn sem felst í að fylgjast með störfum evrópsku tækninefndarinnar, taka þátt í norrænu samstarfi sem ákveðið var af norrænu ráðherranefndinni, þjónusta vinnuhópa, halda utan um 176 skjöl á þúsundum blaðsíðna og þekkja inntak þeirra, halda fundi og utan um gríðarlegt gagnasafn auk útgáfu á öllum þessum skjölum á endanum. Þau störf eru ekki hluti af þjónustusamningi Staðlaráðs heldur verða fagráðuneyti að sinna eigin ábyrgðarsviðum.

Í tilviki þolhönnunarstaðla er um að ræða lögbundna kröfu á hendur ríkinu sem fagráðuneyti bera ábyrgð á hverju sinni. Vinna Staðlaráðs virkjar einkaaðila og aðra hagaðila til að leggja fram vinnu og þekkingu sem hér nemur um 80-85% af heildarkostnaði. Eftir stendur kostnaður sem nemur verkefnastjórn sem fjármagna þarf sérstaklega.

Þolhönnunarstaðlar og íslenskir þjóðarviðaukar eru mikilvægir og verðmætir grunninnviðir á Íslandi sem tryggja öryggi fólks og eigur.

Staðlaráð greip í raun boltann fyrir ríkið 2019 án þess að samningar væru undirritaðir, og hefur til þessa tryggt samfellu í vinnu við verkefnið. Eftir að málaflokknum var enn fleytt yfir í nýtt ráðuneyti í árslok 2021, að því er virðist án þess að fullnægjandi þekking hafi fylgt honum, hófust enn á ný viðræður, skrif á minnisblöðum, fundahöld og önnur samskipti. Þau hafa leitt til þeirrar stöðu sem komin er upp. Innviðaráðuneytið vill fá staðlana, vonandi af því það skilur hvað er í húfi. Það vill hins vegar ekki greiða eðlilegan, hóflegan og sanngjarnan kostnað við verkefnastjórn verkefnisins. Loforð sem gefin eru eru ekki uppfyllt og þrátt fyrir vilja Staðlaráðs til að veita ríkulegan afslátt af áföllnum kostnaði gegn því að ráðuneytið skuldbindi sig til að ljúka verkefninu hefur enn ekki þokast. Þeirri viðleitni var raunar svarað með því að senda tilboð sem þrisvar áður hafði verið hafnað. Tilboð sem hljóðaði upp á greiðslu 20% af áföllnum kostnaði, 50% af áætluðum kostnaði ársins 2024 en ráðuneytið er ekki til viðræðu um aðkomu sína á árunum 2025-2027 þegar verkefninu lýkur. Staðlaráð hefur enga sjóði að sækja í til að tryggja vinnu við löggjöfina og telur sig þurfa tryggingu fyrir því að innviðaráðuneytið ætli raunverulega að standa að því, eins og aðrir hagaðilar að tryggja þessa mikilvægu innviði. Loforð með óljósum fyrirætlunum inn í framtíðina hafa ekki reynst þess virði hingað til. Þess vegna blasir ekkert annað við en að vinnu við verkefnið verði hætt.

Afleiðing þess er sú að innan tíðar fara að taka gildi hinir evrópsku þolhönnunarstaðlar sem vísað er til í Byggingarreglugerðinni. Þeir hafa hins vegar lítið eða ekkert gildi á meðan íslensku ákvæðin vantar því ekki verður reiknað út úr formúlum nema gildi hennar séu til staðar. Það verður þá væntanlega refislaust að hanna, byggja og selja mannvirki s.s. íbúðar- og atvinnuhúsnæði, virkjanir, brýr o.fl. sem þola ekki það álag sem íslensk mannvirki þurfa að þola af náttúrunnar hendi. Ráðherrann ætti að fá lögfræðing ráðuneytisins til að staðfesta það við sig. 

Sú er staðan nú og í stað þess að setjast að samningaborði er háværu kalli um yfirvofandi ógn við almenning svarað með skætingi.

Ef innviðaráðherra ætlar að hverfa frá fyrri venju um greiðslu fyrir verkefnastjórn lögbundinna stöðlunarverkefna þar sem Staðlaráð virkjar alla sérfræðinga til að vinna á eigin kostnað, þarf að ræða það og ábyrgð ráðuneytisins á löggjöfinni. Ekki hefur verið boðið upp á slíkar viðræður af hálfu ráðherrans.

Ætli ráðherrann að hverfa frá því að standa við skuldbindingar gagnvart EES samningnum þarf hann að útskýra það fyrir EFTA OG útvega alla þá þekkingu sem felst í evrópsku þolhönnunarstöðlunum og bæta við þekkingunni sem felst í gerð íslensku þjóðarviðaukanna. Miðað við þann fjárskort sem virðist blasa við í ráðuneytinu er ekki líklegt að það sé heppileg leið.

Er einhverju ósvarað?

Sendu okkur línu á stadlar@stadlar.is og við svörum frekari spurningum

Menu
Top