Hvað er staðall?

Staðall er opinbert skjal ætlað til frjálsra afnota. Í staðli er að finna reglur, leiðbeiningar eða skilgreiningar sem miða að því að tryggja tiltekna virkni, að hlutir passi og að þeir skili því sem af þeim er krafist. Allt er þetta gert til þess að auka hagkvæmni, einfalda og draga úr kostnaði.


Nefna má eftirfarandi sem dæmi um mismunandi gerðir staðla:

  • Grunnstaðlar, t.d. um stærðfræðitákn, mál og vog.
  • Kerfisstaðlar, t.d. um greiðslukort, posa og hraðbanka.
  • Hugtaka- og táknastaðlar, t.d. íðorðasöfn og tákn á skiltum.
  • Aðferðarstaðlar sem lýsa ferli eða aðferð, t.d. staðlar um
  • gæðastjórnun og stjórnun upplýsingaöryggis.
  • Prófunarstaðlar sem tryggja að prófanir séu sambærilegar, t.d. prófanir á efnainnihaldi og styrkleika steypu.

Dæmi um hluti sem allir þekkja og eru staðlaðir eru rafhlöður, geisladiskar og stærðir pappírs.

Samskipti á Internetinu og alþjóðleg notkun greiðslukorta eru dæmi um starfsemi sem ekki væri möguleg án alþjóðlegra staðla. Löng hefð er fyrir notkun staðla, t.d. við framleiðslu vélahluta og raftækja og á síðari árum hefur stöðlun innan þjónustugreina færst mjög í vöxt.

Samning staðla byggist á því að hagsmunaaðilar komi sér saman um hvað sé hæfilegt, eðlilegt, góðar starfsvenjur og í takt við tímann. Ákveðnar reglur eru viðhafðar um samningu
og samþykkt staðla, sem og þátttöku við gerð þeirra.

Staðlar og stöðlunarskjöl sem gefin eru út af Staðlaráði Íslands eru með forskeytið ÍST.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja