Lítil og meðalstór fyrirtæki

Staðlaráð og lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) 2015-2016

Staðlaráð Íslands leggur áherslu á að þjóna öllum sínum viðskiptavinum og hagsmunaaðilum vel. Langflest fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Staðlaráð falla í flokk LMF.

Aðildargjöld að Staðlaráði eru mismunandi eftir stærð fyrirtækja og greiða minni fyrirtæki einungis hálft gjald miðað við þau sem stærri eru. Aðild að Staðlaráði er þó ekki skilyrði fyrir þátttöku í staðlastarfi og fjölmörg LMF taka virkan þátt í starfi tækninefnda og vinnuhópa á vegum Staðlaráðs og fagstaðlaráða þess. Reynt er að auðvelda hagsmunaaðilum þátttöku í stöðlunarvinnu m.a. með því að bjóða tækninefndum upp á að nota verkefnavef og síma- eða Skype-fundi.

Öllum hagsmunaaðilum, jafnt LMF sem öðrum, er frjálst að koma á skrifstofu Staðlaráðs og fá að skoða og fletta upp í stöðlum og staðlafrumvörpum. Sömuleiðis geta allir sent inn athugasemdir við staðlafrumvörp. Í mörgum tilvikum eru haldnir opnir kynningarfundir um væntanlega staðla, áður en frumvarp er auglýst til umsagnar, til að veita þeim sem ekki hafa haft tök á að taka þátt í samningu staðalsins innsýn í efni staðalsins og tækifæri til að koma sínum athugasemdum á framfæri. Aðilar að Staðlaráði geta fengið frumvörp að stöðlum án endurgjalds á umsagnartíma frumvarpanna.

Sýnishorn af langflestum útgefnum stöðlum eru aðgengileg á vef Staðlaráðs, þar sem hægt er að sjá hvert umfang og gildissvið staðalsins er, efnisyfirlit hans o.fl. Starfsmenn Staðlaráðs veita einnig ýmiss konar upplýsingar og leiðbeiningar um staðla og notkun þeirra í síma. Aðilar að Staðlaráði njóta afsláttarkjara á útgefnum íslenskum stöðlum. Staðlaráð lætur þýða valda staðla á íslensku og heldur námskeið um tiltekna staðla og notkun þeirra, s.s. um staðla um gæðastjórnun og stjórnun upplýsingaöryggis, en einnig um CE-merkingar og notkun staðla í því sambandi.

Staðlaráð hefur tekið þátt í vinnuhópi evrópsku staðlasamtakanna CEN og CENELEC um LMF og þátttöku þeirra í stöðlun. Staðlaráð er einnig, ásamt dönsku staðlastofnuninni DS og þeirri norsku SN, aðili að tveim verkefnum sem miða að því að auka þátttöku LMF í stöðlun og auðvelda þeim notkun staðla. Verkefnin eru styrkt af Norræna nýsköpunarsjóðnum (Nordic Innovation). Í tengslum við þessi verkefni hafa verið gefnir út bæklingar sem fáanlegir eru hjá Staðlaráði eða birtir á vef þess, sem ætlað er að aðstoða LMF við að nýta sér staðla og taka aukinn þátt í stöðlun. Sjá hér >> Nokkur íslensk fyrirtæki, auk Samtaka iðnaðarins, hafa tekið þátt í þessum verkefnum. Að auki á Staðlaráð í ýmiss konar samstarfi við aðrar norrænar staðlastofnanir, þar sem m.a. er hugað að þátttöku LMF í staðlastarfi og aðgengi þeirra að stöðlum.

Staðlaráð hefur einnig staðið að ráðstefnum og fundum til að kynna starfsemi sína fyrir hagsmunaaðilum, með sérstakri áherslu á LMF.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja