Staðlasamtök

Fjölþjóðleg og alþjóðleg

Viðamikið stöðlunarstarf er unnið víða um heim; á alþjóðavettvangi, í einstökum heimshlutum og í einstökum löndum.
 
Á alþjóðavettvangi fer samning staðla einkum fram á vegum Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO, Alþjóða raftækniráðsins IEC og Alþjóða fjarskiptasambandsins ITU.

Samevrópskri stöðlunarvinnu er stýrt af staðlasamtökunum CEN sem fer með stöðlun á almennum sviðum, CENELEC, sem sér um raftæknistöðlun, og ETSI sem sér um stöðlun á sviði fjarskiptatækni.

Staðlaráð Íslands fer samkvæmt lögum með umsjón staðlamála hér á landi og á aðild að CEN, CENELEC og ISO og aukaaðild að IEC og ETSI, auk þess að taka þátt í norrænu stöðlunarsamstarfi, INSTA (Internordisk standardisering) og NOREK (Nordiske elektriske komiteer).

Staðlar frá CEN, CENELEC og ETSI fá auðkenninguna EN. Aðilar að samtökunum eru skuldbundnir til að gera alla EN-staðla að landsstöðlum og fella úr gildi landsstaðla sem fjalla um sama efni. Þegar staðlar frá CEN, CENELEC og ETSI  eru staðfestir sem íslenskir staðlar bætist auðkenningin ÍST fyrir framan. Þrjátíu og þrjú Evrópulönd eiga nú aðild að evrópsku staðlasamtökunum og því gilda EN-staðlarnir á stóru og fjölmennu svæði.

Vissir þú þetta?

Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbatt Ísland sig til þess að gera alla evrópska staðla að íslenskum stöðlum. Landsstaðlar þeirra allra ríkja sem aðild eiga að EES-samningnum víkja fyrir evrópskum stöðlum.

Evrópsk staðlasamtök leitast við að taka upp alþjóðlega staðla, þar sem það þykir henta, og gera þá að evrópskum stöðlum. Af því leiðir að á Íslandi eru langflestir staðlar af fjölþjóðlegum og alþjóðlegum uppruna.

Séríslenskir staðlar eru hlutfallslega mjög fáir, en þeim mun mikilvægari.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja