Aðalfundur IEC 2023

Aðalfundur IEC 2023 var haldinn dagana 22. október til 2. nóvember. Fundurinn hafði verið boðaður sem staðfundur í Egyptalandi en fundinum var breytt í fjarfund að öllu leyti með skyndiákvörðun stjórnar vegna þeirra átaka sem brutust út milli Ísrael og Palestínu skömmu fyrir fundinn. Dagskránni var allri velt um því erfitt er að finna fundartíma sem hentar alheimssamtökum. Þetta var gífurlega svekkjandi fyrir IEC Þjóðarnefnd Egyptalands sem var búin að undirbúa fundinn og leggja í verulegan kostnað í tengslum við hann.

Ritari Rafstaðlaráðs tók þátt í fundinum fyrir Staðlaráð og Rafstaðlaráð. Einnig Andri Viðar Kristmannsson frá Rarik sem tók þátt í IEC YP vinnustofunni fyrir unga sérfræðinga. Þetta YP prógram hefur verið að koma æ sterkar inn til að laða að ungt fagfólk til að starfa í stöðlum. Vinnuhópar YP skiluðu mjög áhugaverðum tillögum m.a. um tölvuleiki og öpp til að kenna m.a. ungu fólki á staðla, þýðingu þeirra og notkunargildi. Gera má ráð fyrir að eitthvað slíkt líti dagsins ljós frá IEC Academy fljótlega.

Á fundinum var farið yfir mikilvægi þess að innleiða Smart/Snjall í staðlastarfið bæði við staðlavinnuna og eins fyrir notendur staðla. En það gengur m.a. út á að rita staðla á því formi að tölvur geti skilið nákvæmlega um hvað er fjallað í þeim. Það mun opna endalausa möguleika í vélrænni hagnýtingu staðla. Það eru í gangi 5 pilotverkefni til að byggja upp sýn á hvernig snjallvæðing staðla og samræmisvottunar getur átt sér stað. Einnig er í skoðun hvernig megi hagnýta gervigreind við beitingu staðla. En eins er unnið að stöðlun á grundvallar gervigreindarkerfa.

Þá kom einnig fram að Annex SL sem notendur stjórnunarkerfisstaðla þekkja sem sameiginlegar grunnskilgreiningar slíkra staðla, er í endurskoðun út frá sjónarhorni sjálfbærni. Þá voru kynntar bráðabirgðaniðustöður vinnuhóps um langtímasjálfbærni samtakanna. En ýmsar kröfur um breytt aðgengi að stöðlum kallar á nýja nálgun við öflun tekna. Til dæmis að selja tímamældan aðgang að öllu staðlasafni IEC, sem gæti nýst staðlanotendum vel og ýtt undir aukna notkun staðla.

Á vegum stjórnar IEC er að störfum nefnd um langtíma sjálfbærni samtakanna sem á að stuðla að því að samtökin sitji ekki eftir með sárt ennið í tækniþróun framtíðarinnar. Áhugavert starf sem á eflaust eftir að verða líflína samtakanna.

Guðmundur Valsson, ritari Rafstaðlaráðs
Menu
Top