Reglur um tækniforskriftir, tækniskýrslur og vinnustofusamþykktir

Tækniforskrift (TS)

Staðlaráði er heimilt að gefa út tækniforskriftir. Tækniforskrift (TS) er skjal sem inniheldur reglur eða leiðbeiningar og er ætlað til notkunar á svipaðan hátt og staðall. Tækniforskrift hefur takmarkaðan gildistíma, að hámarki þrjú ár, og skal koma fram á forsíðu tækniforskriftarinnar hver gildistími hennar er. Að þeim tíma liðnum og eftir endurskoðun tækninefndar er um þrjá kosti að velja:

  • framlengja gildistímann um þrjú ár skv. rökstuðningi tækninefndar,
  • fella tækniforskriftina úr gildi, eða 
  • breyta henni í staðal eftir þeim reglum sem um samþykkt og staðfestingu staðla gilda.

Viðeigandi tækninefnd hefur það hlutverk að endurskoða tækniforskriftir á þriggja ára fresti. Tilgangur endurskoðunarinnar er að endurmeta réttmæti tækniforskriftarinnar og þeirra aðstæðna sem leiddu til gildistöku hennar.

Tækninefnd getur samþykkt, framlengt og fellt niður tækniforskriftir án formlegs umsagnarferlis.

Tækninefnd er heimilt, með rökstuðningi, að óska staðfestingar á gildistíma tækniforskrifta ítrekað, sjái hún ástæðu til.

Ákvæði tækniforskriftar mega ekki stangast á við ákvæði gildandi íslenskra staðla en mismunandi tækniforskriftir um sama efni mega vera samtímis í gildi.

Staðfestingarnefnd staðfestir gildistöku eða framlengingu tækniforskriftar eftir samþykkt tækninefndar.

Að öðru leyti gilda sömu reglur um gerð tækniforskrifta eins og um íslenska staðla.

 

Tækniskýrsla (TR)

Staðlaráði er heimilt að gefa út tækniskýrslur. Tækniskýrsla (TR) er skjal sem inniheldur upplýsingar um tæknilegt innihald tiltekins staðlastarfs og er ætlað til notkunar á svipaðan hátt og staðall.

Tækniskýrslur eru unnar í þeim tilvikum þegar tækninefnd telur brýnt að bregðast hratt við þörf fyrir upplýsingar meðal hagsmunaaðila eða telur ráðlegt að deila slíkum upplýsingum. Tækniskýrslur geta innihaldið upplýsingar um hvers kyns gagnasöfnun, svo sem niðurstöður kannana og afrakstur sérstakrar upplýsingavinnslu á tilteknu sviði eða upplýsingar um framúrskarandi framkvæmd tiltekinna verka.

Á meðan tækniskýrsla er í vinnslu eða eftir gildistöku hennar gilda ekki kyrrstöðuákvæði (e. standstill) sem almennt gilda um staðla.

Staðfestingarnefnd staðfestir tækniskýrslur með einföldum meirihluta atkvæða. Útgefnar tækniskýrslur þurfa ekki að vera í samræmi við gildandi staðla.

Gildistími tækniskýrslna er ekki takmarkaður en mælt er með því að þær séu endurskoðaðar reglulega af viðeigandi tækninefnd til að gildi þeirra sé tryggt.

Að öðru leyti gilda sömu reglur um gerð tækniskýrslna eins og um gerð íslenskra staðla.

 

Vinnustofusamþykkt (WA)

Staðlaráði er heimilt að gefa út vinnustofusamþykktir. Vinnustofusamþykktir (WA, e. workshop agreement) eru skjöl sem innihalda samninga um tæknilegar útfærslur sem unnar er í opnu ferli vinnustofu, á upphafsstigum nýrrar tækni þegar tækni er ekki nægjanlega þróuð til að um hana sé unnt að formgera eiginlegan staðal.

Vinnustofur má einnig nota sem vettvang þekkingarmiðlunar svo sem vegna upplýsingagjafar um innleiðingu nýrra tækniforskrifta, gagnkvæmra samskipta um nýja tækni og viðskiptatækifæri o.s.frv.

Vinnustofusamþykkt er tekin upp með því að aðilar vinnustofunnar sammælast um innihald hennar.

Við skipulagningu vinnustofusamþykkta ber að skrifa verkefnisáætlun sem tiltekur framlag hvers og eins þátttakanda.

Gildistími vinnustofusamþykkta er þrjú ár. Að þeim tíma liðnum og eftir endurskoðun er um fernt að velja:

  • vinnustofusamþykktin er framlengd um þrjú ár til viðbótar,
  • vinnustofusamþykktin er birt í breyttri mynd eftir endurskoðun, 
  • vinnustofusamþykktinni er breytt í annars konar staðlað skjal eftir þeim reglum sem um þau gilda eða
  • vinnustofusamþykktin er felld úr gildi.

Eingöngu er unnt að framlengja gildistíma vinnustofusamþykkta einu sinni. Hámarksgildistími þeirra er því sex ár. Staðfestingarnefnd skal ákveða hvort vinnustofusamþykkt sem gilt hefur í sex ár frá upphaflegri útgáfu skuli felld úr gildi eða breytt í annars konar staðlað skjal eftir þeim reglum sem um þau gilda.


Samþykkt af stjórn Staðlaráðs Íslands 7. maí 2018.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja