Starfsreglur Staðlaráðs

I. kafli
Almenn ákvæði


1. gr.
Lagagrundvöllur

Staðlaráð Íslands starfar samkvæmt lögum nr. 36/2003, um staðla og Staðlaráð Íslands.

2. gr.  
Hlutverk Staðlaráðs og verkefni

Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem hagsmuna hafa að gæta af gerð og notkun staðla og vettvangur þeirra til að hafa áhrif þar á. Staðlaráð skal hafa að leiðarljósi að starf þess sé íslensku atvinnulífi, stjórnvöldum, neytendum og umhverfinu til hagsbóta.

Verkefni Staðlaráðs eru m.a. að:

a. hafa umsjón með staðlagerð á Íslandi með það að meginmarkmiði að vandaðir íslenskir staðlar verði til;

b. vera fulltrúi fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi á sviði stöðlunar;

c. aðhæfa og staðfesta sem íslenska þá staðla sem leiðir af aðild Staðlaráðs að erlendu staðlasamstarfi;

d. greiða fyrir því að íslenskum stöðlum verði beitt í opinberri stjórnsýslu og hjá einkaaðilum;

e. stuðla að því að erlendir staðlar, sem gagnast íslensku athafnalífi, verði staðfestir sem íslenskir staðlar;

f. starfrækja miðstöð stöðlunarstarfs hérlendis þar sem veitt er þjónusta stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og samtökum sem vilja nýta sér staðla í starfi sínu;

g. gefa út Staðlatíðindi og staðlaskrá og sjá til þess að á hverjum tíma séu eintök af öllum gildandi íslenskum stöðlum;

h. stuðla að framgangi stöðlunar á Íslandi á þann hátt sem gagnlegt þykir, m.a. með fræðslu og upplýsingum og aðild að starfsemi sem tengist stöðlun;

i. veita þjónustu á sviðum sem tengjast stöðlun eftir því sem óskað kann að verða eftir og stjórn Staðlaráðs samþykkir.

Í starfi á vegum Staðlaráðs skal þess gætt að unnið sé í samræmi við reglur Alþjóðaviðskipta -stofnunarinnar WTO um stöðlun.[1]

Einnig skal gæta samræmis við sameiginlegar reglur evrópsku staðlasamtakanna CEN og CENELEC um staðlagerð.[2]

3. gr.
Aðild

Aðild að Staðlaráði er heimil öllum fyrirtækjum, stofnunum, stjórnvöldum, félögum og
samtökum.

Ósk um aðild að Staðlaráði skal senda stjórn þess og fjallar hún um umsóknina. Aðild tekur
gildi frá og með samþykkt umsóknar. Úrsögn skal vera skrifleg og berast stjórn fyrir 1. júlí
árið áður en hún á að taka gildi.


4. gr.
Aðildargjöld

Aðalfundur Staðlaráðs ákveður árleg aðildargjöld. Stjórn Staðlaráðs er heimilt, í sérstökum tilvikum, að fella niður aðildargjöld einstakra aðila að ráðinu að hluta eða að öllu leyti ef hún telur það nauðsynlegt til að tryggja þátttöku mikilvægra aðila að ráðinu. Slík ákvörðun gildir aðeins eitt starfsár í senn.

5. gr.
Tekjur

Staðlaráð Íslands hefur sjálfstæðan fjárhag. Tekjur þess eru m.a.:

a. framlög og greiðslur hagsmunaaðila fyrir stöðlunarstörf sem þeir óska eftir,

b. af sölu staðla, útgáfu rita sem verða til á vegum ráðsins og annarri þjónustu,

c. árleg aðildargjöld,

d. framlag á fjárlögum,

e. hluti af gjaldstofni tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

f. skv. þjónustusamningi við ráðuneytið sem fer með mál er varða staðla og Staðlaráð Íslands.

II. kafli
Stjórnskipulag

6. gr.
Stofnanir Staðlaráðs

Æðsta ákvörðunarvald Staðlaráðs Íslands er í höndum aðalfundar. Aðrar stofnanir Staðlaráðs eru stjórn, staðfestingarnefnd, fagstaðlaráð og tækninefndir. Einnig getur stjórn sett á stofn fagstjórnir á tilteknum sviðum og starfshópa eða nefndir um afmörkuð verkefni.

7. gr.
Skipan Staðlaráðs

Aðilar að Staðlaráði skipa hver einn fulltrúa til setu í ráðinu og annan til vara. Fulltrúar skulu
skipaðir til tveggja ára í senn. Aðilar að ráðinu geta þó hvenær sem er skipt um fulltrúa sinn
með skriflegri tilkynningu þess efnis til formanns ráðsins. Endurskipa má fulltrúa.

8. gr.
Atkvæðagreiðslur í Staðlaráði

Ef ekki er kveðið sérstaklega á um annað tekur Staðlaráð ákvarðanir með einföldum meirihluta atkvæða þeirra fulltrúa sem eru á fundi. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

9. gr.
Fundir Staðlaráðs

Aðalfund Staðlaráðs skal halda á fyrri helmingi hvers árs.

Aukafund skal halda þegar þurfa þykir. Stjórn Staðlaráðs skal boða til aukafundar ef a.m.k. fjórðungur fulltrúa óskar þess. Til aukafundar skal boða með sannanlegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skulu koma fram upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að taka afstöðu til mála sem eru til afgreiðslu á fundinum.

Fundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Færa skal fundargerð fyrir hvern fund í Staðlaráði og senda fulltrúum afrit innan tveggja vikna frá fundardegi. Hafi fulltrúar ekki gert skriflegar athugasemdir við fundargerð þremur vikum eftir að hún var send út skoðast hún samþykkt.

10. gr.
Fundarboð til aðalfundar

Til aðalfundar skal boðað með sannanlegum hætti með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Tillögur um mál, sem óskað er að komi til afgreiðslu á aðalfundi, skulu hafa borist skrifstofu Staðlaráðs eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan fund.

Tveimur vikum fyrir aðalfund skal senda út dagskrá fundarins ásamt upplýsingum sem teljast
nauðsynlegar til að taka afstöðu til mála sem eru til afgreiðslu á fundinum.

11. gr.
Fulltrúar á aðalfundi

Rétt til setu á aðalfundi eiga:

a. fulltrúar aðila að Staðlaráði,

b. formenn fagstjórna og framkvæmdastjóri Staðlaráðs, með málfrelsi og tillögurétt,

c. skoðunarmenn reikninga, með málfrelsi og tillögurétt.

Auk þess getur stjórn ráðsins boðið öðrum aðilum að sitja aðalfundi sem áheyrnarfulltrúar eftir því sem henni þykir ástæða til.

12. gr.
Dagskrá aðalfundar

Á aðalfundi skal eftirfarandi tekið fyrir:

a. kosning fundarstjóra og fundarritara,

b. starfsskýrslur undanfarins árs, þ.m.t. skýrslur fagstaðlaráða og fagstjórna,

c. endurskoðaðir reikningar,

d. tillögur að breytingum á starfsreglum og stefnumótun,

e. tillögur um að stofna fagstaðlaráð og ákvarða starfssvið þess, og ákvarða hvort leggja skuli starfandi fagstaðlaráð niður,

f. stjórnarkjör,

g. ákvörðun aðildargjalda,

h. ákvörðun þóknunar stjórnarmanna,

j. afgreiðsla starfs- og fjárhagsáætlunar,

k. kosning skoðunarmanna reikninga,

l. önnur mál.

 

13. gr.
Stjórn Staðlaráðs

Stjórn Staðlaráðs er skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára, auk formanna fagstaðlaráða sem starfa á vegum Staðlaráðs.

Formaður stjórnar skal kosinn sérstakri kosningu. Formaður stjórnar er jafnframt formaður
Staðlaráðs. Að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Samhliða stjórnarkjöri skal
kjósa tvo varamenn í stjórn.

Kjörgengi til stjórnarkjörs hafa allir fulltrúar í ráðinu.

14. gr.
Fundir stjórnar Staðlaráðs

Stjórn heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og hvenær sem stjórnarmaður óskar þess.
Formaður boðar til stjórnarfunda. Stjórn er heimilt að bjóða formönnum fagstjórna að sitja fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt um mál sem varða starfsemi þeirra. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

15. gr.
Hlutverk og verkefni stjórnar Staðlaráðs

Stjórn Staðlaráðs ber ábyrgð á framkvæmd stefnu og ákvarðana ráðsins og fylgist með
fjárreiðum þess. Hún markar stefnu ráðsins að því leyti sem aðalfundur gerir það ekki og
sinnir þeim verkefnum Staðlaráðs sem öðrum hefur ekki verið falið að sinna.

Stjórnin sér um heildarsamræmingu vinnu á vegum ráðsins. Hún skipar tækninefndir og setur
þeim erindisbréf.

Stjórnin gætir þess að starfsemi á vegum ráðsins fari fram í samræmi við almennar reglur um
stöðlun og leitast við að tryggja að eðlilegs jafnvægis hagsmuna, sem tengjast stöðlun, gæti í allri starfsemi.

Stjórnin skipuleggur þátttöku Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi. Hún skipar fulltrúa til
þátttöku í tækninefndum og vinnuhópum að fenginni tilnefningu frá hlutaðeigandi fagstaðlaráði eða fagstjórn. Ef vafi leikur á hver annast á um tiltekið verkefni hefur stjórnin forgöngu um að ná samkomulagi um það. 

16. gr.
Skyldur fulltrúa í alþjóðlegu staðlasamstarfi

Þess skal jafnan gætt að þeir sem taka þátt í alþjóðlegu staðlasamstarfi á vegum ráðsins leitist við að tryggja að fullnægjandi sammæli sé innanlands um afstöðu til mála á dagskrá. Þeir skulu einnig sjá til þess að stjórn Staðlaráðs og hlutaðeigandi fagstaðlaráði eða fagstjórn berist upplýsingar um mál á dagskrá og fullnægjandi skýrslur um fundastörf.

17. gr.
Hlutverk formanns Staðlaráðs og annarra stjórnarmanna

Formaður Staðlaráðs kemur auk framkvæmdastjóra fram út á við fyrir hönd ráðsins. Mikilvægar fjárskuldbindingar skulu undirritaðar af formanni og varaformanni. Varaformaður stjórnar Staðlaráðs er staðgengill formanns í forföllum hans. Auk almennra stjórnarstarfa fara stjórnarmenn með einstök verkefni skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.

18. gr.
Dagleg starfsemi

Stjórn Staðlaráðs ákveður með hvaða hætti daglegri starfsemi á vegum ráðsins skuli fyrir
komið. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra Staðlaráðs. Verksvið hans skal skilgreint í
ráðningarsamningi.

Framkvæmdastjóri situr fundi Staðlaráðs og stjórnar þess með málfrelsi og tillögurétt. Hann
skal þó víkja af fundi ef stjórn óskar þess.

19. gr.
Staðfestingarnefnd

Á vegum stjórnar Staðlaráðs skal starfa tveggja manna nefnd sem gengur úr skugga um að
vinna við staðla, sem staðfesta skal, hafi farið fram í samræmi við gildandi reglur; staðfestir
gildi og gildistöku staðla sem unnið hefur verið að; og nemur staðla úr gildi.

Stjórn ráðsins skipar einn mann úr hópi fulltrúa í Staðlaráði og annan til vara til að skipa
ásamt einum stjórnarmanna nefndina til eins árs í senn. Fulltrúi stjórnar er formaður nefndarinnar. Staðfestingarnefnd fundar svo oft sem þurfa þykir. Þegar liggur fyrir að einungis þurfi að staðfesta evrópska staðla getur starfsmaður Staðlaráðs staðfest staðlana í umboði nefndarinnar án þess að kalla til fund, enda hafi áður verið sendar viðeigandi upplýsingar til nefndarmanna og þeir ekki gert neinar athugasemdir við þær.

Formaður nefndarinnar getur ef þurfa þykir kvatt til formann fagstaðlaráðs eða fagstjórnar eða annan sem talinn er hafa sérþekkingu á því ferli sem fjallað skal um.

20. gr.
Hlutverk og verkefni fagstaðlaráðs

Aðalfundur Staðlaráðs tekur ákvörðun um hvort stofna skuli fagstaðlaráð. Stjórn Staðlaráðs
gerir tillögu til aðalfundar um stofnun fagstaðlaráðs. Slíkri tillögu skulu fylgja drög að
starfsreglum fyrir viðkomandi fagstaðlaráð, sem skulu staðfestar á aðalfundi. Sama gildir um breytingar á starfsreglum starfandi fagstaðlaráða. Stofnfund nýs fagstaðlaráðs skal boða með auglýsingu til að gætt sé jafnvægis milli hagsmuna á viðkomandi fagsviði. Þeir aðilar Staðlaráðs sem greiða aðildargjald sitt til viðkomandi fagstaðlaráðs skulu kjósa því formann og tvo til fjóra aðra fulltrúa í framkvæmdaráð til tveggja ára í senn, enda sé fjöldi fulltrúa skilgreindur í starfsreglum fagstaðlaráðs. Skipan framkvæmdaráðs skal kynnt á aðalfundi Staðlaráðs.

Hlutverk fagstaðlaráðs er:

- að gera árlega starfs- og fjárhagsáætlun fyrir fagsviðið, sem lögð er fyrirstjórn Staðlaráðs til samþykktar,

- að hafa frumkvæði að nýjum verkefnum á sérsviði sínu,

- að fylgjast með og stýra framvindu stöðlunarvinnu á sérsviði sínu og tryggjaeðlilegaframvindu verkefna,

- að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna.

Stjórn Staðlaráðs veitir hverju fagstaðlaráði starfsumboð.

21. gr.
Fagstjórnir

Á fagsviðum þar sem ekki er grundvöllur fyrir stofnun fagstaðlaráðs getur stjórn Staðlaráðs
sett á stofn fagstjórnir. Fagstjórn er stjórn Staðlaráðs til ráðgjafar um stöðlunarstarfsemi á
viðkomandi fagsviði.

Stjórn Staðlaráðs skipar fagstjórnir, skipar þeim formenn að fengnum tillögum fagstjórnar og setur þeim erindisbréf.

22. gr.
Stofnun tækninefnda

Fagstaðlaráð og fagstjórnir gera tillögu til stjórnar Staðlaráðs um stofnun tækninefnda á sínu sviði, skipan þeirra og störf.

23. gr.
Hlutverk og verkefni tækninefnda

Tækninefndir eru skipaðar til þess að annast stöðlun á tilgreindum, afmörkuðum verkefnasviðum.

Við skipan nefnda skal þess gætt að í þeim sitji fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna á sviðinu.

Eftir atvikum skal leitast við að í þeim sitji fulltrúar framleiðenda, seljenda, neytenda, rannsóknaraðila og stjórnvalda.

Tækninefnd skal, í samræmi við erindisbréf, sinna eftirtöldum þáttum, einum eða fleiri:

a. faglegri vinnu sem tengist þátttöku Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi,

b. vinna úr niðurstöðum verkefna í staðlasamstarfi sem Staðlaráð er aðili að,

c. annast séríslensk verkefni, þ.m.t. endurskoðun gildandi íslenskra staðla,

d. bera ábyrgð á viðhaldi gildandi íslensks staðals.

Hafi tækninefnd lokið verkefni sínu skal hún lögð niður.

24. gr.
Samning staðla á vegum annarra aðila

Stjórn Staðlaráðs getur falið aðilum utan ráðsins að semja drög að íslenskum stöðlum á
tilteknu sviði, innanlands eða í erlendu staðlasamstarfi.

Skilyrði þessa er að:

a. fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna stýri vinnunni, sbr. 23. gr.,

b. fyrir liggi samþykki þeirra við að starfa í samræmi við reglur Staðlaráðs,

c. drögin verði send til umsagnar sem frumvarp í samræmi við 29. - 31. gr.,

d. tryggt sé að Staðlaráð verði ekki fyrir óumsömdum kostnaði af vinnunni, þ.m.t. kostnaði við útgáfuvinnu. 

III. kafli
Útgáfa staðla

25. gr.
Íslenskur staðall

Íslenskur staðall (skammstafað ÍST) er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands.

26. gr.
Kröfur til íslenskra staðla

Staðfesta má skjal sem íslenskan staðal ef:

a. efni þess telst henta til útgáfu sem staðall,

b. skjalið hefur verið auglýst til umsagnar sem frumvarp á vegum Staðlaráðs þannig að þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta hafi fengið tækifæri til að hafa áhrif á gerð staðalsins,

c. skjalið, efni þess eða efnismeðferð, brýtur ekki í bága við skuldbindingar Staðlaráðs í alþjóðlegu staðlasamstarfi.

27. gr.
Staðfesting íslensks staðals

Við staðfestingu á íslenskum staðli skal miðað við að:

a. frumvarpið og fram komnar umsagnir um það hafi hlotið eðlilega og rétta afgreiðslu,

b. framsetning væntanlegs staðals sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til íslenskra staðla,

c. staðallinn verði tilbúinn til dreifingar með hæfilegum fresti fyrir áætlaðan gildistökudag.

Ef þessum ákvæðum er fullnægt ber staðfestingarnefnd að staðfesta staðalinn. Verði ágreiningur um gildi staðals eða staðfestingu hans úrskurðar stjórn Staðlaráðs í málinu.

28. gr.
Íslenskur staðall á erlendu tungumáli

Heimilt er að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt þykir að það hindri ekki
eðlileg not staðalsins. 

29. gr.
Formleg umsögn

Frumvarp telst hafa verið auglýst formlega til umsagnar ef það hefur verið auglýst með
tilgreindum umsagnartíma í Staðlatíðindum á vefsíðu Staðlaráðs.

