Hvað er stöðlun?

Að staðla þýðir að vinna kerfisbundið að því að skilgreina skilmála, afurðir og aðferðir, að setja reglur og tryggja tiltekna virkni, að hlutir passi saman og þeir skili því sem af þeim er krafist.

Við njótum góðs af stöðlun í starfi og leik á hverjum einasta degi án þess að verða beinlínis vör við það. Ýmsir byggingarhlutar eru staðlaðir og íhlutir í bíla, flugvélar og skip. Rafmagnstæki eru að einhverju leyti stöðluð, pappírsvörur, greiðslukort, fjarskiptatæki, rannsóknaraðferðir og prófanir á matvælum, kröfur um öryggi, stjórnunaraðferðir og svona mætti lengi telja.
 
Það sem vekur okkur helst til umhugsunar um gagnsemi stöðlunar er þegar við verðum fyrir óþægindum vegna þess að staðla skortir. Sígilt dæmi um það eru óþægindin sem ferðafólk verður fyrir vegna þess að ekki hefur tekist að staðla rafmagnsinnstungur og klær.

Niðurstaða eða árangur tiltekins stöðlunarstarfs er opinbert skjal sem kallast staðall. Staðall er eiginlega tilmæli um að gera eitthvað á tiltekinn hátt, til dæmis við framleiðslu einhverrar afurðar. Einnig má líta á staðal sem úrlausn á vandamáli sem kemur fyrir aftur og aftur.

Staðlar gegna mikilvægu hlutverki í viðskiptum bæði innan einstakra landa og á alþjóðavettvangi. Samning þeirra byggist á því að hagsmunaaðilar komi sér saman um hvað sé hæfilegt, eðlilegt, góðar starfsvenjur og í takt við tímann. Ákveðnar reglur eru viðhafðar um samningu og samþykkt staðla, sem og þátttöku við gerð þeirra.

Staðall er jafnan til frjálsra afnota en stjórnvöld geta gert notkun hans skyldubundna með því að vísa til hans í reglugerð. Slík notkun staðla hefur færst mjög í vöxt með alþjóðlegum samningum á borð við GATT og EES. Þessir samningar hafa í för með sér breytt viðskiptaumhverfi sem byggist að miklu leyti á notkun staðla til að greiða fyrir viðskiptum á milli landa. Á Evrópska efnahagssvæðinu hafa verið gefnar út um það bil 20 tilskipanir sem hafa þann tilgang að stuðla að öryggi, heilsuvernd og umhverfisvernd við framleiðslu og markaðssetningu tiltekinna vöruflokka. Um tæknilega útfærslu þessara atriða er vísað í samevrópska staðla sem öðlast allir gildi hér á landi.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja