Líffræðileg fjölbreytni – Dagur umhverfisins 2020 05.06.20

Íslendingar hafa haldið upp á  Dag íslenskrar náttúru 16. september frá árinu 2010. Dagurinn er alíslenskur. Alþjóðlegi umhverfisdagurinn er hins vegar 5. júní og hefur verið við lýði frá árinu 1974. Fjölmargar þjóðir hafa tekið höndum saman og haldið upp á daginn með því að vekja athygli á mikilvægum þáttum í umhverfismálum heimsins. Að þessu sinni er líffræðileg fjölbreytni í brennidepli. Þar koma staðlar við sögu.

World Environment Day

Alþjóðlegu staðlasamtökin ISO hafa lagt drjúgan skerf til umhverfismála með starfi sínu og tilkynntu í tilefni dagsins stofnun nýrrar tækninefndar um líffræðilega fjölbreytni. Starf nefndarinnar verður að þróa staðla sem samræma hugtakanotkun, aðferðir og grundvallarviðmið varðandi líffræðilega fjölbreytni og styðja þannig skipulagsheildir af öllu tagi við að vinna á sjálfbæran hátt. Væntanlegum stöðlum verður ætlað að leiðbeina fyrirtækjum við að taka mið af líffræðilegri fjölbreytni í starfsemi sinni þar sem það á við. Með þessu móti vilja staðlasamtökin leggja sitt af mörkum til sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega þeim sem varða "Aðgerðir í loftslagsmálum" (markmið nr. 13); "Líf í vatni" (markmið nr. 14) og "Líf á landi" (markmið nr. 15).

Staðlar hafa lengi gengt stóru hlutverki í umhverfismálum. Frægasta dæmið er líklega ÍST EN ISO 14001 Umhverfisstjórnunarkerfi - Kröfur ásamt leiðsögn um notkun. Staðallinn er alþjóðlegur að uppruna en hefur verið gefinn út sem íslenskur staðall allt frá árinu 1996. Íslenskir og alþjóðlegir staðlar sem varða umhverfismál eru þó miklu fleiri og allir fáanlegir á vef Staðlaráðs.

Um alþjóðlega staðla sem varða sjálfbærni má lesa á vef Alþjóðlegu staðlasamtakanna ISO. Sjá hér >>

Um World Environment Day má lesa hér >>

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja