Framkvæmd almennra kosninga og gæðastjórnunarkerfi 09.11.20

Frjálsar og óvilhallar kosningar eru grundvallarþáttur í lýðræðisskipulagi. Að greiða atkvæði er grundvallarréttur hvers borgara. Til að tryggja þetta tvennt þarf trausta stjórnun við framkvæmd kosninga.

iso_ts_54001

Nýlega kom út hjá Alþjóðlegu staðlasamtökunum ISO tækniforskriftin ISO/TS 54001 Quality management systems - Particular requirements for the application of ISO 9001:2015 for electoral organizations at all levels of government.

Eins og heitið gefur til kynna tiltekur tækniforskriftin sértækar kröfur svo beita megi gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9001:2015 við framkvæmd almennra kosninga á öllum stjórnsýslustigum.

Formaður tækninefndar ISO sem ber ábyrgð á gerð tækniforskriftarinnar, Katie Altoft, segir hana mikilvægt tæki til að skapa traust, með gegnsæi, skilvirku skipulagi, og skilvirkri stjórn og framkvæmd kosninga. "Allar stofnanir sem koma að kosningum starfa innan lagaramma byggðum á alþjóðalögum og landslögum, þannig að tækniforskriftinni er ekki ætlað að koma í staðinn fyrir það", segir Altoft. "En með því að útlista bestu aðferðir á alþjóðavísu við gæðastjórnun í kosningum og í stofnunum sem bera ábyrgð á kosningum, opnar hún leiðir til að bæta verkferla, auka traust borgaranna, draga úr áhættu og til stöðugra umbóta"

Meðal stofnana sem áttu þátt í að gera frumvarp að tækniforskriftinni er OAS, Organization of American States. Maria Mellenkamp, fulltrúi OAS, fór fyrir vinnuhópi ISO sem vann að gerð forskriftarinnar. Hún segir: "ISO/TS 54001 er frábært verkfæri til að leiðbeina þeim sem fara með stjórn kosninga við að skipuleggja kosningaferli og hjálpa við að tryggja óvilhalla niðurstöðu."

Tækniforskriftin tekur á öllum meginþáttum velheppnaðra almennra kosninga, svo sem skráningu frambjóðenda og kjósenda, atkvæðagreiðslu og talningu atkvæða, tilkynningu kosningaúrslita og meðhöndlun ágreiningsmála.

Tækniforskriftin ISO/TS 54001 er fáanleg í Staðlabúðinni á vef Staðlaráðs. Sjá hér >>

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja