IEC Vinnustofa ungra sérfræðinga – Kairó 2023

Mér bauðst það einstaka tækifæri að taka þátt í vinnustofu ungra sérfræðinga fyrir hönd Íslenskra staðla, sem haldin er af IEC. Vinnustofan átti upprunalega að fara fram í Kairó í Egyptalandi dagana 21. – 27. október. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna við botn Miðjarðarhafsins var sú ákvörðun tekin að færa vinnustofuna yfir í netheima. Svo öll vinnustofan var því haldin í gegnum fjarfundarbúnað dagana 22. – 26. október.

Kjarni viðburðarins var vinnustofan sjálf, en hún dreifðist yfir fyrstu þrjá daga viðburðarins. Fólki var skipt í hópa og gefið ákveðið verkefni sem þurfti að leysa. Að því loknu þurfti hópurinn að kynna niðurstöður sínar. Hópurinn sem ég var í fékk verkefni sem hafði yfirsögnina „Developing Standars to Protect All Genders“ (ísl. Þróun staðla sem vernda öll kyn). Rótin að þessu vandamáli er sú að almennt eru staðlar á hinum ýmsu sviðum þróaðir með meðal karlmann sér til hliðsjónar, en ekki kvenmann. Gott dæmi um þetta er að konur eru 73% líklegri til þess að slasast í bílslysum samanborið við karlmenn. Ástæðan fyrir þessu er hreinlega vegna þess að hjá flestum bílaframleiðendum er notast við „dummy“ í öryggisprufunum sem líkir eftir líkama meðal karlmanns. Verkefni okkar fólst þar af leiðandi í því að koma með tillögur að því hvernig hægt væri að laga þetta og stuðla að því að staðlar væru þróaðir fyrir öll kyn.

Niðurstaða hópsins var sú að til þess að laga þetta þá þyrfti fyrst og fremst vitundarvakningu hjá almenningi. Það er vegna þess að við rannsóknir á þessu viðfangsefni kom í ljós að fólk veit almennt ekki af þessari mismunun. Með því að vekja athygli á þessu hjá almenningi myndast þrýstingur á staðlaráðin til þess að búa til staðla sem vernda öll kyn. Þessi vitundavakning myndi einnig þrýsta á háskóla og stofnanir sem framkvæma hinar ýmsu rannsóknir að safna gögnum sem ná yfir öll kyn. Þetta myndi þá þrýsta á framleiðendur að framleiða vörur sem taka öll kyn til greina.

Samhliða þessari vinnustofu voru haldnir margir áhugaverðir fyrirlestrar um uppbyggingu og starfsemi IEC, en þessir fyrirlestrar voru virkilega gagnlegir.

Á síðasta degi viðburðarins var haldið svo kallað „IEC Academy Bootcamp“. Þá var farið yfir ferlið sem þarf að fara í gegnum til þess að búa til staðal, alveg frá hugmyndinni að staðlinum og þar til hann er birtur. Að þeirri kynningu lokinni var öllum skipt í hópa þar sem hver og einn hópur átti að framkvæma ákveðið skref í þróun staðalsinns. En það skref sem allir hópar fengu var yfirferð á gervi staðli. Þá var hver og einn meðlimur hópsins með ákveðið sjónarmið sem hann átti að koma á framfæri og bæta við í staðalinn. Ásamt því átti einnig að koma með tillögur að lagfæringum og breytingum á staðlinum. Að því loknu fór „ritari“ staðalsins yfir þessar athugasemdir og samþykkti eða ekki. Með þessu fengu þátttakendur viðburðarins sýn í ferlið sem hver og einn staðall þarf að fara í gegnum áður en hann er birtur.

Að vinnustofunni lokinni var kosið um nýja leiðtoga ungra sérfræðinga IEC, en þar voru þrír sérfræðingar kosnir til þess að leiða IEC unga sérfræðinga í ár og óska ég þeim innilega til hamingju. Í lokinn langar mig að þakka Rafstaðlaráði fyrir að velja mig sem fulltrúa Íslands til að taka þátt í þessari vinnustofu á vegum IEC. Hún var gríðarlega áhugaverð en með henni fékk maður en betri innsýn í heim staðlanna. Einnig kynntist ég frábærum sérfræðingum allstaðar að úr heiminum sem mun án efa gagnast mér til framtíðar.

Andri Viðar Kristmannsson 

Menu
Top