Boð um þátttöku í tækninefnd um API 30.05.18

Vilt þú taka þátt í starfi nýrrar tækninefndar um API-framleiðslu banka? Íslensku bankarnir ásamt Reiknistofu bankanna, Seðlabanka Íslands, hugbúnaðarfyrirtækjum, innheimtufyrirtækjum, fjártæknifyrirtækjum og fleiri hagsmunaaðilum hafa tekið höndum saman á vettvangi Staðlaráðs Íslands um það, hvernig bankarnir skuli haga smíði nýju skilflatanna (API) í tengslum við opið bankaumhverfi framtíðarinnar (e. Open banking).

Tilgangurinn er að setja nokkurs konar umferðarreglur í þessari nýju veröld og lágmarka umsýslukostnað allra sem málið varðar. Nefndin mun fyrst um sinn leggja áherslu á skilfleti tengda PSD2 og tryggja samræmda notkun á ISO 20022 staðlinum hérlendis með hliðsjón af notkun hans í Evrópu.

Þörf á fleiri fjártæknifyrirtækjum
Nefndin tók til starfa í maí og hefur haldið tvo vinnufundi. Næsti fundur verður haldinn hjá Staðlaráði í lok ágúst og verður nánar auglýstur síðar.


Rúm er fyrir fleiri vinnandi hendur í nefndinni og eru allir áhugasamir hvattir til að hafa samband við Guðmund Valsson hjá Staðlaráði Íslands, gudval@stadlar.is.

Sérstaklega er óskað eftir þátttöku fleiri fjártæknifyrirtækja.

Staðlaráð er opinn og hlutlaus vettvangur þar sem fjármálafyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar hafa heimild til að ræða saman um sameiginleg tæknimál sem varða grundvallar atriði í tækniumhverfi bankanna og talist geta til óumdeildrar þjóðhagslegrar hagkvæmni. Að öðrum kosti væri íslensku viðskiptalífi settar miklar skorður í framþróun og vexti tæknilausna.

Stóru atriðin fyrst
Þátttakendur í þessari nefnd hafa sammælst um mikilvægi þess að notendur fyrirhugaðra API samskipta (eins og t.d. fjártæknifyrirtækin) þurfi ekki endilega að aðlaga sig að heimagerðum og ólíkum stöðlum sérhvers banka um sig. Nefndin ætlar því að velja í haust einn af ríkj¬andi Evrópustöðlum og verður sumarið nýtt í margvíslega grein¬ing¬ar- og rannsóknarvinnu í tveimur hópum:

  • Í tæknihóp - sem setur fram tæknilegar samskiptakröfur gagnvart bönkunum
  • Í viðskiptahóp - sem setur fram viðskiptalegur kröfur um sjálft innihaldið í samskiptunum, þ.e. hvaða svæði eiga að vera í boði

Einblínt á tækniforskriftir fyrir PSD2
Höfum hugfast að ekki verður um nýjan staðal að ræða, heldur einungis einfaldar tækniforskriftir samkvæmt erlendum stöðlum (þ.m.t. ISO 20022). Þessu má líkja við að bankarnir séu að fara að smíða nýtt sambankaskema (IOBWS), nema með annarri tækni sem nefnd er API í daglegu tali.

Fyrst um sinn verður einblínt á þarfir PSD2 og hvernig innlendir og erlendir greiðsluþjónustuveitendur á Íslandi geti á sem einsleitasta hátt notið þeirra nýju lausna sem bankarnir munu tefla fram. Áætlað er að tækniforskriftir fyrir bæði innlendar greiðslur og innlán líti dagsins ljós á árinu 2019.

Fyrirhugaðar tækniforskriftir taka til sameiginlegra grunnatriða í greiðslumiðlun og yfirliti innlána. Fyrir því eru margar hagkvæmnisástæður. Innlendir bankar og fjártæknifyrirtæki þurfa að geta treyst því að íslenska umhverfið sé ekki svo mjög frábrugðið erlendu umhverfi, þannig að þau geti stundað sína framsókn. Á sama hátt þurfa erlendir bankar og fjártæknifyrirtæki að geta komið inn á íslenska bankamarkaðinn án stórkostlegra aðlagana að séríslensku tækniumhverfi. Íslenskur banki þarf til dæmis að geta sýnt yfirlit bankareiknings úr erlendum banka - og öfugt - án meiriháttar aðgangshindrana vegna staðbundinna útfærslna í hvoru landi um sig.

Ljóst má vera að bankarnir ætla allir að vera tvítyngdir og munu bæði kunna að tala hið sameiginlega API tungumál sem hér um ræðir - og líka sitt eigið tungumál sem þessi nefnd fjallar auðvitað ekki um.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Guðmundur Valsson hjá Staðlaráði Íslands. Vinsamlega hafið samband í síma 520 7150 eða með tölvupósti, gudval@stadlar.is

 

Staðlaráð Íslands    Þórunnartúni 2, 3. hæð, 105 Reykjavík    Kennitala: 591193 2019    Opnunartími    Sími 520 7150 fax 520 7171

Þessi síða notar vefkökur (e. cookies).

Nánari upplýsingar

Samþykkja