ÍST 35 Samningsskilmálar um hönnun og ráðgjöf 30.05.18

Þann 15. maí síðastliðinn kom út endurskoðuð útgáfa af staðlinum ÍST 35 Samningsskilmálar um hönnun og ráðgjöf. Eldri staðall er frá árinu 1992 og var fyrsta útgáfa íslensks staðals sem lagði línurnar um samningsskilmála milli verkkaupa og ráðgjafa um hönnun og ráðgjöf. Endurskoðun staðalsins var tímabær.

Helstu breytingar
Miklar breytingar hafa orðið á flestum sviðum síðan 1992, eins og gefur að skilja. Þar á meðal breytingar á aðferðum og hugtakanotkun. Nokkur atriði taka breytingum í nýrri útgáfu og eru þessi helst:

  • Einn staðall tekur til samninga eftir útboð og án útboðs
  • Gildissvið staðalsins er um alla ráðgjöf vegna mannvirkja
  • Gildisröð samningsgagna skilgreind
  • Staðallinn að mestu notaður án sérákvæða
  • Nýjum hugtökum eins og hliðarráðgjafi og hópráðgjöf bætt við
  • Ítarlegri skilgreining á skyldum og réttindum samningsaðila
  • Skilgreiningar á meðferð mála vegna undirráðgjafa, hliðarráðgjafa og varðandi hópráðgjöf
  • Einhlít skilgreining á umboði til ákvarðana, umboðsmaður
  • Samningsform (Viðauki A) gert ítarlegra og fæst nú rafrænt til útfyllingar hjá Staðlaráði. Sjá hér >> 

Rögnvaldur Gunnarsson

Rögnvaldur Gunnarsson.

Horft til Norðurlanda
Þó að endurskoðun staðalsins ÍST 35 hafi verið orðuð annað slagið í nokkuð langan tíma, var það kannski útrás íslenskra verkfræðistofa á erlendan markað, í kjölfar þess að verkefni drógust mikið saman hér á landi eftir 2008, sem varð til þess að endurskoðuninni var hrundið af stað. Mörg af erlendum verkefnum verkfræðistofanna voru í Noregi og kynntust ráðgjafar þá öðru og nýrra staðlaumhverfi. Því lá beinast við að foskriftin til vinnuhópsins væri að horfa til norskra staðla. Norsku staðlarnir um skilmála við ráðgjafasamninga eru fyrst og fremst þrír, og fjalla um mismunandi samningsform og verkefni. Þeir voru gefnir út á árunum 2000-2010 og því mun yngri en ÍST 35:1992. Með þeirri sterku tilvísun í norska staðla, sem vinnuhópurinn fékk upphaflega sem leiðsögn, voru nokkrir möguleikar sem komu til umræðu. Ekki var talin álitleg lausn að taka upp norsku staðlana eða þýða þá óbreytta, þar sem þeir eru í ýmsum atriðum sértækir fyrir norskar aðstæður. Endanleg niðurstaða var að endurskoða ÍST 35:1992 og nota einn staðal. Auk norsku staðlana var ákveðið að horfa til reglna sem gilda um efnið í Danmörku og Svíþjóð.

Vinnuhópurinn
Vinnuhópur um endurskoðun staðalsins hélt sinn fyrsta fund í mars 2016, en alls urðu fundir hópsins 46 talsins. Hópinn skipuðu eftirtaldir:

Rögnvaldur Gunnarsson, Vegagerðin, formaður
Bjarni Gunnarsson, Félag ráðgjafaverkfræðinga
Egill Viðarsson, Félag ráðgjafaverkfræðinga
Guðlaugur Þórarinsson, Samorka
Guðmundur Pálmi Kristinsson, Samband íslenskra sveitarfélaga,
Kristjana Ósk Birgisdóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga
Helgi Már Halldórsson, Samtök arkitektastofa
Kolbeinn Kolbeinsson, Samtök Iðnaðarins
Örn Baldursson, Framkvæmdasýsla ríkissins
Arngrímur Blöndahl, ritari BSTR

Það eru alltaf nokkur tíðindi þegar nýr eða endurskoðaður íslenskur staðall lítur dagsins ljós. Vinnuhópurinn vonast til þess að ÍST 35:2018 reynist notadrjúgur næstu árin.


Rögnvaldur Gunnarsson, verkfræðingur.

ÍST 35:2018 fæst í Staðlabúðinni.
NÁNAR HÉR >>

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja