Kíló konungur settur af 15.11.18

Le grand K

Le grand K er með reglulegu millibili tekinn fram með viðhöfn, þveginn og strokinn með mjúkum geitaskinnsklút vættum í alkóhóli og tvíeimuðu vatni

Franska byltingin steypti kóngum og aðli en lyfti öðrum á stall. Metrakerfið er skilgetið afkvæmi byltingarinnar og var tekið upp á alþjóðavísu með undirritun samnings 17 þjóða í París árið 1875 (Convention du Métre). Þaðan er sprottið SI-kerfið, sem svo er kallað, hið alþjóðlega kerfi mælieininga. Sjö grunneiningar mynda SI-kerfið.

"Le grand K"

Sex grunneininganna eru skilgreindar með eðlisfræðilegum tilraunum. Metrinn var áður skilgreindur sem 1/10.000.000 hluti úr fjarlægðinni frá heimskauti til miðbaugs, eins og hún mælist á lengdarbaug gegnum París. Nú er metrinn hins vegar skilgreindur af meiri nákæmni sem sú vegalengd sem ljós í lofttæmi fer á 1/299.792.458 sekúndum.

Ein grunneiningin hefur lengi haft sérstöðu, en það er kílógrammið, stundum nefnt "le grand K." Það er bókstaflega áþreifanlegur hlutur með aðsetur í höll Loðvíks XVI, Pavillon de Breteuil. Höllin er í bænum Sèvres í nágrenni Parísar, en þar er einnig til húsa Alþjóðastofnunin fyrir vog og mál  (Organisation Internationale des Poids et Mesures). Kílóið er sívalningur gerður af manna höndum að 90% úr platínu og 10% úr iridíum, vandlega varðveittur undir tvöföldum glerkúpli. Nokkrar kvarðaðar eftirgerðir eru geymdar á ýmsum stöðum í heiminum, en kílógrammið í Pavillon de Breteuil er kóngurinn, einvaldurinn. Staðallinn sem allt miðast við.

Á þessu verður breyting. Vel getur verið að le grand K fái áfram að búa í höll sinni, en þá bara sem valdalaust tákn um liðna tíð. Ekki fyrsti kóngurinn í Evrópu sem hlýtur þau örlög. Nútímavísindi þurfa annars konar viðmið og miklu nákvæmari. Þau þurfa til dæmis að mæla milljónasta eða billjónasta hluta úr grammi og þá er gamli sívalningurinn einskis nýtur. Hann verður því settur af og ný skilgreining á kílógrammi tekin í notkun sem byggist á rafstraumi.

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja