Vottað gæðakerfi samkvæmt ISO 9001

ÍST EN ISO 9001 er svonefndur kröfustaðall. Í honum eru settar fram grunnkröfur til gæðakerfa. Þegar fyrirtæki fá gæðakerfi sín vottuð er vottunin samkvæmt ISO 9001. Slík vottun er í daglegu tali iðulega nefnd ISO 9000-vottun.

Nokkrir tugir íslenskra fyrirtækja hafa fengið gæðakerfi sín vottuð samkvæmt ISO 9001. Tala þeirra er frekar lág miðað við það sem gerist í Vestur-Evrópu. Reikna má með að breyting verði þar á, því fjöldi þeirra fyrirtækja í öllum greinum atvinnulífsins sem fá gæðakerfi sín vottuð eykst hröðum skrefum.

Ávinningurinn af vottuðu gæðakerfi er tvíþættur. Annars vegar markaðslegur og hins vegar rekstrarlegur. Í mörgum greinum atvinnulífsins er vottun nánast skilyrði. Þar má nefna sem dæmi lyfjaiðnaðinn. Í öðrum greinum, svo, sem hugbúnaðar- og upplýsingatækni, má segja að vottun sé mikilvæg forsenda þess að fyrirtæki tolli á markaði og geti sótt fram. Þótt hér séu tilteknar ákveðnar greinar atvinnulífsins verður að hafa í huga að ISO 9000 staðlarnir eru fyrir öll fyrirtæki óháð því hvaða starfsemi fer þar fram.

Þótt hin markaðslega hlið vottunar sé mikilvæg og komi öllum fyrirtækjum að gagni, er rekstrarlegi þátturinn þó enn mikilvægari. Þar er eftir miklu að slægjast. Gæðastjórnun er ekki abstrakt hugtak eða stjórnunarkerfi sem aðeins hentar fyrirtækjum af ákveðnu tagi eða stærð. Gæðastjórnun snýst um hluti sem hver einasti stjórnandi er að fást við frá degi til dags. Skilvirkari og ábatasamari stjórnun hentar öllum og það er ekki til það fyrirtæki eða sú stofnun sem ekki getur gert betur með með ISO 9000. Það er hægt að byggja upp gæðakerfi samkvæmt ISO 9001 án þess að fá það vottað, en vottunin veitir aðhald og er jafnframt mikilvægt tæki í markaðsmálum.

En af hverju að staðla kröfur til gæðakerfa og votta að þau uppfylli þær kröfur? Í ISO 9001 er að finna kröfur fyrir gæðakerfi og gæðatryggingu sem eru á engan hátt endanlegar heldur má líta á þær sem lágmarkskröfur. Gæðakerfi og bókhaldskerfi eru ekki ósvipuð í eðli sínu. Með bókhaldskerfi er verið að halda utan um fjárhagsstöðu fyrirtækisins frá einum tíma til annars. Þar eru grundvallarkröfur í lögum hafðar til hliðsjónar. Í nútímarekstri dettur fáum annað í hug en að líta á lögin sem lágmarkskröfur. Það er síðan komið undir stjórnendum að gera enn betur. Á sama hátt ber að skoða kröfur til gæðakerfa.

Alþjóðleg samtök á borð við ISO búa ekki til kröfur sem aðeins eru sniðnar að þeim sem eru fremstir nú þegar. Enda reynist fyrirtækjum sem eru fyrir með þróuð gæðakerfi auðvelt að mæta kröfum ISO 9001. Önnur eiga mikla vinnu fyrir höndum í gæðamálum. En öll fyrirtæki ættu að skoða þann möguleika vandlega að koma sér upp vottuðu gæðakerfi.

Á heimasíðu Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO er bæklingur þar sem er farið yfir kosti vottaðra stjórnunarkerfa. Sjá hér >>

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja