Staðlar létta þér lífið án þess þú verðir þess var 16.09.20

osynilegir stadlar

Klukkan er sjö að morgni. Þú kveikir ljósið og stendur á flísalögðu baðherbergisgólfinu, lætur vatnið renna og skolar stírurnar úr augunum. Því næst kreistir þú tannkremstúpuna, burstar tennur og skolar munninn. Vaskurinn tekur við skolvatninu og skilar því í fráveitukerfið og út í sjó. - Klukkan er þrjár mínútur yfir sjö. Á þessum þremur mínútum hefur þú komist í kynni við fleiri staðla en þig grunar. Án þess að taka hið minnsta eftir því, en þannig á það einmitt að vera. Staðlar létta þér lífið án þess að þú verðir þess var.

Á bakvið þessi hversdagslegu morgunverk eru sem sagt íslenskir, alþjóðlegir og fjölþjóðlegir staðlar og þrotlaus vinna fjölmargra sérfræðinga og hagsmunaaðila úr öllum heimshornum. Efniseiginleikar flísanna undir iljum þér á baðgólfinu eru ákvarðaðir í stöðlum; efnisinnihald tannkremsins og kröfurnar sem gerðar eru til tannburstans líka. Sama á við um vatnið, handlaugina og frárennslislagnirnar.

En dagurinn er rétt að byrja. Eftir þetta hellir þú upp á kaffi og lítur út um eldhúsgluggann. Það eru staðlar um kaffi og það eru staðlar um kaffikönnur. Líka um byggingarvörur eins og gluggann sem þú horfir út um. En þú hugsar ekki út í það vegna þess að það er búið að hugsa þetta allt saman fyrir þig. Þú þarft þess ekki.

Þegar þú gengur út í daginn og lokar á eftir þér útidyrunum minnist þú þess ekki heldur að tugir staðla eru til um hurðir. Ekki frekar en þú veltir fyrir þér stöðlum þegar þú notar snjallsímann, greiðslukortin og internetið; þegar þú skiptir um rafhlöðu í músinni eða hamrar á lyklaborðið við tölvuna. En þeir eru þarna allt um kring. Staðlarnir fylgja þér hvert fótmál það sem eftir lifir dags. Þegar þú leggst til hvílu um kvöldið dreymir þig heldur ekki staðla um rúm og rúmdýnur, en þeir eru þarna svo þú fáir góðan nætursvefn og vaknir endurnærður til nýs fundar við staðlaflóruna sem þú tekur aldrei eftir.

En hvernig byrjaði þetta allt saman? Til að rekja sögu staðla mætti fara mjög langt aftur, jafnvel 1760 ár fyrir Kristburð eða allt til daga Hammúrabís Babýlóníukonungs. Með því að sveigja dálítið frá nútímaskilgreiningu á staðli mætti segja að Hammúrabí hafi staðfest fyrsta kröfustaðalinn í byggingariðnaði: Ef húsameistari byggir hús fyrir einhvern og gerir það ekki á fullnægjandi hátt og húsið sem hann byggði hrynur og verður eigandanum að bana, þá skal húsameistarinn tekinn af lífi. Þúsundir staðla varða byggingariðnað og skilgreina margvíslegar kröfur en enga svona stranga, sem betur fer.

Söguna er réttara að rekja nær í tíma. Til dæmis mætti miða við stofnun sumra elstu staðlasamtaka heimsins. Bretar stofnuðu staðlasamtök árið 1901 sem nú kalla sig BSI. Í Bandaríkjunum tóku sig saman nokkrar opinberar stofnanir og fimm samtök verkfræðinga árið 1918 og stofnuðu staðlasamtök sem nú bera skammstöfunina ANSI. Þýsku staðlasamtökin DIN voru stofnuð árið áður, Deutsches Institut für Normung. Staðlasamtök á sviði rafmagns voru enn fyrr á ferð; amerísku staðlasamtökin IEEE stofnuð 1897 og Alþjóða raftækniráðið IEC árið 1901. Hin áhugaverða spurning er þó ekki hvenær þessi samtök urðu til heldur hvers vegna?

Í stuttu og mjög einfölduðu máli má segja að þörf fyrir nútímastaðla hafi komið með iðnbyltingunni. Heimurinn skrapp saman með auknum samskiptum manna á öllum sviðum, milli heimshluta, landa og landssvæða. Skínandi dæmi eru járnbrautirnar í Bandaríkjunum um miðja 19. öld. Hver landshluti hafði sín eigin viðmið og kerfi. Breidd lestarspora á sumum svæðum í Maine var aðeins tvö fet. Í New York-ríki allt að sex fetum. Þetta var í lagi meðan hver sat á sinni þúfu og bjó að sínu. Með auknum samskiptum sáu allir óhagræðið sem fólst í því að þurfa að umskipa varningi og fólki úr einni lest yfir í aðra til að koma því á áfangastað, aðeins vegna þess að sporbreiddir voru ekki hinra sömu. Ekki staðlaðar. Það var úr slíkum jarðvegi óhagræðis sem fyrstu staðlasamtök heimsins uxu.

Til er mikill fjöldi staðla um járnbrautir en flóran er fyrir löngu orðin miklu fjölbreyttari. Til eru staðlar um allt milli himins og jarðar. Þótt við verðum þeirra sjaldnast vör snerta þeir líf okkar og störf á hverjum degi. Án staðla væri líf okkar erfiðara og ekki eins skemmtilegt. Staðlar létta þér lífið.

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja