Áhættustjórnun, stjórnun tækifæra 16.11.20

Áhættustjórnunarstaðallinn ISO 31000 Risk Management - Principles and guidelines inniheldur safn skilgreininga, hugtaka, meginreglna og leiðbeininga fyrir skilvirka áhættustjórnun. Staðlinum má beita fyrir allar tegundir áhættu í öllum fyrirtækjum og stofnunum. Þar á meðal við ákvarðanatöku á öllum stigum og sviðum starfseminnar.

ISO 31000

ISO 31000 er ekki kröfustaðall heldur hugsaður til að falla að stjórnunarkerfum sem fyrir eru, eins og til dæmis gæðastjórnunarkerfi samkvæmt ISO 9001. Innleiðing staðalsins er því sniðin að hverju og einu fyrirtæki og þörfum þess.

Fjarnámskeið
Staðlaráð mun halda fjarnámskeið um áhættustjórnun 2. og 3. desember næstkomandi: Áhættustjórnun með hliðsjón af ISO 31000. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur þekki uppbyggingu ISO 31000 og geti beitt staðlinum við að koma á ramma fyrir áhættustjórnun og gera áhættumat.

Auk þess að fjalla um uppbyggingu og áherslur ISO 31000 og notkun staðalsins við gerð áhættumats er á námskeiðinu farið yfir tengsl hans við staðalinn ISO 31010 Risk management - Risk assessment techniques. Nánari upplýsingar >>

Áhætta og tækifæri
Staðlaða skilgreiningin á áhættu er: "Áhrif óvissu á markmið." Fjárfestirinn Warren Buffet segir: "Áhætta er afleiðing þess að þú veist ekki hvað þú ert að gera." Sú fullyrðing lýsir ágætlega því sem felst í áhættustjórnun. Það er að vita hvað maður er að gera og auka þannig líkur á að ná settum markmiðum. Síðustu áratugir hafa einkennst af upptöku margskonar stjórnunarkerfa innan fyrirtækja og stofnana á sviði gæða, umhverfis, öryggis, eigna og fleiri sviðum. Öll þessi stjórnunarkerfi gera kröfu um að mótuð sé stefna, að sett séu markmið og að nauðsynlegum ferlum sé komið á. Notkun ISO 31000 er hluti af því verklagi.

Áhættu fylgja gjarnan tækifæri til ávinnings. Áhættustjórnun er frá því sjónarmiði einnig stjórnun tækifæra og felst í að kortleggja og vega og meta áhættu með hliðsjón af mögulegum ávinningi.

 

ISO 31000:2018 Risk Management - Principles and guidelines

Upplýsingabæklingur um ISO 31000:2018 >>

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja