Fyrir margskonar úttektir - ISO 19011 18.11.20

Staðallinn ISO 19011 Leiðbeiningar um úttektir stjórnunarkerfa er handhægt verkfæri sem gerir stjórnendum og starfsfólki kleift að taka út og meta á skipulagðan hátt afmörkuð verkferli og stjórnunarkerfi fyrirtækis eða stofnunar í heild. Staðallinn tilgreinir allt sem þarf til að meta árangur tiltekins stjórnunarkerfis og hvernig það uppfyllir settar kröfur.

ISO 19011

Innri úttektir á stjórnunarkerfum eða einstökum verkferlum innan þeirra gefa ekki aðeins skýra mynd af því hvort og hvernig þau skila því sem til er ætlast. Úttektarferlið leiðir einnig í ljós hvar veikleikar liggja og vísar á tækifæri til úrbóta.

Fjarnámskeið 19. nóvember
Námskeiðið fyrir þá sem vilja læra að gera innri úttektir á stjórnunarkerfum með hliðsjón af úttektarstaðlinum ISO 19011 eða þurfa að þekkja framgang innri úttekta. Markmiðið er að þátttakendur skilji til hlítar tilgang og ferli innri úttekta á stjórnunarkerfum með hliðsjón af ISO 19011, geti gert grein fyrir mikilvægustu atriðum slíkra úttekta og séu að loknu námskeiðinu færir um að framkvæma innri úttekt í samvinnu við reyndan úttektarmann. - Nánari upplýsingar og skráning >>

Fyrir lítil og stór
Fyrirtæki eru stór og smá og allt þar á milli, en öll eiga sameiginlegt að starfsemi þeirra felur í sér ýmis konar verkferli sem eiga að skila tilætlaðri útkomu á sem hagkvæmastan máta. Í heild sinni falla slík ferli undir stjórnunarkerfi hvers fyrirtækis eða stofnunar.

Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa gefið út yfir 70 staðla fyrir margskonar stjórnunarkerfi. Meðal þeirra þekktustu eru staðlar ætlaðir öllum fyrirtækjum, eins og ISO 9001 Gæðastjórnunarkerfi - Kröfur; ISO 14001 Umhverfisstjórnunarkerfi - Kröfur ásamt leiðbeiningum um notkun og ISO/IEC 27001, sem fjallar um stjórnunarkerfi upplýsingaöryggis. Aðrir stjórnunarkerfisstaðlar eru sértækari eins og ISO 13485, sem varðar lækningatæki.

Það er því með ráðum gert að leiðbeiningarnar í úttektarstaðlinum ISO 19011:2018 eru almennar og nýtast í reynd við úttektir á hvers konar stjórnunarkerfum fyrirtækja og stofnana, jafnvel þótt stjórnunarkerfunum sé ekki ætlað að uppfylla kröfur tiltekinna stjórnunarkerfisstaðla á borð við ISO 9001.

Úttektir á stjórnunarkerfum er hægt að gera út frá mörgum og mismunandi viðmiðum. Þar getur til dæmis verið um að ræða

  • kröfur sem skilgreindar eru í stjórnunarkerfisstöðlum, einum eða fleiri;
  • stefnu og kröfur tilgreindar af hagsmunaaðilum;
  • opinberar kröfur laga og reglna;
  • eitt eða fleiri verkferli í stjórnunarkerfinu sem fyrirtækið sjálft eða utanaðkomandi skilgreinir;
  • skilvirkni margvíslegra áætlana, svo sem gæðaáætlana, verkáætlana og svo framvegis.

Alþjóðlegi úttektarstaðallinn ISO 19011 hefur verið gerður að evrópskum og íslenskum staðli og er fáanlegur í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs. Fullt heiti staðalsins er ÍST EN ISO 19011 Leiðbeiningar um úttektir stjórnunarkerfa. - Sjá nánar hér >>

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja