Nýir samfélagssáttmálar

 

Í vikunni hefur umræða um jafnrétti, inngildingu, árangur, öryggi, vernd og stöðugar umbætur verið hávær en hún náði hámarki í miðbæ Reykjavíkur um miðjan dag á þriðjudag.

Við sem byggjum þetta samfélag viljum að þeir sem fara með völd vandi sig, að okkur séu sköpuð jöfn tækifæri, að vel sé farið með sameiginlegar auðlindir, að samfélagið verndi okkur og veiti okkur öryggi og að við þokumst stöðugt fram á veginn í átt til þess að gera betur.

Allt ofangreint er viðfangsefni staðla. Og vegna aðferðarinnar sem notuð er til að búa þá til, þá eru þeir í raun sértækir litlir samfélagssáttmálar þar sem hlutaðeigandi hagaðilar hittast á formlegum vettvangi til að leysa vandmál. Öll besta þekking hverju sinni er sett á borðið þar sem færustu sérfræðingar viðfangsefnisins eru saman komnir og þegar vinnunni lýkur hafa þeir komið sér saman um viðmið til að fylgja. Staðlar eru þannig mýkri reglusetning en lagasetning en vegna þess að hagaðilar koma allir að ákvörðuninni vilja þeir fylgja reglunum sem þar eru settar. Þá eru þeir líka miklu betur inni í umræðunni og skilja viðfangsefnið nógu vel til að vita hvað þeir þurfa að gera. Það er nú ekki lítið.

Til eru um 30.000 íslenskir staðlar. Flestir eru evrópskir að uppruna en EES samningurinn sér til þess að þeir eru teknir upp hér. Þeir innihalda allir svör við spurningunni „Hvernig er best að gera þetta?“

Þó staðlar hafi í gegnum tíðina haft það orð á sér að vera frekar tæknilegs eðlis eru þeir í auknum mæli farnir að fjalla um mannréttindi, líðan okkar í samfélaginu og velferð. Á Íslandi var skrifaður jafnlaunastaðall 2012 til að búa til verkfæri fyrir fyrirtæki til að tryggja að greidd væru sambærileg laun fyrir sömu eða jafnverðmæta vinnu innan skipulagsheildar. Enn eigum við eftir að jafna launamun sem byggir á kerfislægu misrétti sem felst í því að kvennastörf séu oft minna metin en karlastörf.  Í Danmörku hefur verið skrifaður staðall sem auðveldar stjórnendum skipulagsheilda að tryggja jafnrétti og fjölbreytni á vinnustaðnum. Í Noregi hafa menn skrifað staðal af svipuðum toga um stjórnun jafnréttis. Bretar hafa skrifað staðal sem auðveldar stjórnendum fyrirtækja að þekkja einkenni og koma til móts við konur á vinnustaðnum sem glíma við ýmis einkenni vegna tíða og tíðahvarfa, til að auðvelda þeim vinnuna og bæta líðan á vinnustaðnum. Það eru til evrópskir staðlar sem tryggja að sjúklingar taki virkan þátt í ákvörðunum um meðferðir og umönnun sína, staðlar sem tryggja að viðmót snjalltækja henti fyrir sjónskerta, staðlar sem auka virði verkefna þar sem unnið er að valdeflingu og menntun barna, einkum stúlkna. Svona mætti halda lengi áfram.

 Við eigum verkfæri til að takast á við a.m.k. hluta þeirra verkefna sem baráttufundur kvenna og kára kallaði eftir. Við höfum tekið skref í áttina með lögfestingu jafnlaunastaðalsins en við getum gert miklu betur og það án þess að finna hjólið upp! Verkfærin eru litlir samfélagssáttmálar. 

Menu
Top