30. gr.
Umsagnartími og afgreiðsla umsagna

Þess skal gætt við vinnu við stöðlun, útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests að hagsmunaaðilar fái tækifæri til að hafa áhrif á gerð staðalsins. Þetta skal m.a. gert með því að:

a. tilkynna um ný verkefni í Staðlatíðindum,

b. auglýsa hvert frumvarp í Staðlatíðindum til almennrar umsagnar í a.m.k. tvo mánuði frá birtingu auglýsingarinnar,

c. svara bréflega öllum efnislegum athugasemdum sem eru gerðar,

d. gefa þeim sem umsagnir senda kost á að rökstyðja skoðun sína á fundi,

e. semja skýrslu um fram komnar umsagnir og svör við þeim,

f. senda frumvörp, sem veigamiklar breytingar hafa orðið á, aftur til umsagnar áður en þau hljóta staðfestingu sem íslenskur staðall,

g. auglýsa í Staðlatíðindum gildistöku nýs staðals.

 31. gr.

 

Staðlaráð Íslands gefur einnig út tækniforskriftir, tækniskýrslur og vinnustofusamþykktir í samræmi við reglur CEN[3] og CENELEC[4] sem aðild Staðlaráðs Íslands að samtökunum krefst. [5]

Stjórn Staðlaráðs setur sérstakar reglur um útgáfu þeirra.

32. gr.
Staðlatíðindi

Staðlatíðindi eru gefin út svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Í
þeim skal m.a.:

a. tilkynna um ný stöðlunarverkefni,

b. auglýsa frumvörp að stöðlum til umsagnar og kalla eftir umsögnum innan tiltekins tíma,

c. tilkynna staðfestingu Staðlaráðs á nýjum stöðlum, og

d. tilkynna um niðurfelld staðla.

33. gr.
Staðlaskrá

Staðlaráð skal halda skrá yfir alla gilda íslenska staðla og skal hún birt eigi sjaldnar en árlega.

34. gr.
Gildistími staðals

Gildistími staðals er ótakmarkaður nema annað sé sérstaklega tekið fram á forsíðu staðalsins sjálfs.

35. gr.
Afnám íslensks staðals

Nú hentar íslenskur staðall ekki lengur til þess sem honum var ætlað og getur staðfestingarnefnd þá ákveðið að nema hann úr gildi að fenginni tillögu þess efnis frá hlutaðeigandi fagstaðlaráði, fagstjórn eða stjórn Staðlaráðs. Ákvörðun þessa efnis skal birt í Staðlatíðindum.

 

IV. kafli
Ýmis ákvæði

36. gr.
Reikningar og reikningsár Staðlaráðs

Reikningsár Staðlaráðs er almanaksárið og skulu reikningar, endurskoðaðir af löggiltum
endurskoðanda og þar til kjörnum skoðunarmönnum, lagðir fram á aðalfundi til umræðu og
úrskurðar.

37. gr.
Ráðstöfun hagnaðar

Hagnaði, sem verða kann af starfsemi Staðlaráðs Íslands, má einvörðungu verja í samræmi
við hlutverk ráðsins og verkefni. 

38. gr.
Breytingar á starfsreglum

Ákvæðum starfsreglna þessara má breyta á aðalfundi og þarf tvo þriðju hluta greiddra
atkvæða á aðalfundi til að breyta þeim.

Leita skal staðfestingar þess ráðherra sem fer með mál er varða staðla og Staðlaráð Íslands á breytingum og taka breytingarnar gildi að fenginni þeirri staðfestingu.

39. gr.
Gildistaka

Starfsreglur þessar eru settar skv. ákvæðum laga um staðla og Staðlaráð Íslands, nr. 36/2003, og öðlast gildi að fenginni staðfestingu þess ráðherra sem fer með mál er varða staðla og Staðlaráð Íslands.

 

Samþykktar á aðalfundi Staðlaráðs Íslands 24. maí 2018.
Samþykktar af ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 17. september 2018.[1] WTO Agreement on Technical Barriers to Trade - Annex 3: Code of good practice for the preparation, adoption and application of standards.

[2] https://boss.cen.eu/Pages/default.aspx

[3] CEN: f.  Comité Européen de Normalisation, e. Europan Committee for Standardization.

[4] CENELEC: f. Comité Européen de Normalisation Électrotechnique, e. European Committee for Electrotechnical Standardization.

[5] https://boss.cen.eu/developingdeliverables/Pages/default.aspx

 

Starfsreglur Staðlaráðs Íslands á pdf-sniði

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja